01.02.1978
Efri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

152. mál, þinglýsingalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fram um þinglýsingar, varðar mjög mikilvægt mál. Það er allmikið að vöxtum. Það hefur að geyma mörg nýmæli. Það má því segja að það væri við hæfi að fylgja því úr hlaði með nokkuð langri og ítarlegri framsöguræðu. Ég mun þó reyna að stilla máli mínu í hóf og láta nægja að ýmsu leyti að vísa til langra og ítarlegra athugasemda og skýringa sem fylgja frv.

Mönnum hefur lengi verið það ljóst að það hefur verið þörf nýrrar lagasetningar um þinglýsingar. Gildandi löggjöf um það efni hefur alltaf verið ófullkomin að því leyti til, að hún hefur fyrst og fremst varðað aðeins framkvæmd þinglýsingar, en hins vegar hefur hún ekki geymt að kalla má nein ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar. Og þau ákvæði um framkvæmd þinglýsingar, sem er að finna í lögunum, eru fyrir löngu úrelt orðin og ófullkomin. Það var þess vegna, að um það bil fyrir 20 árum var efnt til athugunar á þessari löggjöf og samið frv. um það efni. Það var lagt fyrir Alþ. einum þrisvar sinnum, síðast að ég ætla árið 1964, en þetta frv. hlaut ekki byr og munu ýmsar ástæður hafa valdið því.

Nú hefur verið samið nýtt frv. um það efni. Þó að það sé að ýmsu leyti efnislega byggt á svipuðum sjónarmiðum og hið eldra frv., þá er það þó í talsvert öðrum búningi. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur dr. Gaukur Jörundsson prófessor samið, en notið við það aðstoðar tveggja starfsmanna dómsmrn., þeirra Þorleifs Pálssonar deildarstjóra og Þorsteins A. Jónssonar fulltrúa. Það felur í sér gagngera breyting á framkvæmd þinglýsingar, og í öðru lagi er að finna í frv. ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar, en slík ákvæði hefur, eins og ég sagði, að mestu leyti vantað hingað til í íslenska löggjöf.

Þetta nýja frv. til þinglýsingalaga miðar að því, eins og fram kemur í aths., að á hverjum tíma megi fá sem greiðastar og öruggastar upplýsingar um réttindi yfir fasteignum og öðrum eignum er jafna má til fasteigna svo og að reglur um réttaráhrif séu sem skýrastar. En eins og ég drap á í upphafi, hefur um nokkurt skeið verið ljóst að fyrirkomulag það á skráningu réttinda yfir fasteignum, sem gert er ráð fyrir í núgildandi löggjöf, svarar hvergi nærri kröfum tímans. Í fyrsta lagi skiptir nú mun meira máli en áður að þinglýst réttindi séu nægilega afmörkuð og skýr og styðjist að auki við réttarheimildir að lögum. Samkvæmt núgildandi þinglýsingalögum lýtur athugun þinglýsingardómara á skjali nær einvörðungu að því að kanna hvort á því séu einhverjir formgallar. Þetta getur aftur á móti leitt til mikillar réttaróvissu, og því er að finna í frv. ákvæði sem leggja þinglýsingardómara þær skyldur á herðar að kanna betur en nú er gert efni skjals áður en því er þinglýst. Í öðru lagi er það líka svo, eins og ég drap á áðan, að framkvæmd sjálfrar þinglýsingarinnar er löngu orðin úrelt. Frá því að núgildandi þinglýsingalög tóku gildi fyrir hálfri öld hefur þeirri tækni, er lýtur að alls kyns skráningu, fleygt fram, svo sem alkunnugt er. Í frv. er þar af leiðandi gert ráð fyrir því, að tekin verði upp breytt skráning þinglýstra réttinda, eins og nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Það má raunar telja mikið happ, að ekki skuli hafa átt sér stað mikil og alvarleg mistök í sambandi við framkvæmd þessara mála, þar eð bæði ákvæðunum og framkvæmdinni hefur verið áfátt í þessu efni, en eins og allir vita, þá skipta fasteignir orðið það miklu máli í nútímasamfélagi og viðskiptum, að það varðar miklu að réttarreglurnar um þær séu sem öruggastar og ótvíræðastar.

