01.02.1978
Efri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

149. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 310 hef ég leyft mér að bera fram brtt. við stjórnarskrána, þess efnis að kosningaaldur verði lækkaður.

Alþb. hefur tekið þá stefnu með samþykktum á fundum sínum, að rétt sé að kosningaaldur verði lækkaður, og þetta frv. er flutt af því tilefni.

Ég held að það þurfi ekki að rökstyðja það í löngu máli, að tími sé til kominn að kosningaaldur verði lækkaður. Eins og flestum mun kunnugt er ungt fólk mjög áhugasamt um stjórnmálaþróun í landinu og það ekki að ófyrirsynju, vegna þess að það er almennt farið að fylgjast vel með því sem er á döfinni og komið til starfa í atvinnulífi þjóðarinnar og jafnvel farið að festa ráð sitt eða í þann veginn að stíga það spor. Það hefur því margvíslegra hagsmuna að gæta og ekki óeðlilegt að það hafi áhrif á stjórn landsins.

Ég held að þær nálægar þjóðir séu orðnar allmargar sem þegar hafa lækkað kosningaaldur í 18 ár, þ. á m. hafa Bandaríkjamenn stigið það spor, og ég sé ekki ástæðu til að það sé dregið lengi hér, enda tvímælalaust að til þessa kemur fyrr eða síðar.

Ástæðan til þess, að þetta spor hefur verið stigið, er kannske sú að þetta spor eins og önnur sem snerta stjórnskipun landsins er erfitt viðfangs og breytingin tekur ekki gildi, jafnvel þó að hún sé samþykkt hér í þinginu, nema kosningar fari fram og Alþ. staðfesti breytinguna á nýjan leik. Þessi breyting mun því ekki geta tekið gildi fyrir næstu alþingiskosningar. En einmitt nú á þessum vetri er gott tækifæri til að gera slíka minni háttar breytingu á stjórnarskránni, vegna þess að kosningar fara í hönd, og er því möguleiki að koma þessari breytingu fram á næsta þingi eftir kosningar. En það var einmitt sú leið sem valin var 1967, þegar kosningaaldur var lækkaður úr 21 ári í 20 ár.

Ég vek á því athygli, að í þessu frv. er ekki aðeins gerð till. um lækkun kosningaaldurs, heldur að um verði að ræða svolitla fyrirkomulagsbreytingu varðandi frágang kjörskrár, þar sem gert er ráð fyrir að allir, sem náð hafa 18 ára aldri á því ári þegar kosning fer fram, njóti kosningarréttar, en ekki eins og nú er, að þeir einir hafa kosningarrétt sem náð hafa tilteknum lágmarksaldri á þeim degi þegar kosning fer fram. Á þessu er að sjálfsögðu nokkur munur, og sú leið, sem hér er valin, er bersýnilega miklu einfaldari og eðlilegri en sú sem í gildi hefur verið, að miða við afmælisdag hvers kjósanda. Má auðveldlega færa að því rök, að þessi breyting mundi spara opinberum aðilum mikla fyrirhöfn með því að heilir árgangar kæmu þá samtímis á kjörskrá.

Rétt er að taka það fram í þessu sambandi, að í þinginu liggur fyrir annað frv. þessu skylt, sem fjallar um lækkun kosningarréttar í 18 ár í sveitarstjórnarkosningum. Það frv. nær hinsvegar ekki til alþingiskosninga, og mun flm., hv. þm. Benedikt Gröndal hafa hugsað sér að til greina kæmi að gera þessa breytingu fyrst og breyta síðan ákvæðum um alþingiskosningar síðar, vegna þess að þessi breyting, sem snertir sveitarstjórnarkosningarnar, er aðeins einföld lagabreyting og er því auðveldara að koma henni fram. Ég tel hins vegar að það sé mjög óeðlilegt að hafa eina reglu um þetta efni í sveitarstjórnarkosningum, en aðra í alþingiskosningum, og langeðlilegast sé því að breyta þessu ákvæði nú þegar, jafnvel þótt það geti að vísu ekki tekið gildi fyrir næstu alþingiskosningar.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til hv. allshn.