31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

105. mál, síldveiðar fyrir Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að síldveiðar hér við land hafa verið verulega takmarkaðar um árabil, um skeið bannaðar með öllu og nú á seinni árum aðeins leyfðar á takmörkuðum svæðum. Ekki skal dregið í efa að þessar takmarkanir eru sjálfsagðar og raunar bráðnauðsynlegar. Því skal ekki heldur haldið fram, að nú sé tími til kominn að hefja síldveiðar í stórum stíl fyrir Norðurlandi. Að áliti þeirra, sem gerst þekkja, er sá tími enn ekki upp runninn og verðum við enn að bíða um stund eftir því að síldarstofnar fyrir Norðurlandi nái þeim þroska að hagstætt sé að hefja á þeim verulegar veiðar.

Hitt er annað mál, að þeim, sem vel þekkja til þessara mála, og þar á ég við sjómenn og aðra áhugamenn á Norðurlandi, þykir sýnt að ekki sé nægilega vitað um stöðu síldarstofna fyrir Norðurlandi, þar sem rannsóknir eru ekki meiri en raun ber vitni. Því hafa menn varpað fram þeirri hugmynd, hvort ekki væri rétt að leyfa til að byrja með nokkrar tilraunaveiðar í smáum stíl til þess að auka með því rannsóknir at síldveiðistofnum fyrir Norðurlandi og til að fá úr því skorið, hvað mikið er af síld á þessum slóðum og af hvaða stofni hún er. Á það er m.a. bent, að engar rauðáturannsóknir hafa farið fram fyrir Norðurlandi, en rauðátan er einmitt fæðugrundvöllur síldarinnar. Vitað er að hvað eftir annað hefur orðið vart við verulegt síldarmagn fyrir Norðurlandi, t.d. á Húnaflóa sumarið 1976, og menn fengu þá ágæta síld í silunganet, m.a. á Blönduósi.

Spurningin er sem sagt sú, eins og kemur fram á þskj. 122: „Telur ekki sjútvrh. að óhætt sé að leyfa einhverjar tilraunaveiðar á síld fyrir Norðurlandi með reknetum.“ Hugmyndin væri þá sú, að leyfðar yrðu veiðar í smáum stíl, t.d. frá einum eða tveimur stöðum á Norðurlandi í ágústmánuði, og mætti þá á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fengjust við þær veiðar, taka frekari ákvarðanir um hve miklar veiðar væri rétt að leyfa.