31.01.1978
Sameinað þing: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það hefur farið svo nú sem oft fyrr, þegar þáltill. hafa verið fluttar í tengslum við hugsanlega endurskoðun á l. um veitingu prestakalla, að meginhluti af ræðum manna hefur fjallað um það sem hefur verið kallað afnám prestskosninga eða ekki afnám prestskosninga og þess vegna verið að verulegu leyti utan við efni till. Þeir, sem hér hafa talað að undanförnu, hafa þó í örfáum orðum tjáð afstöðu sína til till. efnislega séð, og ég fæ ekki betur séð, a.m.k. svo lengi sem ég hef fylgst með umr., en að nánast allir, að undanskildum frsm., leggist gegn samþykkt till. En það kunna að vera mismunandi forsendur sem liggja þar að baki, en þó held ég að meginforsendurnar séu allar þær hinar sömu.

Það kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan, 7. landsk. þm., að hann líti að vísu á þessa till. með velvilja, vegna þess að hann teldi að hér væri um sáttatillögu að ræða. Ég verð að segja að ég er honum ósammála um þetta atriði, Þessa till., eins og hún kemur fram nú á þessu þingi, tel ég síst af öllu vera sáttatillögu í þessu máli. Og á hverju ætli ég byggi það mat mitt?

Á tveimur síðustu þingum hefur verið hér til meðferðar þáltill. um að skipa n. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla. Það er mjög rangt með farið hjá hv. síðasta ræðumanni, Sverri Hermannssyni, að það hafi dottið niður áhugi flm. fyrir afgreiðslu till. þegar brtt. kom fram frá þeim félögum. Hann hefur líka fullyrt hér mjög ákveðið að þessi till hafi ekki haft meirihlutafylgi hér á Alþ. Þessi fullyrðing er algerlega úr lausu lofti gripin. Ég vil benda á það, að á hinu fyrra þingi, næstsíðasta þingi, afgreiddi allshn. Sþ. þessa till. jákvætt efnislega séð, enda þótt menn úr n. hefðu mismunandi skoðanir um það, hvort lögunum bæri að breyta verulega eða fella niður prestskosningar eða ekki. Þeir töldu rétt að verða við þeirri ósk að skipa nefnd til að athuga málið. Hins vegar var sú ástæða fyrir því, að málið dagaði uppi á þingi, að þegar verið var að ljúka störfum röðuðu andstæðingar till. sér á mælendaskrá og hurfu svo af vettvangi, en óskuðu eftir að málið yrði ekki útrætt fyrr en þeir væru reiðubúnir að tala, og okkar ágæti forseti varð við þeim tilmælum, eins og hann gerir yfir höfuð. En þar var ástæðan fyrir því, að till. fékk ekki afgreiðslu. (Gripið fram í.) Það er rétt, á síðustu nótt þingsins.

Ég leit svo á, og ég hygg að fjöldi þm. hafi litið svo á, að þegar till. um þjóðaratkvgr. kom fram á síðasta þingi, hafi hún verið sett til höfuðs þeirri till. sem þá lá fyrir nefndarskipun, enda fór svo, að hvorug till. varð útrædd á því þingi.

Hv. ræðumaður Sverrir Hermannsson minntist á það áðan, að þessi till. væri nú endurflutt, En ég man ekki betur en hann hefði þá afstöðu í fyrra, að hann vildi ekkert hafa með hana að gera, heldar eingöngu fella allar till, sem kæmu hér inn á Alþ. um breytingar. Nú kann að vera spurning um það, hver tilgangurinn sé þá með flutningnum núna. Ég get ekki leitt það hjá mér að geta mér þess til, að hún sé dulbúið vantraust á kirkjumrh. fyrir það, að hann skipaði n. á s.l. sumri til þess að endurskoða lögin. Það hljóta að vera alveg sérstakar ástæður sem liggja að baki, þegar lögð er þung áhersla á það í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins að láta fara fram þjóðaratkvgr. og það áður en jafnvel Alþ. gefst kostur á því að fjalla um þá niðurstöðu, sem sú n. sem að þessum málum vinnur, kemst að þegar Inn skilar áliti.

Hv. 3. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson, gagnrýndi áðan ráðh. mjög fyrir vinnubrögð varðandi skipun n., og það hafa raunar fleiri gert vegna þess hverjir eru í n., en hann fyrst og fremst fyrir að hafa skipað n. Það er að vísu rétt, að það er vitnað til þessarar þáltill. sem lá hér fyrir þinginu í fyrra, en niðurlagið er eins og hv. þm. las: „enn fremur fyrri umfjöllun þessa málefnis á Alþingi og Kirkjuþingi“. Og ég vil vitna í það sem ég sagði hér einu sinni í haust, þegar þessi sami hv. þm. færði þetta í tal undir allt öðrum umr., að hjá ríkisstj. hefur málið legið í nokkur ár, þar sem Alþ. vísaði því frv., sem þá lá fyrir þinginu, til ríkisstj. Og ég verð að segja það, að þó að ekki væri nema þetta eitt, þá sé ég ekki hvaða vinnubrögð geta verið eðlilegri hjá ráðh. en að skipa n. til þess að fjalla frekar um málið og vita hvort er hægt að finna á því einhvern þann flöt sem Kirkjuþing gæti sætt sig við og Alþ. féllist líka á. Ég held þess vegna að það sé ekki tímabært að leggja þetta mat nú undir dóm þjóðarinnar, af sömu ástæðu og kom fram í ræðu þeirra hv. 5. þm. Vestf. og hv. 7. landsk, þm., þeirra Karvels Pálmasonar og Helga Seljans, vegna þess að ég tel að ef til þess kæmi þyrfti að leggja þar fram ákveðna kosti sem fólk veldi um.

