06.02.1978
Efri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

166. mál, viðskiptabankar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til laga um viðskiptabanka í eigu ríkisins, hefur viðskrn. látið semja. Auk þessa frv. verða lögð fyrir þetta þing frv. til l. um hlutafélagsbanka, þ.e.a.s. einkabanka, og sparisjóði. Vinna við þau frv. er það langt á veg komin, að ég geri ráð fyrir að unnt verði að leggja þau fram innan skamms. Frv. þessi taka að vísu ekki til allra starfandi innlánsstofnana, þar sem auk viðskiptabanka og sparisjóða teljast innlánsdeildir samvinnufélaga, söfnunarsjóðir og póstgíróstofa til innlánsstofnana. Þau taka þó til allra þeirra innlánsstofnana sem mestu máli skipta. Þessar innlánsstofnanir, sem frv. taka til, hafa haft um eða yfir 95% af heildarinnlánum undanfarið. Það er því óhætt að segja, að hér sé um að ræða nýja heildarlöggjöf um innlánsstofnanir.

Heilsteypta löggjöf um bankastofnanir hefur vantað hér á landi. Hefur það verið til baga og að ýmsu leyti skapað þessum stofnunum óheppileg starfs- og þróunarskilyrði. Eina heildarlöggjöfin á þessu sviði er lög um Seðlabanka Íslands frá árinu 1961. Um viðskiptabankana er engin samstæð löggjöf. Hver þeirra starfar samkv. sérstökum lögum, sem bæði eru ósamstæð og ófullkomin. á þetta bæði við um ríkisviðskiptabanka og hlutafélagsbanka. Um sparisjóðina gilda almenn lög frá árinu 1941. Þau voru fullnægjandi á sínum tíma, en eru nú mjög úrelt orðin.

Eins og kunnugt er, hefur Alþ. oft fjallað um bankamál og stundum varið miklum tíma í þau. Sérstökum mþn. hefur nokkrum sinnum verið falið að athuga þessi mál og gera till. um þau. Þrátt fyrir þetta og miklar opinberar umr, stundum og margvíslegar athuganir hafa þessi mál í heild ekki verið tekin til almennrar meðferðar, með tveimur undantekningum þó, þ.e. störfum mþn., sem starfaði árin 1937–1940 og gerði heildstæðar tillögur um bankamál, og störfum þeirrar bankamálanefndar sem skipuð var árið 1972 til að endurskoða allt bankakerfið í samræmi við stefnuyfirlýsingu þáv. ríkisstj.

Enn á ný eru hafnar miklar umr. um banka og bankamál hér á landi í tilefni alvarlegra atburða sem gerst hafa á þeim vettvangi. Hafa verið dregnar upp dökkar myndir af bankakerfinu, og er ekki örgrannt um að reynt sé að ala á nokkurri tortryggni í garð bankastofnana. Það er eðlilegt að bankar sæti réttmætri gagnrýni, en hitt er engum til góðs, að nota einstök áföll, þótt alvarleg séu, til að veikja traust manna á bönkum almennt. Hér ber að sameinast um að gera það sem unnt er til að tryggja sem bestan rekstur þeirra og koma í veg fyrir óheilbrigða þróun. Menn mega ekki tapa áttum í æsilegum viðburðum líðandi stundar.

Þótt frv. þau, sem ég hef minnst á, séu ekki samin vegna einstakra atburða í bankamálum, er þó ýmislegt í þeim sem ætti að geta frekar en eftir gildandi lögum stuðlað að því, að slíkir atburðir gerist ekki og umfram allt leynist ekki árum saman, og geta almennt tryggt frekar en áður sem heilbrigðastan rekstur bankanna. Ég mun víkja nánar að því síðar.

