02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru fyrst örstuttar aths. út af því sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég tel ekki heppilegt að fara að ræða það mál með svo persónulegum hætti sem mér fannst hann gera. Auðvitað geta allir kennt í brjósti um ógæfumenn. En þrátt fyrir það verður rannsókn og réttvísin að hafa sinn gang. Það liggur í augum uppi, að rannsóknarlögreglustjóri hefði ekki farið fram á framlengingu gæsluvarðhaldsúrskurðar nema hann teldi þess fulla þörf, enda kemur það fram í bréfi hans, að málið er enn í rannsókn, og ýmis atriði þess eru óupplýst. Þó að hlutaðeigandi maður hafi játað á sig mörg brot, þá getur vel verið að ekki séu öll kurl komin þar til grafar. Enn fremur er það auðvitað, að mál sem þetta getur haft ýmsa anga sem liggja í ýmsar áttir og verður að skoða og rannsaka, m.a. varðandi ráðstöfun þess fjár sem hlutaðeigandi hefur dregið sér. Ég fullyrði að það er ekki að ástæðulausu sem rannsóknarlögreglustjóri fer fram á að gæsluvarðhaldsúrskurður sé framlengdur. Og öryggis þess, sem á gæsluvarðhaldi situr, á í raun og veru að vera gætt svo vel sem kostur er, vegna þess að það er ekki rannsóknarlögreglustjórinn, sem ákveður að gæsluvarðhaldið sé framlengt, heldur verður hann að bera þá ósk sína upp við hlutlausan dómara og það er sá dómari sem að athuguðu máli kveður upp úrskurð um að gæsluvarðhaldið skuli framlengt. Þar að auki hefur svo hlutaðeigandi rétt til að kæra þennan úrskurð til Hæstaréttar, svo sem gert hefur verið, og talsvert hefur reyndar verið gert að undanförnu, stundum, því miður, að því er manni virðist að ástæðulausu og til þess að valda Hæstarétti óþarfa fyrirhöfn. Þegar um svona mál er að ræða getur maður aldrei tekið það fullgilt sem annar aðilinn segir, og jafnvel þó að það sé talsmaður sakbornings sem hefur sagt hv. þm. þetta, þá er það hans trú, hans skoðun, en það er ekki sama og það sé sannað sem hann hefur haldið fram. Þess vegna er varhugavert að taka það sem góða og gilda vöru.

Ég skal ekki, eins og ég sagði áður, fara frekar út í það að rifja þetta mál upp. Ég fæ að sjálfsögðu sem bankamálaráðh. að fylgjast með rannsókninni í höfuðatriðum. En auðvitað er hún eins og allar aðrar rannsóknir hjá rannsóknarlögreglustjóra og saksóknara ríkisins. Það virðist nú vera dálítið útbreidd skoðun, að það sé dómsmrh. sem sé með nefið niðri í rannsóknum, en það er ekki. Við höfum sérstakan embættismann sem fer með ákæruvaldið og er æðsti maður í þeim efnum, og það er ríkissaksóknari.

Það er sjálfsagt að reyna að draga þá lærdóma af þessu máli sem hægt er, og ég get tekið undir það sem hv. þm. Benedikt Gröndal og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sögðu, að auðvitað þarf að leita allra ráða til að koma í veg fyrir að fjármálalegt misferli eigi sér stað, og það kveður sjálfsagt talsvert að því. Ég vil hins vegar ekki vera með neinar fullyrðingar um að það hafi færst óskaplega mikið í vöxt. Við sjáum það t.d. af ýmsum þeim brotum, sem upp koma, að þau hafa staðið nokkuð lengi yfir, það er ekki fyrst verið að fremja þau nú, og því miður hefur fjármálamisferli í opinberri sýslan átt sér stað um aldir hér á landi og mætti rekja mörg dæmi því til sönnunar úr dómsmálasögu. En hitt er kannske verra, að því miður hefur það tíðkast talsvert hjá opinberum stofnunum, að þær hafa látið kyrrt liggja og ekki kært slík mál sem hjá þeim hafa komið upp, ef málið hefur verið gert upp. Vitaskuld er það ekki svo, að það þurfi endilega kæra til að koma, heldur eiga rannsóknaryfirvöld og saksóknari að hafa frumkvæði um að taka mál til athugunar sem vitað er um, þó að ekki sé kært. Og það á ekki að mismuna mönnum þannig, að sumir sleppi, en aðrir séu dregnir fyrir dóm, ekki aðeins hinn réttmæta dómara, heldur dóm almenningsálits.

Það má vel vera að það séu fleiri skilyrði nú en áður til að fremja þess háttar brot sem hér er um að tefla, og það má vel vera að það kveði meira að þeim en áður, en ég vil sem sagt ekkert fullyrða um það. Það er hins vegar rétt, að þau hafa komið meira fram í fjölmiðlum að undanförnu, þessi brot, en áður var, og það gæti að einhverju leyti verið skýringin á því, að fólk tekur meira eftir þeim nú en áður. Úr brotunum í Svíþjóð vil ég ekki gera lítið, enda vona ég að við eigum langt í land til þess að ná þeim í þeim efnum.