I. kafli frv. fjallar um þinglýsingardómara. Þar með er staðfest sú niðurstaða Hæstaréttar, að þinglýsing sé dómsathöfn, en engin ákvæði um það efni er að finna í núgildandi þinglýsingalögum, og í sjálfu sér er það engan veginn sjálfgefið samkv. eðli málsins að þinglýsingarathöfn eigi að vera dómsathöfn. En hér er alveg úr því skorið og slegið föstu í samræmi við áður umgetinn hæstaréttardóm.

Í II. kafla frv. er svo vikið að framkvæmd þinglýsingar. Þar er gert ráð fyrir að teknar verði upp breyttar aðferðir bæði við skráningu og vörslu skjala. Í fyrsta lagi er lagt til að skjöl, sem afhent eru til þinglýsingar, verði færð í sér staka dagbók. Réttaráhrif þinglýsingar eru tengd afhendingu skjals til þinglýsingar, og er því þýðingarmikið að sem öruggust sönnun liggi fyrir um það, hvort skjal hafi yfirleitt verið afhent til þinglýsingar og þá hvenær það hafi gerst.

Við móttöku skjals í upphafi er gert ráð fyrir því, að dómari þurfi aðeins að kanna hvort tilteknir augljósir gallar séu á skjali. Þegar skjöl hafa verið færð í dagbók gefst svo ráðrúm til nánari athugunar áður en þau eru færð í þinglýsingabók. Þessi í.ilhögun veitir mun meira öryggi við þinglýsingu en sú sem nú gildir og tíðkast. Dagbókarfærsla hefur lengi tíðkast í nágrannalöndum okkar, en aftur á móti ekki hér á landi. Hætt er við því, að þinglýsing verði nokkru tímafrekari með því móti að færa dagbók. En á móti kemur að ætlast er til þess, að dagbók geti jafnframt gegnt hlutverki aukatekjubókar og komið í stað skrár yfir þinglýst skjöl sem leggja á fram í viku hverri hjá þeim embættum er þinglýsingu annast. Þegar á það er litið ætti dagbókarfærsla ekki að leiða til aukinnar vinnu.

Í öðru lagi er lagt til að þinglýsingabækur skuli vera lausblaðabækur eða í spjaldskrárformi. Með þessu móti ættu bækurnar að vera handhægari í notkun en nú er og færsla upplýsinga gleggri. Stefnt er að því, að ljósrit úr slíkri bók eða spjaldskrá verði fullnægjandi veðbókarvottorð. Þar með yrði komist hjá því að rita veðbókarvottorð hverju sinni, en það verk er mjög tímafrekt og auk þess hætta á að misritun geti átt sér stað. En í þessu sambandi er mikilvægt að engu skeiki.

Nái frv. það, sem hér er lagt fram, fram að ganga er óhjákvæmilegt að færa upplýsingar úr núverandi fasteignaregistri inn á laus blöð eða spjöld, eftir því hvor kosturinn yrði fyrir valinu. Slíkt útheimtir að sönnu bæði fé og fyrirhöfn, en á aftur á móti að leiða til meira réttaröryggis.

Það verður að viðurkenna, eins og áður er sagt, að núverandi framkvæmd á skráningu þinglýstra réttinda er löngu orðin úrelt og felur í sér hættu á réttaróvissu á þessu sviði.

Möguleiki er á því, að skráning skjala, sem afhent eru til þinglýsingar, dragist, og má vera að einhverjir þekki það, eða farist hreinlega fyrir, þannig að gefin séu út röng veðbókarvottorð. Mistök af því tagi geta bakað ríkissjóði skyldu til greiðslu skaðabóta er hugsanlega geta skipt milljónum króna hverju sinni. Þó úrbætur á núverandi skráningarkerfi kosti nokkurt fé geta þær því sparað mun hærri fjárhæðir þegar til lengdar lætur.

