31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað ekki tími til þess á aðeins tveimur mínútum að ræða mikið það mál sem hér er til umr., og kannske er mér málið of skylt til þess að ræða það mikið, því að ég hef átt hlut að máli um nokkurra ára skeið, að vísu hæstv. menntmrh. líka. Ég vil þó nota þetta tækifæri til þess að taka undir það sem hér hefur komið fram, nauðsynina á því að tryggja í raun og veru rétt þeirra manna sem um áraraðir, sumir hverjir um áratugi, hafa í bókstaflegri merkingu bjargað því í mörgum skólahéruðum, að skólastofnanir hafa verið reknar.

A.m.k. í mínu kjördæmi eru mörg dæmi þess, að ef þessir einstaklingar hefðu ekki sinnt þessu starfi sem réttindalausir kennarar, þá hefðu margar skólastofnanir ekki verið reknar í mörg ár. (Gripið fram í.) Jú, ég var einmitt að segja það, að þetta er kannske of skylt mér til þess að ræða það hér, en ég legg nú í það samt. En málið er sem sagt þetta, að það er staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá, að á undanförnum árum og áratugum er það ótrúlega stór hópur einstaklinga, réttindalausra kennara, bæði karla og kvenna, sem hefur bókstaflega bjargað því að skólastofnanir hafa verið reknar. Og ég fullyrði það, að í mörgum — ótrúlega mörgum tilfellum kannske, þegar litið er til þess, að menn líta alltaf prófskírteini stórum augum, — en það er í ótrúlega mörgum tilfellum sem þessir einstaklingar eru síst verri kennarar en þeir, sem hafa staðfest prófskírteini, og þeir hafa alls ekki skilað lélegri árangri en réttindamennirnir. Þetta er auðvitað misjafnt í báðum hópum, en ég fullyrði að það er stór hópur af þeim réttindalausu sem alls ekki hefur skilað lakari árangri en hinir.

Ég vil að síðustu, herra forseti, taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni og hv. þm. Ilagnar Arnalds tók reyndar undir líka, að ég tel fulla nauðsyn á að flýta þessu máli, ekki bíða eftir því, að þetta verði tengt þeim frv., sem hér eru boðuð, heldur að þetta mál verði tekið upp sérstaklega og það með þeim hætti og á þann veg, að það geti orðið að veruleika strax á næsta vetri, að slíku námskeiði sem hér er um talað verði komið á fót.