02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þáltill. þessi er að vísu löngu fram komin sem þskj., en ég átti ekki von á því, að hún yrði tekin fyrir í dag, og mun því flytja hér stutt mál. Till. fer í n. þar sem ég á sæti, og þar mun hún fá að venju rækilega athugun og ýmislegt verða þar upplýst sem nánar þarf að skýra. Eins er um skiptingu alla um verkþætti á milli kjördæma hvað snertir þá aukningu, sem hér er lagt til, frá síðustu áætlun frá í fyrra, þótt verðbótaþátturinn gagnvart einstökum verkum hljóti að verða þar fyrirferðarmikill, svo sem fram kemur í þessari till. Þetta verða því við þessa umr. aðeins nokkur almenn orð.

Hæstv. samgrh. hefur nú mælt fyrir síðustu vegáætlun sinni á þessu kjörtímabili eða réttara sagt breytingu á þál. um vegáætlun, og vissulega má um hana segja, að það hafi á orðið framför, einkum ef miðað er við eymdarárið 1977, enda erfitt að hugsa sér, að lengra niður væri unnt að komast í samdrætti í vegaframkvæmdum almennt, til hvaða þáttar sem lítið var þó nýframkvæmdir yrðu þar harðast úti. Nú væri rangt að skella hér allri skuld á hæstv. samgrh., því að vitanlega ber ríkisstj. öll sína fullu ábyrgð á þessu. Vegáætlun og vegaframkvæmdir endurspegla stjórnarstefnuna aðeins glögglegar en nokkuð annað á þeim afrekalista, þar sem þó er af nógu að taka.

Út af fyrir sig skal því fagnað, að þessi till. um breyt. á þál. um vegáætlun fyrir árið 1978 skuli hvort tveggja vera fyrr fram komin en var t.d. á fyrra um vegáætlun þá og ætti því að geta hlotið betri umfjöllun en oft áður, og eins hinn, að hér er þó tekið til við að bæta að nokkru fyrir vanrækslusyndir liðinna ára, þótt seint sé og síður en svo í þeim mæli sem þurft hefði ef vel hefði verið á málum haldið. En viðmiðunin, sem nú er hæst á lofti höfð til að sýna fram á aukningu vegafjár samkv. þeirri breytingu sem hér er ráð fyrir gert, sú viðmiðmiðun er vægast sagt hæpin, þar sem botnárið 1977 er tekið til samanburðar, ár hins stórfelldasta samdráttar í þeim sífellda niðurskurði raungildis sem þessi málaflokkur hefur orðið fyrir.

Afgreiðsla vegáætlunar á síðasta ári var slík, að hún mun mönnum ærið minnisstæð. Stjórnarandstaðan gagnrýndi óvægilega áætlunina sjálfa og þann niðurskurð raunframkvæmda, sem þar kom gleggst í Ljós varðandi landsbyggðina, gagnrýndi vanefndir á fjáröflun til vegagerðar samkv. áætlun um Norður- og Austurveg, sem ætíð var hugsuð sem hrein viðbót við hið almenna vegafé, svo sem gleggst kom fram við lagasetninguna um fjáröflunina, gagnrýndi það, að landshlutaáætlanir væru felldar niður, svo sem var um Austurlandsáætlun, sem þó eru um bindandi samningar, og eins urðu deilur um önnur atriði, svo sem um skiptingu þjóðbrautafjár, sem ég mun síðar gera að umtalsefni. En um leið var því lýst yfir af hálfu t.d. okkar Alþb.-manna, að við værum reiðubúnir til að athuga og standa að leiðum til aukinnar fjáröflunar, þó við gagnrýndum það um leið, hve stór hluti tekna af umferðinni rynni annað en til vegamála, sívaxandi hluti þeirra tekna. Gagnrýni okkar var því ekki nein sýndargagnrýni til þess eins að standa á móti og gagnrýna, en vilja svo frá öllu hlaupa. Þar höfðu menn sannarlega til samanburðar ábyrgðarlausa gagnrýni sjálfstæðismanna á vinstri stjórnina, þegar þó var um aukningu ár hvert að ræða og í raun aldrei meira unnið að vegamálum en þá. Stór orð þeirra sjálfstæðismanna þá munu vel geymd, ekki síst íljósi þess, hvernig þeir nú hafa að málum staðið sem annar stjórnarflokkanna og sá sem ekki síður ræður stefnunni, nema frekar væri, og hefur mótað stefnuna í þessum málum einnig, ekki síður en í öðrum málum, þar sem þeir hafa haft forustu í einu og öllu.

