31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

115. mál, negldir hjólbarðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við þessari fsp. minni, það sem í ljós kom af hve litlum áhuga þessu viðfangsefni Einars Einarssonar vélstjóra hefur verið sinnt. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá nefndum Einari Einarssyni og öðrum aðilum, sem hafa kynnt sér þau mál, framleiðslu þessara sérstöku hjólbarða, gæti hér orðið um að ræða léttan iðnað við Framleiðslu tengibúnaðar við hjólbarða þessa er veitt gæti tugum, ef ekki hundruðum manna vinnu víðs vegar um landið. Ljóst er af bréfum þeim, sem uppfinningamanninum hafa borist, og jafnvel pöntunum, að áhugi er á kaupum á hjólbörðum þessum af mjög stórum landssvæðum frá mörgum þjóðríkjum. Ýmislegt bendir til þess, að mjög mikið yrði keypt af þessum hjólbörðum frá byggðu bóli svo til á öllu kaldtempraða svæðinu hringinn í kringum hnöttinn.

Þá er hitt ótalið, hver hagsbót hinum ýmsu bæjarfélögum yrði að því, að til kæmu vetrarhjólbarðar búnir þeim eiginleikum sem hér um ræðir, þ.e.a.s. hægt sé að draga inn þessa nagla. Samkv. upplýsingum gatnamálastjóra Reykjavíkurborgar nam tjón af völdum nagla á snjóhjólbörðum í Reykjavík einni saman 300 millj. kr. fyrir röskum þremur árum, Miðað við hreytingu á byggingarvísitölu á þessum tíma má áætla þetta tjón á þessum vetri ekki undir 600 millj. kr. Þá er ótalinn skaði sem negldir hjólbarðar vinna á slitlagi gatna í öðrum byggðarlögum. Þótt ekki væri nema þetta atriði eitt, þ.e.a.s. það tjón sem hægt væri að komast hjá með því að stuðla að því að þessir hjólbarðar yrðu fáanlegir, má leiða getur að því, að fjárframlag af hálfu hins opinbera til lokatilrauna með hjólbarða þessa gæti orðið býsna arðbær fjárfesting, miðað við ýmsar aðrar sem iðnrn. og Iðnþróunarstofnun hafa stutt að af tiltölulega miklu örlæti. T.d. virðist liggja í augum uppi að beinn hagnaður hins opinbera af því, ef nú mætti takast að fullgera þessa hjólbarða og koma þeim í notkun hér á landi, mundi árlega nema allt að því jafnhárri upphæð og nú blasir við að verða muni tapið á járnblendiverksmiðjunni uppi í Hvalfirði, og er það engin smáupphæð.