Rétt er að geta þess, að það hefur sérstaklega verið athugað við samningu þessa frv., hvort kleift sé að taka upp tölvuskráningu á upplýsingum úr þinglýsingabókum. Sú athugun hefur leitt í ljós að ekki séu skilyrði til þess að taka upp slíka skráningu í tölvu, en hins vegar er veitt heimild til þess í frv. Sú endurskráning, sem ég vék hér að á undan, er óhjákvæmilegur undanfari þess, að tekin verði upp tölvuskráning. Það er því ekki um neinn tvíverknað að ræða þótt upplýsingar úr fasteignaregistri séu fyrst skráðar á laus blöð eða spjöld og þær síðan lesnar inn í tölvu.

Núverandi fasteignaregistur eru þess eðlis, að upplýsingar úr þeim eru alls ekki tölvutækar, því fella þarf burt ýmis eldri réttindi sem fallin eru niður einhverra hluta vegna, svo og er nauðsynlegt að skera úr fjölda ágreiningsefna sem núgildandi þinglýsingalög hafa ekki gert ráð fyrir að gert sé. Nútíma tölvutækni gerir kleift að safna saman á einn stað öllum upplýsingum sem máli skipta um fasteignir. Mætti með því móti fá með skjótum og öruggum hætti upplýsingar um einstakar fasteignir úr slíkum upplýsingabanka. Vísi að tölvuskráningu, upplýsingar um fasteignir, er að finna hjá Fasteignamati ríkisins, þótt í takmörkuðum mæli sé. Álitamál er hins vegar hvernig slíkri skráningu skuli háttað. Meðal þess, sem kanna þarf í því sambandi, eru tengsl þinglýsingar við aðra gagna- og upplýsingaöflun um fasteignir.

Í lögum um skráningu og mat fasteigna er svo fyrir mælt, að Fasteignamat ríkisins skuli búa fasteignaskrá sína svo úr garði að flytja megi skráningu réttinda yfir fasteignum, sem nú fara fram við þinglýsingu, inn í fasteignaskrá þegar slík skráning þykir tímabær. Þessi breyting á skráningu fasteignaréttinda þarfnast rækilegrar athugunar og undirbúnings áður en í hana verður ráðist. Óráðlegt getur verið að breyting af þessu tagi verði gerð samtímis í öllum lögsagnarumdæmum, heldur sýnist vera álitlegra að láta breytinguna taka gildi í einu eða fáum umdæmum í byrjun, þannig að þar megi fá nokkra reynslu er komið geti að notum annars staðar. Í frv. er gert ráð fyrir að dómsmrn. geti ákveðið að hafa þennan hátt á ef afráðið verður að taka upp tölvuskráningu þinglýstra réttinda.

Þá er í þriðja lagi lagt til að horfið verði frá því skipulagi á geymslu þinglýstra skjala sem nú tíðkast. Það er, eins og kunnugt er, fólgið í því, að skjölin eru bundin inn í sérstakar bækur, sem eru allfyrirferðamiklar og því heldur óhandhægar í notkun, eins og ýmsir hv. dm. hafa eflaust séð. Í stað þessara bóka er gert ráð fyrir að tekin verði upp sérstök skjalahylki, svo búin að nema megi skjöl úr hylkinu þegar þeim er aflýst eða þau missa þinglýsingargildi sitt að öðru leyti. Í tengslum við þessa breytingu er veitt heimild til þess í frv., að sérstakri tækni verði beitt við vörslu skjala, t.d. með því að taka myndir af þinglýstum skjölum á svonefndar mikrofilmur.