Samkv. okkar jákvæðu gagnrýni og afstöðu við afgreiðslu vegáætlunar í tíð þessarar ríkisstj. þá greiddum við atkv. með þeirri auknu fjáröflun til vegagerðar sem þessi endurskoðaða vegáætlun byggir nú á. Við höfðum að vísu margir haft á þann sjálfsagða fyrirvara, að aukið fjármagn til vegagerðar yrði nýtt til þess fyrst og síðast að bæta ástand þeirra vega sem verstir eru og mest þarf fyrir að gera til þess að akfærir megi teljast. Það er frumverkefni, forgangsverkefni, sem verður að treysta á að verði einkenni þeirrar afgreiðslu sem þessi vegáætlun á eftir að fá, ekki síst í ljósi þess, að fyrir fjvn, liggur nú till, frá einmitt nokkrum stjórnarþm. um sérstaka áherslu á uppbyggingu vega í snjóþungum héruðum. En forvitnilegt verður að sjá hvernig við þessu verður brugðist.

Segja má að við samþykkt fjáröflunarinnar hafi ekki verið tryggt að þetta yrði gert, og enn er það ekki gert, þrátt fyrir þessa faguryrtu till. En að óreyndu skal ekki öðru trúað, þó að hraðbrautastefnan hafi verið í sífelldri sókn síðustu árin og vel kynni einhver eða einhverjir að vilja halda þeirri þróun áfram. Þar hlýtur hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild svo og meiri hl. fjvn, að marka stefnuna, og hið besta skal vonað. Að því skal og vikið síðar.

En það var nú eitthvað annað en að stjórnarandstaðan ein léti í sér heyra við afgreiðslu síðustu vegáætlunar á síðasta þingi, og það var síður en svo að þar væri neitt lofsöngslag sungið. Önnur eins gagnrýni, á stjórnarstefnu í einstöku máli hefur ekki heyrst hér þann tíma sem ég hef á þingi setið. Ekki vakti það neina undrun, svo sem hér hafði verið að málum staðið. En svo fór þó, að menn létu gagnrýnina og stóru orðin nægja. Hin brýna þörf byggðarveganna, fjársvelti til nauðsynlegustu framkvæmda á mikilvægum tengivegum við hringveginn og margt fleira, sem í máli stjórnarþm. fólst, varð talið og gnýrinn einn. Allt fór óbreytt í gegn og afsökunin var á eina leið: ekki væri unnt að aðhafast meira, því að fjárhagurinn leyfði það ekki á blómaárinu 1977 að staðið væri að vegaframkvæmdum á landi hér af sæmilegri reisn í samræmi við batnandi þjóðarhag. Þvert á móti var enn haldið niður brattann, ef frá var talið viðhaldsféð, sem mesti glansinn fór þó af undir lokin.

Þótt árangur yrði enginn hvað snertir árið 1977 hafði þetta allt þau áhrif, að yfirlýsing var gefin um endurskoðun á vegáætlun 1978. Það er sú breyting sem hér liggur nú fyrir okkur þm. og hæstv. ráðh. hefur mælt fyrir.

Við síðari umr. vegáætlunar, þegar allt liggur ljósar fyrir um skiptingu vegafjárins, verður að sjálfsögðu fjallað um niðurstöður og útkomu þessa plaggs í raun. En þó skal hér á fátt eitt drepið.

Ofarlega er mér eðlilega í huga tvennt sem var ákveðið í fyrra og snertir Austurland og ég reikna alls ekki með að breytt verði til batnaðar nú. Annað var niðurfelling Austurlandsáætlunar að öllu öðru leyti en því, að 100 millj. voru sérætlaðar til Oddsskarðsgangna, sem þó kom óumdeilanlega niður á heildarfjármagni til Austurlands. Þetta var í raun hið alvarlegasta samningsrof, þar sem enn var ólokið veigamiklum þáttum í Austurlandsáætlun frá 1970, samkomulag milli þm. Austurl, þá og handhafa ríkisvalds um tiltekna verkþætti sem ljúka átti á 5 ára áætlunartímabili. Nóg var um vanefndir og seinkun á þessari áætlun þó að hún væri ekki með öllu numin brott og í engu fyrir það bætt. Þetta var ekki bara gagnrýnt af hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, sem var einn af þeim sem samkomulagið gerðu, eða af mér, heldur og af öðrum þm. Austurl.

En allt kom fyrir ekki, mótmælin ein voru látin duga af þeim stjórnarþm. og Austurlandsáætlunin var felld niður.

