25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Síðan húsmæðraskólinn að Staðarfelli hætti störfum hafa staðið ónotuð húsakynni hans nema um sumarmánuðina, þá hafa þau verið notuð sem orlofsheimili fyrir BSRB. Hér er ekki aðeins um að ræða gamla skólahúsið, heldur líka ný hús, ágætis húsakynni. Það er ákaflega ömurlegt að vita af tómum húsum, ónotuðum húsum, úti á landsbyggðinni eða raunar hvar sem er, þeim mun ömurlegra sem um er að ræða glæsilegri húsakynni. Og ég hef fyrir tilmæli fólks þar vestra, sem hefur mikinn áhuga á því, að þessi húsakynni verði notuð til einhvers góðs, — ég hef fyrir tilmæli þess leyft mér að beina til hæstv. menntmrh. svo hljóðandi fsp:

„Hvaða starfsemi er fyrirhuguð í húsakynnum húsmæðraskólans fyrrv. að Staðarfelli?“