31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli, því að ég tel að hér sé um að ræða eitt af meiri háttar réttlætismálum í okkar þjóðfélagi.

Ég hef þá reynslu að hafa í barnaskóla notið kennslu manns sem mundi nú vera talinn réttindalaus kennari. Ég hef átt þess kost síðar að bera saman árangurinn af kennslu hans og ýmissa annarra ágætra kennara sem hafa full réttindi, en ég þori að fullyrða að þrátt fyrir ágæti þeirra hafa þeir ekki náð meiri árangri en hann. Ég tel mjög aðkallandi að sköpuð séu skilyrði til þess, að þeir mörgu kennarar, sem ekki hafa hin svokölluðu réttindi, geti öðlast þau, og ég fagna þeim áhuga sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. Ég óttast samt að á framkvæmd þessa máls verði of mikill dráttur ef hún á að bíða eftir framgangi þeirra frv, sem hann minntist á. Ég hygg að það geti vel farið svo, að það dragist eitthvað að þau verði samþ. hér á Alþ., — ég vona þó að svo verði ekki, — einnig að það dragist þó að þau verði samþ., að koma þeim í framkvæmd. Þess vegna álít ég að það sé ekki heppileg leið að tengja þetta mál við þau, heldur eigi að taka það upp sérstaklega og t.d. stuðla að því, að strax næsta vetur verði haldið námskeið, sem skapi þessum svokölluðu réttindalausu kennurum aðstöðu til þess að fá full réttindi, og síðan verði haldið áfram á þeirri braut.

Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá er þörf á þessu miklu víðar, og það er sjálfsagt að vinna að því. Ég held þó að þetta sé allra mikilvægasta málið í þessum efnum, vegna þess að uppeldismálin eru mikilvægustu málin hjá okkur og við eigum að skapa þeim mönnum, sem við felum að gegna kennslustörfum, sem besta aðstöðu og beita þá ekki misrétti, eins og ég tel að eigi sér stað nú í allt of mörgum tilfellum.