Samkvæmt núgildandi lögum er nauðsynlegt að vélrita upp afsal og öll veðskjöl varðandi skip 5 rúmlestir eða stærri sem flytjast á milli umdæma. Samkv. 42. gr. frv. er horfið frá þessu, þar sem lagt er til að skjöl, sem skip varða, skuli fylgja skipinu, ef svo má að orði komast. Þessi eina breyting ætti að hafa í för með sér umtalsverðan vinnusparnað í þeim umdæmum þar sem eitthvað kveður að flutningum á skipum til annarra umdæma.

Þá er rétt að skýra frá því, að fjmrh. mun á næstunni væntanlega flytja frv. til laga um stimpilgjald. Frv. þetta á að nokkru leyti rót sína að rekja til athugunar á því, hvort ekki sé hægt að einfalda gjaldtöku í sambandi við þinglýsingu. Ég tel ekki viðeigandi að rekja efni þessa frv. hér og nú, en í því er þó lagt til að aðeins verði tekið eitt gjald við þinglýsingu í stað tveggja, eins og nú er tíðast gert. Þessi einföldun ætti að horfa til mikils sparnaðar fyrir þinglýsingardómara.

Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um framkvæmd þinglýsingarinnar. En meginverkefni frv. þess, sem hér er lagt fram, fjallar þó um réttaráhrif þinglýsingar og önnur skyld atriði. Ætla ég hér á eftir að gefa örstutt yfirlit yfir þessi ákvæði frv.

III. kafli frv. hefur að geyma reglur um forgangsáhrif þinglýsingar og gildi grandleysis. Lagt er til að forgangsáhrif þinglýsingar séu áfram talin frá því þegar skjal er afhent dómara til þinglýsingar. Aftur á móti er ekki gerður munur á forgangsrétti skjala, sem afhent eru sama dag, eins og gert er í núgildandi þinglýsingalögum. Svo nákvæm regla getur leitt til óeðlilegrar niðurstöðu, þar sem oft og einatt er ekki gengið frá þinglýsingunni fyrr en í lok hvers afgreiðsludags.

Í frv. er tekin afstaða til þess tvenns, hvernig fari um rétt skjalsins gagnvart öðrum skjölum, sem afhent eru síðar til þinglýsingar, og hvernig fari um bótakröfu þess, sem hallað er á, sbr. 49. gr. frv. Samkv. því ákvæði getur ríkissjóður orðið bótaskyldur þegar um er að ræða mistök við þinglýsingu, þótt ekki sé við hlutaðeigandi þinglýsingardómara að sakast. Slík hlutlæg bótaregla ætti að efla traust manna á þinglýstum heimildum.

Í IV.–VII. kafla er svo fjallað um þinglýsingu réttinda yfir fasteignum, skipum og lausafé almennt. Frv. nær hins vegar hvorki til skrásetningarréttinda yfir bifreiðin né loftförum. Um skrásetningu réttinda í loftförum gilda nýleg lög, og er ekki ástæða til að hrófla við þeim lögum. Á tveimur síðustu þingum hefur verið lagt fyrir Alþ. frv. til l. um breytingu á skipan bifreiðaskráningar. Ekki er tímabært að ákveða tilhögun á þinglýsingu eignarréttinda yfir bifreiðum fyrr en séð verður hvernig tillögum um þessa nýskipan reiðir af. Nái þær tillögur ekki fram að ganga væri rétt að taka upp ákvæði um þinglýsingu réttinda yfir bifreiðum í VI. kafla frv. Nái tillögurnar hins vegar fram að ganga verður að sjálfsögðu að haga þinglýsingarreglum í samræmi við þær og þá eftir atvikum í sérlögum.

Í 20.–26. gr. frv. er að finna nokkur nýmæli að því er varðar skilyrði þess að skjali verði þinglýst. Ekki er ástæða til að lýsa þeim hér, heldur vísast í því efni sem öðrum til grg. þeirrar sem fylgir frv. Þó má benda á ákvæði 2. mgr. 20, gr. frv., þar sem þinglýsingardómara er veitt heimild til þess að gera það að skilyrði fyrir þinglýsingu, að gildur uppdráttur af lóð eða landi fylgi skjali. Tilgangurinn með þessu ákvæði er sá, að það sé jafnan ljóst, hver og hvar sú fasteign er sem þinglýsing varðar, eða með heldur leiðinlegu orðalagi má segja svo: hver sé staðsetning fasteignar sem hin þinglýstu réttindi varða.

