31.01.1978
Sameinað þing: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar till., allir hæstv. þingforsetar, taka ekki afstöðu til þess máls sem till. fjallar um, þ.e.a.s. hvort afnema skuli prestskosningar. Þetta ber að hafa í huga. Þeir flytja þessa till. til þess að leysa úr vanda sem þeir telja upp kominn í sambandi við þetta mál, afstöðu manna til prestskosninga. Engu að síður verður það að teljast skrýtið, nú á þessum tímum þegar uppi eru vaxandi kröfur um aukið lýðræði, vaxandi kröfur um að almenningur fái að hafa meiri áhrif á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins, að þá skuli flutt till. sem stefnir að því að afnema eða skerða, skulum við a.m.k. segja, lýðræðið, stefnir að því, að þjóðin sé að því spurð, hvort hún vilji ekki láta skerða víss lýðréttindi sem hún nýtur. Ég endurtek það, að mér virðist þetta næsta skrýtið. Og vegna þessa eðlis till. er ég andvígur henni. Þar að auki sýnist mér að ef ætti að fara að efna til þjóðaratkvæðis, loksins að veita þjóðinni tækifæri til að neyta þess réttar sem ákvæðin um þjóðaratkv. fela í sér, þá verði það látið snúast um þetta mál, ekki stærra mál en þetta, eins og uppi hafa nú verið kröfurnar oft á tíðum um stórmál, að þau yrðu borin undir þjóðaratkv., en þeim kröfum jafnan neitað. Ég vil ekki láta afnema prestskosningar, og það er a.m.k. gagnvart mínum skilningi á lýðréttindum og lýðræðislegum hugsunarhætti brot á siðareglum lýðræðis að ætla sér að fara að spyrja þjóðina hvort hún sé ekki tilbúin að afsala sér lýðréttindum.

Ég er ekki trúmaður samkv. ritúali þjóðkirkjunnar, ég er heldur trúlítill samkv. því ritúali. Og vegna grunsemda, sem upp kynnu að koma um það, að þessi afstaða mín ráðist af því, að ég sé á móti þjóðkirkjunni, þá skal það tekið skýrt fram, að það er nú síður en svo. Þjóðkirkjan íslenska er að mínum dómi að mörgu leyti til fyrirmyndar trúarstofnun, þegar hún er borin saman við ýmsar aðrar trúarstofnanir. Hinn breiði faðmur þjóðkirkjunnar, þar sem er pláss fyrir alls konar ólík sjónarmið, er mjög góður, hann er heppilegur fyrir þessa þjóð. Ég vil líka taka það fram, að margir þeir menn, sem ég tel mætasta þeirra manna sem hafa orðið mér samferða á lífsleiðinni, hafa verið klerkar, einkum og sér í lagi sveitaklerkar, dreifbýlisklerkar. Og af því að ég var að tala um hinn breiða faðm þjóðkirkjunnar, þá vil ég nefna það, að einn þessara klerka, sem nú er látinn, var að mínum dómi sérlega góður fulltrúi þessarar þjóðkirkju okkar í sínu viðhorfi til trúmála. Hann var að sjálfsögðu, eins og lög gera ráð fyrir, klerkur hinnar evangelísk-lútersku kirkju, þjóðkirkjunnar íslensku. En í ýmsum útleggingum sínum varðandi trúmál og einnig varðandi kirkjusiði var hann óumdeilanlega kaþólskur, að ýmsu leyti miklu kaþólskari heldur en lúterskur. Þar að auki var hann sannfærður spíritisti. M.ö.o.: þessi eini maður ól í sál sinni sjónarmið sem mundu hafa orðið mikil deiluefni annars staðar. Í þessum góða manni sameinuðust öll þessi sjónarmið og úr varð ekkert stríð. En hvert þessara sjónarmiða fyrir sig hefði gert hann að villutrúarmanni hjá annarri trúarstofnun öndverðri: sjónarmið hans varðandi lúterskuna náttúrlega gert hann að villutrúarmanni í augum hinnar pápísku kirkju, hin pápísku sjónarmið hans að villutrúarmanni í augum stranglúterskrar kirkju þar sem ofstæki hefði ríkt meira en í þjóákirkjunni íslensku, og spíritismi hans hefði að sjálfsögðu hrundið honum út af sakramentinu hjá kaþólikkum — og sumum lúterönum líka. Svona eiga sýslumenn að vera! Svona eiga klerkar að vera: Slíkir klerkar eru til sóma fyrir þjóðkirkju okkar Íslendinga. Og hún á að vera sem líkust þessum klerkum. Hún hefur verið það, og hún á að vera það.