Menn hafa verið hér, — ég get ekki stillt mig um að minnast á það, — menn hafa verið hér ærið þungorðir í garð biskups. Ég vil aðeins segja það af því tilefni, að mér þykja þau ummæli óviðurkvæmileg á þessum stað nú. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að biskup hefur látið þung orð falla í garð Alþingis, En ég er ekki allsendis viss um að þau þungu orð séu rétt tilfærð og í réttu samhengi. Ég er ekki allsendis viss um það, að hann hafi talað um að menn göspruðu um málið sem slíkt, um það, hvort ætti að afnema prestskosningar eða ekki. En hann talaði um það, að menn hefðu ýmislegt í flimtingum, og ég hygg, að ef við förum yfir ræður þm, á næstsíðasta þingi og lesum þær vel, og það væri kannske hægt síðar að vitna í þær, þá megi það ljóst vera, að menn ræddu um allt annað en kosningarnar sem slíkar. Þeir ræddu um allt annað, um hvernig prestar ættu að vera, hvernig þeir væru og hvernig þeir vildu hafa þá, og þar tel ég koma réttilega fram það sem hægt væri að flokka undir hugtakið gaspur.

Okkur þremenningum, sem sitjum hér á Alþ. og eigum sæti í umræddri n., hafa verið gerðar upp ákveðnar skoðanir, að við höfum fyrir fram mótaðar skoðanir í þessu máli, Það hefur jafnframt komið fram, að það sé kannske ekki borin von að einhverjir okkar kunni að skipta um skoðun, afgerandi skoðun um hvernig þessum málum skuli skipað. Ég man ekki betur en ég hafi alltaf lagt á það þunga áherslu, að ég væri ekki reiðubúinn til þess að ræða um einstök efnisatriði þess álits sem kæmi frá væntanlegri n. Það lá allt óljóst fyrir þá, ef slík n, yrði sett á laggirnar, hverjir yrðu í henni. (Gripið fram í.) Ég skal svara því, Hins vegar stend ég að sjálfsögðu að því frv. eða drögum að því frv., sem samþykkt var á Kirkjuþingi, á þeim vettvangi. Ég hef hins vegar sagt að ég hefði allan fyrirvara á um það, hvort ég rígbind mig við það að fylgja því frv. í einu og öllu eða leita að nýjum leiðum sem kynnu að sætta ólík sjónarmið. Ég vildi gera grein fyrir skoðun minni og að hverju ég vildi standa þegar málið yrði til umr. á því stigi og hef þess vegna aldrei bundið mig fast við eitthvert ákveðið form fyrir fram. Hitt er svo allt annað mál, að ég hef verið ósammála hv. ræðumönnum um ýmis atriði. Ég hef t.d. verið ósammála um skilgreiningu á lýðræði, eins og það er framkvæmt í núverandi formi, og það er líka rétt, að ég hef talað hér um ýmsa þá ókosti sem fylgja prestskosningum í núverandi formi.

Ég ætla að geyma mér til síðari tíma að ræða efnislega um málið. Ég veit að sú n., sem starfar að þessum málum nú, vill gera sér far um að leita að þeim leiðum sem vænlegastar eru til þess að þoka því til betri vegar og þoka því í þá átt sem samstaða kynni að nást um eða a.m.k. einhver ákveðin meirihlutaafstaða. Mér er óhætt að segja það á þessu stigi, að n. hefur gert nokkuð víðtæka könnun meðal allra sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa í landinu, og ég hygg að n. komi til með að geta byggt þar á nokkrum grunni, enda þótt ég heyri hér í ræðu að samtök eins og Kirkjuþing, héraðsfundir og sóknarnefndir og ekki einu sinni safnaðarfundir séu marktækir um slík mál. Þegar safnaðarfundir eru ekki marktækir, hverjir eru þá marktækir? Er það kannske hasarlýðurinn, sem aldrei vill skipta sér á nokkurn hátt af kirkjulegum málefnum, en er reiðubúinn til alls þegar kemur til prestskosninga eða prófkjörs, eins og hv. 5. þm. Vesturl. nefndi hér áðan? Það er kannske þangað sem við eigum að stefna í þessum málum.

Það eru vissulega margar hugmyndir uppi, t.d. að kjósa til skamms tíma, láta kjörtímabil presta vera ákveðinn árafjölda, Ég skil það ósköp vel, að hv. 5. þm. Vestf, sagði áðan að þm. kynni að þykja það flott, ef þeir væru kosnir til 8 ára. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að þar með er spurning um samræmingu hjá embættismönnum ríkisins, Ég hafna akki þessari hugmynd alfarið á þessu stigi, Ég er ekki heldur að hafna hugmyndinni um það, að biskup verði kosinn aðeins til ákveðins árafjölda. Slíkar hræringar eru annars staðar sbr. háskólarektor, þjóðleikhússtjóra, hygg ég, rektor Kennaraháskólans. Ég er ekki að hafna slíkum hugmyndum á þessu stigi. Þær eru til athugunar. En þær ná út fyrir það málefni sem við erum að tala hér um núna.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, hæstv. forseti, á þessu stigi. Ég hygg að ég sé búinn að svara flestu af því sem fram kom í ræðu hv. 3, þm, Austf. Ég vil þó aðeins benda honum á það í lokin, þar sem hann dróttar því að æðstu mönnum þjóðkirkjunnar að þeir séu með valdabrölt, að þeir vilji ráða þessum hlutum sjálfir, — ég vil benda honum á það, að hér er verið að skipa málum til langs tíma og það er ákaflega hæpið að beina skeytum sínum og aðdróttun um að mönnum og þá kannske að æðsta manni þjóðkirkjunnar sem á eftir mjög fá ár af starfstíma sínum sakir hás embættisaldurs og aldurs.