Í 29.–32. gr. frv. er skorið úr um það, hvaða réttindi yfir fasteign séu háð þinglýsingu og hverra aðgerða sé þörf svo að eldri óþinglýstum rétti sé rutt úr vegi. Þessi ákvæði staðfesta að meginstefnu til þær reglur sem talið er að gilt hafi þótt óskráðar séu. Þó er áskilið í 32. gr. frv., að réttindi, sem styðjast við eignarnámsgerð eða hefð, séu háð þinglýsingu. Þessu er nú öfugt farið.

Í 33. og 34. gr. frv. er að finna ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar. Ákvæði 33. gr. er algjört nýmæli. Samkvæmt því þarf sá maður, sem hlýtur réttindi með samningi við þinglýstan eiganda að eign, ekki að sæta þeirri mótbáru, að heimild fyrri eigandans sé ógild, ef hann, þ.e. síðari eigandinn, er algjörlega grandlaus um ógildistilvikið. Þetta gildir þó ekki ef ógildingarástæðan er lögræðisskortur útgefanda, fölsun eða meiri háttar nauðung.

Samkv. eðli máls veitir þinglýsing sumra skjala aðeins tímabundin réttindi. Æskilegast er að hafa ákvæði um það efni í þinglýsingarlögum, svo að ekki þurfi að setja sérstök lög hverju sinni um afmáningu þeirra skjala sem lokið hafa ætlunarverki sínu, svo sem nokkrum sinnum hefur verið gert að undanförnu. Í 35.– 38. gr. frv. er því að finna ákvæði er að þessu atriði lúta.

Um frekari skýringar á þessu frv. vísast, eins og ég hef áður sagt, til athugasemda, sem frv. fylgja, og skal ég ekki; herra forseti, fjölyrða frekar um frv. í þessari framsöguræðu, en vil þó að lokum endurtaka það, að með frv. er stefnt að því að færa framkvæmd þinglýsingar í nútímalegra horf. Mikilvægt er frá þjóðhagslegu sjónarmiði að menn geti treyst þinglýstum heimildum. Reglur frv. þessa, ef að lögum verður, eiga að auka á réttaröryggi þessarar réttargerðar sem svo mikla þýðingu hefur fyrir viðskipti einstaklinga og félaga hér á landi. Jafnframt hefur verið reynt að gæta þess, að reglurnar auki ekki vinnuálag þeirra embætta sem þinglýsingu annast. Síðast, en ekki síst hefur frv. að geyma ítarlegar reglur um réttaráhrif þinglýsingar og skyld efni, en slíkar reglur hefur tilfinnanlega vantað í íslenska löggjöf.

Þetta frv., ef að lögum verður, kallar á breytingu á nokkrum öðrum lögum. Þess vegna fylgja þessu frv. nokkur önnur frv. sem koma til meðferðar hér á eftir og eru fylgifiskar með þessu frv. Ég leyfi mér að vænta þess, að þessu frv. verði vel tekið. Ég held að það sé vel samið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að með lagasetningu slíkri sem þessari er stórt spor stigið fram á við til réttaröryggis og í þá átt að koma skipun þessara mála í það horf, sem viðunanlegt má telja. Ég leyfi mér því að vænta þess, að þetta frv. nái afgreiðslu á þessu þingi og sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, geti hraðað störfum svo sem kostur er. Ég get látið þess getið, að á nýafstöðnum fundi sýslumanna var þetta mál sérstaklega kynnt og því vel tekið þar. Nefndin, sem fær málið til meðferðar, getur að sjálfsögðu kvatt á sinn fund þá menn, sem staðið hafa að samningu þessa frv., og eins aðila í þeim embættum sem þessi mál snerta mest.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.