Ég segi þetta vegna þess að mér hefur ofboðið, eins og sjálfsagt mörgum öðrum Íslendingum, það trúarofstæki sem oft herjar eins og farsótt hjá nágrönnum okkar — og ekki hvað síst þeim sem skyldastir okkur eru, t.d. norðmönnum. Með tilliti til þessa hef ég nú lengi verið mjög andvígur þeim hugmyndum, sem skaut upp oft á tíðum hér fyrr meir í þeim pólitísku röðum, sem ég tilheyrði, Sósíalistaflokknum gamla t.d., að það ætti að aðskilja ríki og kirkju. Ég er andvígur því, vegna þess að þá mundi þjóðkirkjan íslenska lamast, hennar breiði faðmur mundi þrengjast, kannske kólna líka, en upp mundu spretta sértrúarsöfnuðir með allt sitt ofstæki. Ég tel m.ö.o. að þetta fyrirkomulag okkar, þetta frjálslynda fyrirkomulag okkar í þjóðkirkjunni, hafi bægt frá okkur þeim ófögnuði sem sértrúarofstækið er t.d. á Norðurlöndum, hjá frændum okkar. Það hefur aðeins örlað á þessu ofstæki hérna stundum. Fyrir 35–40 árum kom t.d. einn af spámönnum norska ofstækisins hingað og bókstaflega sturlaði bestu manneskjur, fólk truflaðist af ofstækisboðskap hans og helvítisrausi. Hann fór fljótlega aftur til Noregs, þessi maður, og síðan lagaðist sálarástand Íslendinga aftur á ekkert mjög löngum tíma.

Af hverju er nú þetta mál hér uppi aftur og aftur og aftur? Það er vegna þess að Kirkjuþing og önnur samtök klerka eru alltaf að fara fram á það, að prestskosningar verði afnumdar. Og í röksemdum fyrir því, að afnema skuli prestskosningar, og m.a. í röksemdum fyrir því, að nauðsynlegt sé að leggja þetta undir dóm þjóðarinnar, þeim röksemdum sem koma fram í grg. með þessari till., er aftur og aftur vitnað í klerka, samtök klerka, sem vilja endilega láta afnema prestskosningar. Og þetta eiga að vera sérstök meðmæli með hugmyndinni! Það eiga að vera sérstök meðmæli með henni, að þeir, sem telja sig hart leikna af þessum lýðréttindum, vilja endilega láta afnema þaul Ætli það yrðu talin meðmæli t.d. með hugmynd, sem væri náttúrlega fáránleg, að afnema alþingiskosningar, þingmenn sætu hér lon og don án kosninga ætli það yrðu talin meðmæli með slíkri hugmynd að þm. stæðu einhuga um hana? Ætli hún teldist ekki nokkuð grunsamleg einmitt fyrir það? Ég hef sett mig töluvert inn í þessi mál þrátt fyrir allt trúleysið, vegna þess að þau snerta mannssálirnar, bæði trúaðar og ótrúaðar, í þessu landi. En jafnvel þótt ég hefði ekki sett mig inn í málin hefði ég látið þetta nægja sem röksemd fyrir því að vera á móti hugmyndinni, að hún kemur frá þeim mönnum sem kveinka sér undan því að kosið sé um þá.

