31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti, Ég vil svara fyrirspurninni eitthvað á þessa leið:

Í fyrsta lagi er í undirbúningi frv. til laga um embættisgengi kennara, þ. e. hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til þess að vera skipaður kennari við grunnskóla og framhaldsskóla, og er að því stefnt, að frv. verði lagt fyrir þetta þing og öllu heldur að það verði gert sem allra fyrst, þannig að það geti fengið meðferð og helst afgreiðslu á þessu þingi.

Í annan stað er að geta þess, að það hefur verið í athugun að undanförnu hjá menntmrn. að opna námskeið við Kennaraháskóla Íslands fyrir grunnskólakennara sem hafa ekki tilskilin réttindi. Þá hefur m.a. verið haft í huga, hvort hluti af náminu gæti farið fram á sumarnámskeiðum og í bréfaskólum. Það skortir nú skýlaus lagafyrirmæli um þetta efni, en eins og kunnugt er, þá eru lög um Kennaraháskóla Íslands í endurskoðun og búin að vera nokkuð lengi. Í vor var sýnt hér frv. og það verður væntanlega lagt fyrir Alþ., sem nú situr, alveg á næstunni. Í þessu frv. ellegar í frv. um embættisgengi kennara, ellegar í báðum ef það þykir rétt eðli málsins samkvæmt, munu verða ákvæði um þetta atriði.

Ég vil láta það koma fram hér, að menntmrn. mun leggja alveg sérstaka áherslu á að ná samstöðu við kennarasamtökin um aðgerðir til þess að kennurum, sem hafa starfað um hríð að kennslu, gefist kostur á að afla sér fullra kennsluréttinda. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að kennarasamtökin hafa sýnt þessu máli áhuga, ekki einasta með þeirri ábendingu sem getið var um í ályktuninni eystra og barst rn. og hefur verið þar til meðferðar ásamt öðrum ábendingum í sambandi við þessa frv: smíði, heldur einnig bæði áður og síðar.

Ég vil að lokum segja það, að allt mun þetta skýrast enn nánar þegar frv. þau, sem ég nefndi, verða fram lögð.