31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv, ráðh. fyrir svar hans, og einnig fagna ég þeim jákvæðu undirtektum sem fram komu í stuttum umsögnum þriggja þm. um þetta efni.

Það var fróðlegt að heyra þær upplýsingar af vörum hæstv. ráðh., að von væri á frv, um embættisgengi kennara, og vel má vera, að í því frv. verði fullnægjandi ákvæði um þetta efni, svo fremi að frv. nái fram að ganga fyrir þinglok, verði nægilega snemma komið til meðferðar hér í þinginu til að það verði mögulegt að afgreiða það. Ég vek hins vegar á því athygli, að tíminn til þingloka styttist óðum. Satt best að segja eru ekki nema í allra mesta lagi 10–12 vinnuvikur eftir hér í þinginu, og ef langt á í land að þetta frv. sjái hér dagsins ljós er að sjálfsögðu allt í óvissu um hvort það nær fram að ganga. Þess vegna tek ég undir það með hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að hyggilegt væri að athuga hvort ekki væri rétt að leysa þetta mál, sem hér er spurt um, sér á parti, án þess að bíða eftir örlögum þess frv, sem hæstv. menntmrh. boðaði. Ég vil taka undir þá ábendingu og bið hæstv. ráðh, að taka hana til vinsamlegrar athugunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, eins og ég sagði þegar ég mælti fyrir þessari fyrirspurn, að eftir að hafa bjargað heilum landshlutum í kennslumálum um árabil þarf enginn að efast um að hinir réttindalausu kennarar eiga sinn rétt. Þeir eiga sinn siðferðilega rétt sem verður að taka fullt tillit til og það fyrr en síðar.