Út af þeirri fsp., sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson beindi til mín, þá get ég ekki gefið hér og nú neitt svar við því, enda er þetta mál, sem er ákaflega viðkvæmt, og birting nafna, þegar ekki er vitað um sök og mál eru í rannsókn, er auðvitað hæpin. Það má vara sig á því. Þetta var gert í svokölluðu ávísanamáli en það var gert af illri nauðsyn, af því að það voru orðnar svo grófar sögusagnir sem gengu um hina og þessa, að þeir væru á þessum lista sem vitað var að gerður hafði verið. Það var beinlínis nauðsynlegt að birta listann til þess að sýkna þá af þeim orðrómi og þeim gróusögum sem gengu um menn sem ekkert höfðu komið þar við sögu.

Málið út af þessum reikningum í Danmörku er fyrst og fremst mál skattyfirvalda og fjmrh. Þangað barst málið fyrst. Það kom ekki til Seðlabankans eða gjaldeyriseftirlits hans, eins og menn vita, fyrr en Alþ. hafði samþykkt fyrir jólin sérstök lög sem heimiluðu skattyfirvöldum að afhenda gjaldeyriseftirlitinu þennan lista. Mér skilst að þetta muni verða kannað þannig í gjaldeyriseftirlitinu, að ef talið er að um sök sé að ræða, sú sök er ekki fyrnd o.s.frv., þá verði það kært. Það er rétt að segja það skýrt og reyna að koma í veg fyrir þann útbreidda misskilning, að það felist í gjaldeyrislöggjöf að menn séu alltaf og undir öllum kringumstæðum skyldir til að skila gjaldeyri sem þeir eiga, — menn sem taka sér búsetu hér á landi. Það er raunar alveg furðulegt sem maður hefur séð í sumum blöðum um það efni, haft eftir mönnum sem ættu þó að vita betur. Ég held t.d. að ég hafi séð það einhvers staðar, að jafnvel ef maður kvænist erlendri konu, sem ætti þar húseignir eða fengi arf og hún flytti hingað, þá væri skylt að selja eignir hennar erlendis og flytja gjaldeyrinn heim. Svo einfalt er málið ekki, og sem betur fer er skilaskylda ekki svo rík. Það væri farið að hefta dálítið frelsi manna, m.a. til ferðalaga og búsetu, ef slíkar reglur ættu að gilda. Menn geta með mörgum hætti löglega öðlast erlendan gjaldeyri og eru í mörgum þeim tilfellum alls ekki skyldir til að skila honum, heldur geta átt hann. Og önnur túlkun á gjaldeyrislöggjöfinni er að mínu viti algerlega röng, ef menn standa í þeirri meiningu, að eignist menn með einhverjum hætti erlenda krónu, þá séu þeir skyldir til að koma með hana og skila henni, og ef þeir eignist fasteignir erlendis eða einhver verðmæti, þá séu þeir skyldir til að koma þeim í gjaldeyri og flytja hann heim. Þannig er ekki skipan þessara mála núna, og þess vegna er það, að þennan lista þarf auðvitað að athuga. Vel getur verið að svo og svo margir á honum hafi öðlast þennan gjaldeyri með löglegum hætti. Það getur verið, þótt þeir hafi öðlast hann með löglegum hætti, að þá hvíli þó skilaskylda á þeim, en það getur líka verið, að þeir hafi öðlast hann — með löglegum hætti og það hvíli alls engin skilaskylda á þeim. Þannig getur verið um ýmis tilvik að ræða, og það er auðvitað gjaldeyriseftirlit Seðlabankans sem kannar þessi mál.

Hvort sé rétt að birta þennan lista get ég ekki sagt um á þessu stigi. Það er sjálfsagt svo, að það séu einnig um þessi tilvik farnar að ganga hér magnaðar gróusögur og farið að bendla Pétur eða Pál við að hann sé reikningshafi í þessum banka. Það getur verið erfitt undir því að búa, vegna þess að það getur verið að sú vitneskja berist alls ekki til hlutaðeigandi, þó að það sé borið út um borg og bý, og þess vegna á hann ákaflega erfitt með að svara og getur ekki svarað og hreinsað sig af þessu. Það getur því vel farið svo, að það verði af illri nauðsyn, vil ég segja, að birta nöfn þessara reikningshafa. En það verður ekki gert nema að nákvæmlega athuguðu máli, og ég treysti mér ekki til að gefa neina yfirlýsingu um það á þessu stigi. Ég hef ekki séð þennan lista og veit ekkert hverjir eru á honum. En það er sjálfsagt að leita eftir sjónarmiðum Seðlabankans um hvernig með þetta eigi að fara.