02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. 24, jan. 1978 skrifaði ég bankastjórn Landsbanka Íslands svo hljóðandi bréf:

„Á fundi Alþingis í gær beindi Sighvatur Björgvinsson þeim tilmælum til viðskrh., að hann upplýsti Alþ. og þjóðina alla eins fljótt og við verður komið um hvað raunverulega hefur gerst í Landsbanka Íslands. Óskaði alþm. sérstaklega upplýsinga um eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi: Hversu umfangsmikið mál er hér um að ræða, með hverjum hætti komust menn á snoðir um hið meinta misferli og hver eru takmörk þessa máls?

Í öðru lagi: Til hvaða ráða verður gripið til að upplýsa málið? — Í því sambandi ber að leggja þunga áherslu á að rannsókn verði hraðað.

Í þriðja lagi sagði hv, þm.: Ég tel rétt að Alþ. fái að vita til hvaða ráða verður gripið til að koma í veg fyrir að atburðirnir, sem orðið hafa í Landsbanka Íslands, geti endurtekið sig.“

Þetta voru þær fsp., sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar hér fram, og ég held að rær séu þarna settar fram alveg nákvæmlega eins og hann bar þær hér upp.

„Mælst er til þess, að bankastjórnin, að höfðu samráði við bankaráð Landsbankans, láti í té fyrir Alþ. eins ítarlegar upplýsingar og fært þykir um ofangreind atriði.“

Svarbréf frá bankastjórninni barst svo 28. jan. þ. á., og þó að því muni nú hafa verið útbýtt til hv, þm., þá vil ég leyfa mér að lesa það upp til þess að það komist í þingtíðindin. Það er svo hljóðandi:

„Hr. viðskrh, Ólafur Jóhannesson, Reykjavík. Sem svar við bréfi yðar, herra viðskrh., dags. 24. þ. m., vill bankastjórnin upplýsa eftirfarandi:

Þann 22. des, sl. ritaði bankastjórnin rannsóknarlögreglustjóra ríkisins bréf, þar sem beðið var um að þá þegar yrði hafin rannsókn á misferli, sem komið hafði fram, að einn af starfsmönnum bankans Haukur Heiðar, deildarstjóri ábyrgðardeildar, hefði gerst sekur um.

Nokkru áður hafði eitt af viðskiptafyrirtækjum bankans óskað eftir sundurliðun á kostnaðarreikningi hjá ábyrgðardeildinni og hafði þá komið íljós, að ósamræmi var milli færsluskjals í bókhaldi bankans og tilsvarandi færsluskjals í bakhaldi fyrirtækisins. Þegar endurskoðunardeild hankans kannaði hvað mismun þessum ylli, varð ljóst, að Haukur Heiðar mundi hafa útbúið tvenns konar færsluskjöl, önnur sem viðskiptamaðurinn greiddi eftir, hin með lægri upphæð, sem gengu til bókhalds bankans, en síðan dregið sér mismuninn. Var þá beðið um rannsókn þá, sem fyrr er getið og enn stendur yfir.

Mismunar af þessu tagi hefur orðið vart í um 25 tilvikum á tímabilinu 1970–1977, að báðum árum meðtöldum, og lúta þan öll að viðskiptum sama viðskiptafyrirtækis. Samtals nemur sá mismunur, sem um ræðir í þessum tilvíkum, nálega 50 millj, kr.

Ekkert hefur komið fram, sem bendir til að hliðstæður fjárdráttur hafi átt sér stað í sambandi við viðskipti annarra fyrirtækja við ábyrgðardeild bankans en þessa eina, en það verður að sjálfsögðu rannsakað til hlítar. Á hinn bóginn hefur Haukur misnotað reikninga sex fyrirtækja til þess að ná því fé, sem hann dró sér út úr bankanum. Eins er ekki fullkannað að hve miklu leyti féð hefur verið dregið af bankanum og að hve miklu leyti af viðskiptafyrirtækinu, en flest bendir þó á þessu stigi til þess, að það sé að mestu af bankanum.

Ekkert bendir til að neinn innan bankans sé samsekur Hauki í máli þessu.

Á því, sem hér hefur verið lýst, eru kærumál bankastjórnar á hendur Hauki Heiðar reist. Rannsókn málsins er hins vegar undir forræði og yfirstjórn rannsóknarlögreglustjóra og er það ekki á valdi bankastjóra að gefa skýrslu um hana.

Af bankans hálfu hefur verið lögð áhersla á að flýta rannsókn málsins eftir því sem stendur í hans valdi. Rannsóknarlögreglustjóri hefur að beiðni Bankastjórnar tilnefnt óháðan löggiltan endurskoðanda til að hafa yfirumsjón með þeirri gagnavinnslu, sem fram fer í bankanum og starfslið bankans vinnur að.

Á þeim rúma mánuði, sem liðinn er síðan mál þetta kom upp, hafa farið fram, á vegum bankaráðs og hankastjórnar, ítarlegar umræður og undirbúningur að aðgerðum, sem hrundið verður í framkvæmd á næstunni í því skyni að koma eins og fært er í veg fyrir að atburðir af þessu tagi geti endurtekið sig. Þessar aðgerðir munu einkum verða tvenns konar:

Í fyrsta lagi verða teknar til endurmats og endurnýjunar allar vinnuaðferðir endurskoðunardeildar bankans, Þörfin á slíkri endurnýjun hefur komið til umræðu áður í bankanum. Nú hafa hins vegar verið gerðar ráðstafanir til að fá utanaðkomandi sérfræðiaðstoð til að annast þetta endurmat án tafar.