Þá var þjóðbrautaprósenta okkar lækkuð óeðlilega mikið, eða úr 16% í 11%. Um sumt var þetta réttlætt með því, að fyrrum þjóðbrautir hefðu samkv. núv. skilgreiningu færst til stofnbrauta. En það hafði auðvitað gerst viðar á landinu við breytingu á vegalögum. Hitt var hálfu lakara og hefur hljómað eins og grín eða háð af versta tagi í eyrum Austfirðinga, þegar prósenta okkar var enn færð niður vegna þess að vegir í þjóðbrautatölu á Austurlandi væru hlutfallslega miklu betri en annars staðar. Ég hef að vísu þá hefðbundnu skýringu þessa í því, að umdæmisverkfræðingur okkar eystra var samviskusamur hið besta og gerði ekkert til að flokka vegi okkar lakar en efni standa til. En samræming þessa mats hjá Vegagerð ríkisins mun ekki hafa verið nægileg og hann því goldið góðra og samviskulegra vinnubragða.

Hæstv. samgrh. hefur nú, að ég best veit, séð svo um að þessi ágæti maður muni ekki oftar gera slíkar skyssur að taka hlutverk sitt í alvöru og af fullum trúnaði við það sem hann vissi réttast. En það er saga sem á ekki frekar heima hér. Hitt .er ljóst, þegar litið er til vega á Austurlandi og þá sveitaveganna sér í lagi, að seint munu þessi 11% þjóðbrautafjár koma að umtalsverðu gagni þar eða koma þeim vegum að nokkru marki upp úr snjó. Um þetta skal ekki frekar rætt nú. Til þess gefst tækifæri síðar, þegar séð verður til fullnustu hvernig útkoman verður við afgreiðsluna í vor. Aðeins skal vonað að snjóþyngsli og ástand vega á vorin t.d. eða í haustrigningum verði tekið með í þá mynd, ef af endurskoðun prósentunnar um þjóðbrautir yrði.

Hv. þm. Geir Gunnarsson rakti í fyrra ítarlega þær vanefndir sem orðið höfðu á hinni sérstöku viðbótarfjáröflun til Norður- og Austurvegar, þar sem sú hafði á orðið raunin að engin viðbót var hér á ferðinni, og svo er að miklu leyti enn. Segja má, að ef ekki hefði þessi sérstaka fjáröflun komið til hefði ástandið verið einu aumara, enn meira vantað á til þess að framkvæmdir héldu raungildi sínu, einkum á s.l. ári. En glöggt var að þessi fjáröflun var gerð til að inna af hendi sérstakt átak, aukaátak í vegamálum, og skipting var ákveðin annars vegar til Norður- og hins vegar til Austurvegar í lögunum sjálfum og síðan með samkomulagi í hlutfalli milli Suður- og Austurlands í Austurveg, þó ég efist um að hlutur Austurlands þar sé sá sem til var í raun ætlast af okkur þm. Austurlands og var í raun og sannleika meginástæða þess, að við á sínum tíma studdum þessa löggjöf. Ég skal ekki hér og nú tíunda vanefndir á þessu sviði hvað viðbótarfjáröflun snertir, enda mun það koma enn skýrar í ljós þegar öllu hefur verið upp skipt og áætlunin liggur fyrir. En hjá því verður ekki komist að minna á þetta enn einu sinni.

Út frá þessu kemur mér í hug sú breytta stefna um margt í framkvæmd vegamála sem virðist nú njóta vaxandi fylgis meðal vegagerðarmanna, góðu heilli. Þar veit ég að vísu að eitthvað eru skoðanir skiptar, en þó ekki sem áður var, og umdæmisverkfræðingurinn eystra, sem ég hef haft samband við um þetta mál, hefur mjög haldið á lofti þessari nýju stefnu, sem ég kalla svo, er kannske ekki svo mjög ný, en ég held að það verði mjög til góðs okkur landsbyggðarmönnum ef þar er vel að verki staðið. Hér er að vísu ekki um neina íslenska uppfinningu að ræða og því síður einhverja Sverris Runólfssonar-lausn. Fyrirmynd þessa sækja verkfræðingarnir helst til Noregs, en þar er tækni í vegagerð og fjölbreytni í vinnubrögðum þar af leiðandi mjög til fyrirmyndar að dómi þeirra margra. Þetta er um margt andstæða þeirrar einstefnu, sem mestu hefur ráðið, að leggja aðaláherslu á hraðbrautir út frá Reykjavík. Skal þó tekið skýrt fram, að að sjálfsögðu þarf að sinna því verkefni einnig, og ég er sannfærður um það eftir samtal mitt við fróða menn, að þar megi nokkuð, kannske verulega slaka á í sambandi við staðla og draga þar með verulega úr þeim gífurlega kostnaði sem þessu hefur verið samfara á liðnum árum.

