31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

115. mál, negldir hjólbarðar

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Einar Einarsson hefur snúið sér til iðnrn. varðandi hjólbarða þá með hreyfanlegum snjónöglum sem hann hefur fundið upp. Iðnrh. tók hugmynd Einars til meðferðar og athugunar og sendi málið til umsagnar Iðnþróunarstofnunar. Kostnaðaráætlun Einars við smíði hjólbarðanna og prófun útbúnaðar var um 11 millj. kr. Iðnþróunarstofnun kannaði málið og taldi, að rétt væri að prófa uppfinninguna betur en gert hefði verið, og mælti með nokkrum styrk til Einars í því skyni, Sú fjárhæð, sem Iðnþróunarstofnun gerði ráð fyrir að til þessa þyrfti, var á bilinu 1–2 millj. kr. Hins vegar taldi uppfinningamaðurinn þetta með öllu ófullnægjandi og taldi upphæðina miklu hærri eða, eins og ég gat um áðan, um 11 millj., kr.

Iðnrn. hefur ekki haft möguleika á að leggja fram fé til þess að ljúka smíði og prófun þessara naglahjólbarða í samræmi við óskir og áætlanir Einars. En rn. skrifaði fjvn. á s.l. hausti bréf sem var á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur haft til meðferðar styrkbeiðni Einars Einarssonar vegna tilrauna við sérstaka gerð naglahjólbarða. Rn. hefur verið kynnt erindi Einars til fjvn., dags. 25. ágúst 1977 og beiðni um fjárframlög til þessara tilrauna. Af því tilefni vill rn. kynna fjvn. niðurstöður stjórnar Iðnþróunarstofnunar Íslands í máli þessu og mæla með fjárstuðningi í samræmi við það.“

Fjvn. sá sér ekki fært að gera till. um fjárveitingar í þessu skyni í fjárl. fyrir 1978.

Það er rétt að taka fram, að í bréfi til n. hafði Einar fært upphæðina úr 11 millj. niður í um 8 millj. kr., eins og kemur fram í þeirri áætlun sem send var fjvn. En fjvn. hefur málið áfram til athugunar, að því er formaður n. hefur tjáð mér.