02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það fór fyrir mér eins og hv. síðasta ræðumanni, ég gerði síður ráð fyrir því að vegáætlun kæmi til umr, nú, svo að ég mun að þessu sinni verða mjög stuttorð.

Ég hlýt að fagna því, að yfirlýsing sú, sem gefin var af hálfu ríkisstj, á s.l. vori eftir allharða gagnrýni þm., hefur staðist eins vel og hægt var að búast við eftir því sem fjárhagslegar aðstæður okkar nú eru. Það er talað um að magnaukning á þeim liðum áætlunarinnar, sem skipta miklu máli, muni verða í ár um 26–27%, og athyglisvert þykir mér einnig að liðurinn viðhald vega hefur hækkað allverulega. En ég hygg að það hafi verin mál manna, úti á landsbyggð inni alla vega, að þar hafi ríkt hálfgert neyðarástand vegna lítilla fjármuna sem ætlaðir voru til þessa liðar á vegáætlun. En hæstv, ráðh, lýsti því yfir í framsöguræðu sinni, að nú mundi fé það, sem til viðhaldsins er ætlað, nema 72% af því sem vegagerðarmenn teldu nauðsynlegt. Það er að vísu alls ekki nóg, en þó sýnu betra en verið hefur undanfarin ár.

Ég vil taka undir orð hv. 7. landsk., sem hér talaði áðan, — og það er ekki í fyrsta skipti sem ég drep á það, — að ég vona að við skiptingu þess fjármagns, sem nú fer til vegagerðar í landinn, verði ekki gleymt vegunum í byggðarlögunum sem verst eru stödd í þessu tilliti, þ.e.a.s. vegunum sem enn þá eru ekki nema vegir að nafninu til, margir hverjir vegtroðningar einir, áratugagamlir. Við höfum verið kallaðir bútastefnumenn og það í nokkrum lítilsvirðingartón, af mönnum hér syðra aðallega, — við sem viljum leggja áherslu á þetta verkefni í vegagerð. Ég held að afstaða þeirra manna, aðallega ritstjóra Reykjavíkurblaðanna, markist fyrst og fremst af því, að þeir gera sér enga grein fyrir hvað við meinum við dreifbýlisþm., sem vitum hve miklum óþægindum þessir samgönguerfiðleikar og stundum samgönguleysi valda fólki úti í byggðum landsins sem verður að nota vegina sumar og vetur, en ekki bara á sumrin til þess að ferðast um á þeim og skoða landið. Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar hér, en ég vil taka undir það með hv. þm. Helga Seljan, sem ég heyri að er nokkuð á sömu línu og ég í þessum efnum, ásamt öðrum dreifbýlisþm., að þessi þáttur má ekki gleymast nú þegar nokkru rýmra fjármagn er ætlað til vegaframkvæmda, Ég hlýt, eins og hv. þm. gerði, að vísa til máls sem liggur fyrir þingi, flutt af allmörgum stjórnarþm., dreifbýlisþm., þar sem áhersla er lögð á þetta sjónarmið, og hirðum við þá ekki um og kveinkum okkur því síður undan því, að við séum kenndir við búta. Sannleikurinn er sá, að það eru í mörgum tilfellum smábútar sem geta ráðið mjög miklu um ástand vegamála í einstökum byggðarlögum. Þetta vita þeir menn, sem fást við vegagerðina og þekkja til aðstæðna, og málflutningi þeirra manna hlýtur að verða meiri gaumur gefinn en hinna, sem oft tala af býsna miklu skilningsleysi og fáfræði í senn um þarfir þessara afskekktu byggðarlaga.