Í öðru lagi verður tekinn upp sá siður sem allsherjarregla að flytja menn til í störfum innan bankans á hæfilegu árabili. Þessi siður tíðkast í mörgum erlendum bönkum og þykir hafa marga kosti, en hefur ekki tíðkast fyrr en Landsbankinn tók hann upp í nokkrum mæli fyrir 6–7 árum.

Vér leyfum oss að vænta þess, herra viðskrh., að þetta bréf svari fyrirspurn yðar.“

Undir þetta bréf skrifa Helgi Bergs og Björgvin Vilmundarson.

Eftir að mér hafði borist þetta bréf bankastjórnarinnar þótti mér rétt að senda það til umsagnar rannsóknarlögreglustjóra ríkisins og leita eftir því, hvort hann teldi sér fært að láta í té fyllri upplýsingar en er að finna í skýrslu bankastjórnarinnar. Það gerði ég með bréfi dags. 30. f.m., og svar rannsóknarlögreglustjóra barst í dag, 2. febr. 1973, og er svo hljóðandi:

„Með bréfi viðskrn., dags. 30. f.m., barst mér ljósrit af bréfi bankastjórnar Landsbanka Íslands, dags. 23. f.m. Í bréfi rn. er þess farið á leit við mig, að ég gefi Alþ. allar þær upplýsingar um gang lögreglurannsóknar þeirrar, sem lýst er í fyrrgreindu bréfi, er ég telji fært að veita á þessu stigi rannsóknar.

Svo sem fram kemur í fyrrgreindu bréfi bankastjórnarinnar var það hinn 22, des. s.l., sem stjórn Landsbanka Íslands sneri sér til rannsóknarlögreglustjóra ríkisins með beiðni um að hafin yrði rannsókn á fjármálamisferli, sem komið hefði fram, að Haukur Heiðar, deildarstjóri ábyrgðardeildar bankans, hefði gerst sekur um. Rannsóknarlögregla ríkisins hóf þegar í stað rannsókn þessa kæruefnis, og hefur hún staðið yfir sleitulaust síðan.

Við þá rannsókn, sem þegar hefur farið fram, hefur kærði Haukur Heiðar játað að hafa um árabil staðið að stórfelldum fjártökum og misferli með skjöl í sambandi við viðskipti bankans og tilgreind fyrirtæki. Þykir í meginatriðum upplýst með hvaða hætti kærði hefur staðið að þessum fjártökum að því marki sem kæruefni og rannsóknargögn liggja þegar fyrir. Jafnframt beinist rannsóknin að því að ganga úr skugga um, hvort um aðrar fjártökur eða önnur brot hafi verið að ræða en þegar þykir í ljós leitt.

Rannsókn sakarefna máls þessa er eigi lokið, enda umfangsmikil, en hefur verið hraðað eftir föngum og miðar vel áfram.

Guðmundur Skaftason hrl. og löggiltur endurskoðandi hefur verið rannsóknarlögreglu ríkisins til ráðuneytis við skipulagningu rannsóknar þessa máls og athugun sakargagna, þ. á m. að því er varðar öflun gagna og greinargerða af hálfu Landsbankans og athugun bókhaldsgagna frá þeim viðskiptafyrirtækjum bankans, sem koma við sögu. Þá hef ég tilnefnt Ólaf Nilsson, löggiltan endurskoðanda, til að hafa umsjón með þeirri gagnavinnslu, sem fram fer innan bankans, Á þeim tíma, sem liðinn er síðan mál þetta kom upp, má heita að gögn og greinargerðir af hálfu bankans hafi stöðugt verið að berast eftir því sem kæruefni og rannsókn þeirra hefur þótt gefa tilefni til.

Ríkissaksóknara hefur verið gerð grein fyrir rannsókn rannsóknarlögreglu ríkisins í máli þessu og fullt samráð verið haft við hann um rannsókn og meðferð þessa máls.

Frekari upplýsingar verða veittar svo fljótt sem kostur er vegna rannsóknar málsins.

Hallvarður Einvarðsson.“

Þetta eru þær upplýsingar sem mér hafa borist um það efni sem spurt var um. Frekari upplýsingar frá eigin brjósti get ég ekki gefið á þessu stigi, en get fullyrt að unnið er að rannsókninni með fullri atorku og það er hreyfing á rannsókninni. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál, en taldi rétt að gefa Alþ. skýrslu þessa svo fljótt sem tök voru á. Þó að hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, gæti því miður ekki verið viðstaddur hér í dag, þá taldi ég rétt að fresta því ekki þar eð ég hafði áður gefið fjölmiðlum til kynna að skýrsla yrði gefin á þessum degi. Vona ég að það komi ekki að sök, þar sem hann fær í hendur þau gögn sem hér er um að ræða.

Ég vil svo að lokum aðeins endurtaka það, að ég tel eðlilegt og sjálfsagt að Alþingi fylgist vel með þessu máli. Landsbanki Íslands er ríkisstofnun sem er og á að vera fyrst og fremst undir stjórn Alþingis, með óbeinum hætti, á þann hátt að Alþingi kýs bankaráð sem hefur yfirumsjón með stjórn bankans, það bankaráð, sem kjörið er af Alþ., ræður bankastjóra sem hafa á hendi daglega stjórn hankans, og Alþingi kýs endurskoðendur sem eiga að fylgjast með rekstri bankans.