31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

115. mál, negldir hjólbarðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að inna hæstv, iðnrh. eftir því, hvað gert hafi verið af hálfu iðnrn. til þess að styrkja uppfinningamanninn Einar Einarsson vélstjóra til að ljúka tilraunum sínum með hjólbarða með hreyfanlegur nöglum, eða við skulum segja hreyfanlegum skafla-járnum, svo að hægt sé að hefja. framleiðslu á þeim hér innanlands og nota þá til útflutnings. Þessi uppfinning Einars má nú orðið heita heimsfræg, Hún hefur verið kynnt víða um heim og víða að hafa komið fsp. til uppfinningamannsins og jafnvel pantanir á þessum hjólbörðum. Við sýnist blasa að hjólbarðar þessir séu ekki einungis snilldarsmíð og hin hugvitsamlegasta lausn á mjög svo brýnu vandamáli, heldur einnig hitt, sem mestu máli skiptir, þeir virðast vera framleiðanlegir og seljanlegir. Einar hefur árum saman sótt um styrk til þess að geta fullgert þessa uppgötvun sína og komið henni í framleiðslu. Að fráteknum þeim allt of skamma tíma, sem vinstri stjórnin sat hér við völd, hefur fengist harla lítið af opinberu fé til þessa verks.

Eftir því sem ég best veit liggja beinlínis fyrir hjá Einari Einarssyni pantanir á þessum hjólbörðum og útbúnaðurinn, sem að þessum hjólbörðum lýtur, erlendis frá upp á hundruð millj. kr. En ekki hefur tekist að sjá uppfinningamanninum fyrir því tiltölulega litla fé sem til þess þarf að gera þá hjólbarða sem nota þarf í tilraunaskyni á vegum úti, áður en hafin yrði eðlileg framleiðsla upp í þessar pantanir, En það hefur verið ljóst árum saman, að til þess þarf fjárveitingu sem nema mundi árslaunum tveggja manna, sem ynnu að því að framleiða hjólbarðana sem nota á í tilraunaskyni, fylgjast með því, hvernig útbúnaður þessi reynist, og gera á honum nauðsynlegar breytingar eftir því sem reynsla bendir til.

Ég inni sem sagt hæstv, iðnrh. eftir því, hvað gert hafi verið af hálfu iðnrh. til þess að styrkja Einar Einarsson í þessu starfi.