31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Örfá orð aðeins í tilefni af þeim ummælum sem hér hafa fallið. Það er auðvitað eilífðarvandamál í þessu réttindanna þjóðfélagi sem við lifum nú í, hversu vega skuli saman reynslu annars vegar og nám hins vegar og þá þetta mál með réttindi kennaranna sem hafa ekki lokið námi eða fullnaðarprófi úr kennaraskóla eða kennaraháskóla, Það er náttúrulega ekki nýtt, þetta er lengi búið að vera að vefjast fyrir mönnum bæði í rn. og eins í samtökum kennara.

Varðandi væntanlegt frv, um embættisgengi kennara, hvort það gæti náð hér fram að ganga eða ekki, við skulum segja ef það sæi dagsins ljós í þinginu í næstu viku, þá er þess að gæta, að ég tel að það sé nauðsynlegt að fá stoð í lögum til þess að geta gert þarna verulega gagnlega hluti. Við höfum hana varla eins og er, ég skal þó ekki alveg fullyrða þetta, en það er mín skoðun. Og þá held ég að við förum ekki aðra skemmri leið að því marki heldur en að afgreiða þetta frv., vegna þess að ég held að aðalatriðið í þessu frv., sem þætti þurfa skoðunar við, væri einmitt ákvæðið um þetta. Alþ. er búið að afgreiða á undanförnum tveimur eða þremur þingum ein þrenn eða fern lög hliðstæð embættisgengi kennara. Það er lögin um sálfræðinga, um félagsráðgjafa, minnir mig, iðjuþjálfa o.s.frv. tilsvarandi lög um starfsréttindi ýmissa annarra hópa. Og ég held að fæst atriði í þessum lögum mundu vefjast verulega fyrir þm., nema þá einmitt þetta ákvæði sem nauðsynlegt er að mínum dómi að fá lögfest

Það er auðvitað satt sem komið hefur fram bæði hér og áður, að ástandið í þessum efnum er ekki gott, og þar eru auðvitað tvær hliðar á: Annars vegar sú sem veit að kennslunni og þar er m.a. það atriði ákaflega alvarlegt, vil ég segja, hversu tíð kennaraskipti eru í ýmsum skólum. Ég veit satt að segja ekki hvort það út af fyrir sig mundi svo mikið breytast þó að allir, sem starfa við kennslu, hefðu full réttindi, því að tilhneiging til að færa sig á milli staða og starfa í embættiskerfinu og ekki síst í svo fjölmennri stétt er æðimikil. Þó má vera að það leiddi einnig af sér meiri festu, og vissulega ætti það að tryggja betri kennslu. Öryggisleysi þeirra kennara, sem starfað hafa árum saman og eru búnir að afla sér mikillar þjálfunar og hafa reynst vel færir í starfi, er óviðunandi út af fyrir sig. Ég held að þetta ástand versni ekki að marki á þessum missirum. Það er nýlega komin skýrsla, þó ekki alveg frágengin, fyrir síðasta skólaár, og hún bendir ekki til að það hafi orðið neinar verulegar breytingar. Það er ástæða til að vekja athygli á því, að í hópi þessara svokölluðu og vissulega í raun — réttindalausu kennara eru auðvitað fjölmargir menn sem hafa mikið til brunns að bera. Í þeim hópi eru nokkuð margir menn, sem hafa starfað árum saman að kennslu og eru orðnir langreyndir, ágætir kennarar. Í þessum hópi er töluvert af fagmönnum í ýmsum greinum: handiðju ýmiss konar, tónmennt, öðrum listum og fleira, faglærðir iðnaðarmenn, t.d. háskólamenn sem hafa háskólapróf í tilteknum greinum þó þeir hafi ekki uppeldis- og kennslufræðipróf. Þeir kenna oft sín sérstöku fög, eru ekki fastir bekkjarkennarar. Þetta lagar myndina örlítið frá því sem hún lítur út ef við segjum aðeins: þessi hefur réttindi og hinn ekki réttindi.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. En hitt er svo, að fyrst eftir breytingu kennaraskólans í kennaraháskóla dró úr aðsókn. Ég skal ekki fremur en hv. 7. landsk. þm. fara að fjölyrða neitt um það. Þetta er gerður hlutur. En nú hefur orðið mjöð mikil breyting, því það er ákaflega mikil aðsókn að kennaraháskólanum núna. Spáir það góðu um framhaldið og möguleika á því að ráða fullmenntaða kennara til starfa.

En þá er eitt sem ég vil vekja athygli á enn og aftur, og það er það, hvernig við höfum búið að kennaramenntuninni í landinu hvað snertir aðstöðu alla. Þegar Kennaraháskólahúsið var teiknað og hannað var það ætlað fyrir tæplega þann fjölda sem er í skólanum í dag. En svo er aldrei byggð nema ein álma, einn áfangi, og það er erfitt að byggja a.m.k. 3/5 af því sem ætlað er fyrir þann fjölda sem er í skólanum núna. Að hluta er þetta bætt með því að hafa vissar greinar úti í bæ og sumt í allsendis óhæfu húsnæði, eins og í gamla kennaraskólahúsinu, sem er orðið mjög úr sér gengið, og þetta eru náttúrulega vandræði. Nú, það er búið að veita fé tvisvar til framkvæmda og verður vonandi hægt að hefjast handa í ár. En það tekur tíma að vinna það upp sem þarna hefur tapast. Þetta er og verður um einhvern tíma kennaramenntuninni í landinu mikill fjötur um fót og getur orðið til þess beinlínis að koma í veg fyrir að nægilega margir einstaklingar geti hafið nám og lokið námi í þessum fræðum.

Frv. um endurskoðun á lögum um kennaraháskóla Íslands er svo mál út af fyrir sig. Ég held að það gæti orðið tafsamara að afgreiða það hér í þinginu heldur en frv. um embættisgengi. Að vísu er þar ekki um neinar stórbreytingar að ræða, nema það er eitt atriði sem hv. þm, muna eftir frá því í fyrra, hversu með skuli fara kennslu í uppeldis- og kennslufræðum. En ég fer ekki nánar út í það. Mig langaði til þess að vekja athygli á þessum atriðum aðeins í framhaldi af þeim ágætu og málefnalegu umr, sem hér hafa farið fram og ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir, því það er aldrei nema til góðs að vekja athygli á svona þýðingarmiklum þáttum.