Í ræðu hæstv. samgrh. drap hann á einstök stórverkefni og stóra áfanga, sem unnið hefði verið að undanfarin ár, og þá að ég hygg sérstaklega á s.l. sumri Hann nefndi stórframkvæmdir eins og Oddsskarð á Austurlandi, hann nefndi Norður- og Austurveginn, sem á að koma til góða Norður-, Austur- og Suðurlandi, eftir því sem falað hefur verið um undanfarin ár. Hann talaði um varanlegt slitlag á Suðurlandsveginn, sem nú væri kominn austur að Þjórsá. Og hann minntist á Holtavörðuheiðina norður eftir, þar sem mikið hefur verið unnið til mikils gagns. Ég man nú ekki, hann hlýtur einnig að hafa minnst á Borgarfjarðarbrúna. (Samgrh.: Ég gerði það líka.) Já, ég skrifaði það raunar hér. Allt eru þetta gleðileg verkefni og gagnleg að sama skapi sem unnið hefur verið að og gert átak með. En það, sem ég vil nú í mestu vinsemd benda á, var að hæstv. samgrh, minntist ekki á neitt slíkt verkefni í einum landshluta, og það voru Vestfirðir. Það undraði mig raunar ekki, því að það er ekki hægt að benda á neitt hliðstætt verkefni sem hefur verið tekið fyrir á Vestfjörðum. Því vil ég nú vona að í meðförum fjvn, og allra þeirra góðu manna sem eiga eftir að fjalla um skiptingu þessarar álitlegu fúlgu, sem nú fer til vegagerðar, verði tekið tillit til þessarar staðreyndar.

Að sjálfsögðu liggja fyrir stór verkefni í öllum landshlutum. Ég hygg þó að ég mæli ekki af ósanngirni er ég staðhæfi, að Vestfirðir hafa á undanförnum árum ekki fengið inn á vegáætlun neitt af þeim stóru verkefnum sem mest eru aðkallandi í þeim landshluta. Ég nefni þar fyrst og fremst tvö verkefni. Það eru jarðgöng í gegnum Breiðadalsheiði eða hættur vegur á milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar annars vegar og norðurhluta Vestfjarða hins vegar: Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Djúpsins. Þetta ásamt vegabótum í Dýrafirði, Önundarfirði og yfir hálsana í Barðastrandarsýslu eru verkefni, sem okkur hafa legið ákaflega á hjarta, en ekki hafa komist inn —- og þó eru það ekki rétt, því að Önundarfjarðar brúin er komin á blað og einhver fjárveiting til torfæruhálsanna í Barðastrandarsýslu. Ég vil benda á í þessu sambandi, að á síðasta þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga var gerð einróma ályktun um að bættur vegur um Óshlíð yrði forgangsverkefni á óskalista Vestfjarða. Þessu vil ég hér með koma á framfæri til athugunar.

Ég hlýt einnig að vekja athygli á því, að tenging Djúpvegar sið aðalkerfi landsins bíður úrlausnar. Yfir Þorskafjarðarheiði, sem er eina tengingin nú yfir í aðalvegakerfið, liggur vegur sem er orðinn meira en 30 ára gamall og er einn af þessum vegum sem ekki eru vegir nema að nafninu til. Það hefur legið í loftinu, að breytt yrði um staðsetningu tengivegar þarna á milli, og vegna þess, að ég hygg, hefur viðhald þessa vegar undanfarin ár verið í lágmarki. Eftir að Djúpvegurinn var fullgerður hefur þó umferð um Þorskafjarðarheiði og þá sérstaklega þungaumferð aukist að miklum mun og heiðin með sínum lélega vegartroðningi hefur engan veginn verið þess umkomin að taka við þeim þunga sem á hana hefur verið lagður. Þess vegna vil ég benda á alveg sérstaklega, að það er tími til komnir, að ljúka rannsóknum á því, hvar vegarstæði skuli valið, og að ráðist verði í á allra næstu árum að bæta hér úr.

Í þessu sambandi, þegar talað er um að fullgera hinn svokallaða hringveg kringum landið, hef ég viljað leggja áherslu á, og þar hef ég vitnað í ummæli núv. og fyrrv. samgrh., að tenging Djúpsins við aðalvegakerfið mundi skoðast sem hluti hringvegarframkvæmdanna. Ég hef áður hér á Alþ. beint þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh., hvort skilningur minn á þessu atriði sé ekki réttur, og ég vona að hæstv. ráðh. sjái sér fært nú, þó ég hafi ekki fengið svar áður, að tjá mér skoðun sína á þessu máli. Og þá vil ég vænta að hún verði á þann veg sem skilja mátti af orðum hans og fyrrv. samgrh., Hannibals Valdimarssonar, þegar unnið var að Djúpvegi, að tenging Djúpsins og Vestfjarðakjálkans við aðalvegakerfið skoðaðist sem hluti af hringvegarframkvæmdum. því vil ég vonast til þess, að þegar veitt er fjármagn til hringvegarins, þá verði haft í huga að hringvegurinn verður ekki hringur fyrr en Vestfirðir eru komnir í samband.