Umdæmisverkfræðingur okkar eystra, Einar Þorvarðarson, hefur lýst þessu svo í stórum dráttum fyrir mér, að í fyrsta lagi þyrfti að leggja stóraukna áherslu á aukið viðhald veganna og þá þannig, að víða mætti stórbæta vegina með fullnægjandi viðhaldi, þ.e. með góðu malarslitlagi, sem ég kann nú ekki að skilgreina nægilega samsetningu á. En forsenda þessa eru góð efnisvinnslutæki sem mjög skortir í dag, t.d. á Austurlandi, svo að kornastærð sé hæfileg í hvert lag um sig og hægt sé að ganga eins vel frá þessu og mögulegt er. Með slíkri framkvæmd, sem hann kallar þó beint viðhald, má stórbæta ástand óendurbyggðra vega fyrir ótrúlega lítið fjármagn. Ég sá með eigin augum slíka tilraun í sumar, og þó þar vantaði að hans sögn efsta lagið og það mikilvægasta, þá var vegurinn og er enn óþekkjanlegur. Sú framkvæmd var mjög ódýr á okkar mælikvarða og þó var um að ræða 7–8 km kafla á vegi sem var hreinn ruðningsvegur.

Í öðru lagi segir Einar mér að með tiltölulega litlum breytingum á burðarlagi og lagfæringum á hæpnustu stöðum megi leggja bundið slitlag beint á talsverðan hluta af því vegakerfi Austurlands sem skást er. Og Einar bætir því við, að sé rétt að burðarlagi staðið og lagfæringum einnig, þá sé hér um ótrúlega kostnaðarlækkun að ræða miðað við það sem ríkir t.d. í uppbyggingu veganna hér í nágrenni Reykjavíkur. Tilraun ætlaði verkfræðingurinn að gera með þetta eystra næsta sumar, og ég vona að verði af því, þó að þar hafi syrt að um sinn.

Þá sagðist Einar mjög hafa hrifist af því, hvernig Norðmenn sprautuðu bundnu slitlagi beint á malarslitlagið og síðan keyrðist það út og byndist mjög vel.

Varðandi allt þetta lagði umdæmisverkfræðingurinn áherslu á það, að nauðsynlegt fjármagn fengist til rannsókna og tilrauna, svo að tryggt væri að sem best nýting yrði á hvoru tveggja: viðhaldsfé og nýframkvæmdafé. Ég er sannfærður um að þeir vegagerðarmenn, svo vel sem þeir vinna yfirleitt sín verk, muni vera með þetta allt til athugunar og í gangi og hafi fullan hug á að gera allt sem hér hefur verið lýst, og engan nýjan sannleika hef ég verið að flytja hér. Ég sá t.d. í blöðum í haust og hef heyrt hér á þingi tölur sem þetta varða og eru staðfesting hér á. Hins vegar taldi umdæmisverkfræðingur rétt að þetta kæmi sem best og ítarlegast fram og frá sem flestum, og ég er því í raun að flytja þá ósk hans hér, um leið og ég lýsi yfir mjög eindregnum stuðningi við meginatriði í því sem hann hefur verið að fræða mig á.

Aðeins þessu til viðbótar skal svo flutt sú eindregna skoðun Einars horvarðarsonar, að vinna beri að strandferðum okkar með stóreflingu Skipaútgerðar ríkisins, einmitt til þess að létta að nokkru þeirri miklu þungaumferð sem vegina hrjáir og hann telur að standi að nokkru í vegi fyrir þeirri nýskipan framkvæmda, sem hér hefur verið tæpt á, með sama áframhaldi í auknum þungaflutningum.

Hér væri vissulega tilefni til margs konar samanburðar, t.d. varðandi það, að hlutur Vegasjóðs í tekjum af umferðinni hafði lækkað í 25% 1977 úr 43% 1973. Nú mun þetta hlutfall ver:. þó eftir síðustu breytingu eitthvað skárra. Viðhaldsfé hefur verið mjög til umræðu. Á það hefur verið lögð áhersla, að þar hafi verið gert átak, og ekki skal fyrir það synjað, að í fyrra og eins nú er um verulega framför að ræða frá því lágmarki sem t.d. var árið 1976, Þó mun viðhaldsfé árið 1977 hafa að raungildi aðeins numið 79% af því sem viðhaldsfé hafði verið árið 1974 – aðeins 79.1%. Þetta hefur þó heldur auðvitað lagast nú.