Það stendur hér á einum stað í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Af hálfu þjóðkirkjunnar hafa verið færð þau rök fyrir nýrri skipan um veitingu prestakalla, „að prestskosningar í núverandi mynd reynast einatt illkynjuð þolraun fyrir söfnuðina og að þær geri prestum óeðlilega erfitt að færa sig til á starfssviði sínu:““

„Illkynjuð þolraun fyrir söfnuðina: Ég hef hvergi á Vesturlandi heyrt menn kveinka sér undan því að taka þátt í prestskosningum. Mönnum finnst þetta yfirleitt hressandi dægrastytting, þeim sem eru þá ekki þeim mun ofstækisfyllri, fyrir utan það, að menn vilja auðvitað fá að ráða því, hver presturinn er. Sumir taka líka þátt í þessu af sömu ástæðu og þeir taka þátt í prófkjöri eða fara á íþróttavöllinn.

Ég nefni prófkjör. Ég sé ekki betur en að prestar lýsi þannig prestskosningum, að þeim verði helst líkt við prófkosningar flokkanna að því er snertir óþokkaleg vinnubrögð, róg, níð og mannskemmdir. Mannskemmdir spretta vitaskuld af því að það er eitthvað í ólagi með þá sem taka þátt í kosningunum, en ekki af því að kosningarnar í sjálfu sér séu endilega forkastanlegar. Ef það eru nú góðir menn, sem beita sér í prestskosningum, heiðarlegir menn og lausir við andlegan sora, þá á ekki að þurfa að óttast slíkt. Ef það er rétt, að slíkur sori komi upp á yfirborðið þegar þjóðkirkjan stendur fyrir kosningum, þá vil ég spyrja: Er eitthvað í ólagi með þjóðkirkjuna? Ég held reyndar, að svo sé ekki, og vitna til þess sem ég er þegar búinn að segja: þetta er ágætisstofnun.

Ég vitna aftur til þess sem ég var að lesa. Það er talað um að prestskosningar reynist „oft og einatt illkynjuð þolraun fyrir söfnuðina“. Þess vegna eigum við að afnema prestkosningar. Hvað segir þjóðkirkjan eða forustumenn hennar, sem standa fyrir þessum kröfum aftur og aftur, — hvað segja þeir ef presturinn reynist „illkynjuð þolraun“ fyrir söfnuðinn? Er þá ekki spurning hvort ekki eigi að gefa söfnuðinum tækifæri til þess að losna við slíkan prest? Og væri þá ekki réttara, í staðinn fyrir að afnema prestskosningar, að setja það í landsins lög, að prestum skuli skylt að láta kjósa um sig, ef þess er krafist af söfnuðum á t.d. 4–5 ára fresti`? Og hér vil ég ítreka þá hugmynd mína, að biskupinn yfir Íslandi, „herra biskupinn yfir Íslandi“, eins og það heitir samkv. ritúalinu, verði líka, ef þess er krafist eða ef einhver frambjóðandi kemur fram á móti honum, að takast á um sitt embætti í almennum kosningum. Í þessu er ekki fólgið neitt vantraust á núv. herra biskupinn yfir Íslandi, heldur tel ég það sjálfsagt, þar sem um er að ræða svo valdamikið embætti, að sá, sem sest í það, eigi það ekki tryggt að geta setið í því til eilífðarnóns, ef honum verði eitthvað alvarlegt á, þá sé hægt að koma honum frá og setja betri mann í staðinn.

En hitt vil ég segja að lokum um okkar hv. núv. biskupinn yfir Íslandi, að mér þykir að sá góði maður hafi gerst sekur um óviðurkvæmilega framkomu gagnvart þessari stofnun, svo sem þegar hann kemur fram í sjónvarpi og talar um það varðandi prestskosningar, að þm., sem eru andvígir afnámi prestskosninga, séu að „fleipra“ eða „blaðra“ um mál sem þeim komi ekki við eða þeir hafi ekkert vit á. slíkt verður ekki kallað annað en óviðurkvæmilegur hroki af hálfu æðsta manns þjóðkirkjunnar gagnvart þessari stofnun, Alþingi, æðstu stofnun íslensku þjóðarinnar.