Ef miðað er við lágmarksþörf, sem Vegagerð ríkisins hefur sett upp, sé ég í þessari vegáætlun að í fyrra hafi viðhaldsfé numið 58% í raun af þeirri þörf og þrátt fyrir alla hækkun nú, sem mikið er um talað, nemi féð aðeins 72% af lágmarksþörfinni. Aðalástæða þessa liggur eflaust í sveltinu á árunum 1975 og 1976 og raunar að hluta í lengingu vegakerfis og auknum viðhaldskröfum vegna umferðaraukningar og aukinna þungaflutninga einnig.

Ég ætla ekki að fara út í frekari talnasamanburð, nema þann óhjákvæmilegu samanburð á raungildi vegafjár til nýframkvæmda síðustu árin og þá einkum með tilliti til þess, hve mikið er um það talað nú, að hér sé um stórkostlega framför að ræða, og vissulega er hún það miðað við lágmarksárið 1977.

Ef miðað er við fast verðlag og framkvæmdagildi árið 1970 og síðan reiknað út frá því hverjar tölurnar eru í raunverulegum millj, frá þeim tíma, þá kemur í ljós að miðað við tæpa 2 milljarða 1970 er talan 1971 3770 millj,, árið 1872 4128 millj., árið 1973, sem er síðasta heila ár vinstri stjórnarinnar, 4689 millj., allt miðað auðvitað við verðgildi og raungildi 1970, 1974 fer þetta niður í 3761 millj., 1975 niður í 2742 millj., 1976 1 2515 millj., 1977 niður í 2208 millj. og nú að lokinni þessari hækkun 3113 millj., ef miðað er við líklegustu kostnaðarhækkun milli ára, og er þá varlega áætlað. Þessar tölur hef ég vel staðfestar og þær skulu undirstrikaðar hér, þegar megináhersla er lögð á viðmiðun við það lægsta, þ.e.a.s. við árið í fyrra. Vissulega ber að fagna því, að þar er um þessa hækkun að ræða varðandi þá áætlun sem við samþykktum í fyrra. En þá skulu menn líka hafa í huga hve langt það á í land, að raungildi framkvæmda á árina 1973 sé náð, síðasta heila ári vinstri stjórnarinnar, Með þessari hækkun, eftir þessa hreytingu, er aðeins um 75% að ræða þar af. Það er árið 1973 sem þetta er miðað við, sama árið og þeir sjálfstæðismenn töldu smánarlega litlu til vegaframkvæmda varið og þótti lítil reisn yfir vegamálum á Íslandi. Fleiri slík sannindi skulu rifjuð upp síðar þeim til hugarhægðar. Þó að fagna beri auknum framkvæmdum nú á þessu ári, þá er enn uggur í mér til hvaða framkvæmda á að verja þessu fé, hvort t.d. tiltekið stórframkvæmd á að gleypa óeðlilegan hluta þar af eða ekki. Með það og fleira skal bíða betri tíma og öruggari ni0urstöðu og engar getsakir uppi hafðar. En staðreyndin, að síðasta vegáætlunarár núv, ríkisstj, eftir verulega hækkun þó milli ára skuli aðeins fela í sér 75% af raungildi nýframkvæmda 1973, segir meira en langar tölur og miklar hér um.

Aðeins vil ég að lokum segja það, að einlæg von mín er sú, að þetta plagg haldi sinn fulla gildi, að sú viðbót við áætlunin í fyrra, sem þar er miðað við, fái að haldast, Uggur er þó í mér sem fleirum varðandi þetta. Það er mála sannast, sem hæstv. samgrh. sagði, að hér væri um eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða og ekki þá hvað síst hvað landsbyggðina snertir. Það er vonandi að það sjáist á næstu dögum eða vikum, að í þessu máli sé full alvara, að í þeim ráðstöfunum, sem á döfinni eru nú, verði þau orð, þessi skoðun hæstv. ráðh, í heiðri höfð og því verði þetta plagg ekki gert marklaust í þeim niðurskurði ríkisframkvæmda sem við höfum grun um að fyrirhugaður sé, En best er að spá þar engu um nú. Við síðari hluta umr. verður það orðið ljóst, og þá er rétt að tala um það, ef svo fer fram sem margir óttast nú.