Eins og svo margt, sem við teljum sjálfsagða hluti í okkar samfélagi nú, á eiginleg bankastarfsemi sér tiltölulega skamma sögu hérlendis. Hún hefst fyrir rúmri öld með stofnun nokkurra sparisjóða, og árið 1886 hóf fyrsti bankinn, Landsbanki Íslands, starfsemi sína. Til fróðleiks er rétt að staldra við og bera saman bankastarfsemi nú og þegar fyrsti bankinn var opnaður árið 1886. Landsbankinn hafði þá til umráða tvö herbergi í litlu steinhúsi við Bakarastíg. Bankinn var opinn í fyrstu tvo tíma tvo daga vikunnar. Yfirdómari Landsyfirréttar hafði að aukastarfi framkvæmdastjórn bankans fyrstu árin. Í landinu voru þá örfáir sparisjóðir að stíga sín fyrstu spor. Nú eru í landinu 7 viðskiptabankar, fjöldi bankaútibúa og umboðsskrifstofa, 43 sparisjóðir, innlánsdeildir o.fl., þannig að alls munu afgreiðslustaðir innlánsstofnana vera hátt á annað hundrað.

Sumum kann að finnast að hér hafi keyrt nokkuð úr hófi. Er skiljanlegt að slík sjónarmið komi fram. Bankastarfsmönnum hefur farið mjög fjölgandi að undanförnu, eins og gerð hefur verið grein fyrir í öðru sambandi, og það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér, hvort skipulag þessara mála sé í því horfi sem vera þyrfti. Ég get fallist á að sitthvað í þessum efnum þurfi athugunar við og e.t.v. mætti gera ýmsar ráðstafanir til hagræðingar í þessum efnum, t.d. varðandi starfsemi bankaútibúa. En ég hygg þó að hér þurfi margs að gæta áður en hvatvíslegir dómar eru upp kveðnir um þetta. Á það ber t.d. að líta, að þróun atvinnulífs, sem víðast hvar hefur tekið aldir, hefur orðið hér á nokkrum áratugum. Bankastarfsemi og atvinnulíf eru í órofatengslum, og því hlaut hliðstæð þróun að verða á báðum þessum hliðum. Einnig verður að hafa það í huga, að strjálbýli landsins krefst umfangsmeira bankakerfis hér og bankaþjónustu en í öðrum löndum þéttbýlli, vilji menn keppa að jöfnum og bættum lífskjörum í öllum byggðum landsins. Ég hygg að þessi sjónarmið vilji oft gleymast þegar talað er um ofvöxt og þenslu í bankakerfinu, þó að ég vilji á engan hátt gera lítið úr þeirri þörf sem er á aðhaldi í þessum efnum.

Enginn viðskiptabanki hefur verið stofnaður hérlendis nema um hann hafi verið sett sérstök lög hverju sinni, og hafa þeir því starfað samkv. þessum sérlögum um hvern fyrir sig og reglugerðum settum samkv. þeim. Ákvæði þessi eru að sumu leyti hin sömu, en ýmissa frávika gætir þó. Margt í þessum sérlögum er engan veginn fullnægjandi miðað við þær kröfur sem nú á tímum eru gerðar til slíkra stofnana. Ég vil í því sambandi nefna sérstaklega, að mikilvæg ákvæði vantar um jafnmikilvæg atriði og lausafjár- og eiginfjárstöðu, greiðslutryggingar, hámarkslán til einstakra viðskiptaaðila og endurskoðun. Úr þessu er ætlunin að bæta með frv. þessu, að því er ríkisviðskiptabankana varðar, og með þeim frv., sem væntanleg eru, að því er snertir einkabanka og sparisjóði.

Ég vil vekja athygli á því nýmæli í frv., að fallið er frá því að kveða svo á að bankarnir skuli styðja tilteknar atvinnugreinar. Það er nú tekið fram í lögum um banka, bæði viðskiptabanka í eigu ríkisins, að undanteknum Landsbankanum, og banka, sem reknir eru í hlutafélagsformi. Þessi lögbinding sérhæfingar er óeðlileg, og ekki er í samræmi við þá meginreglu öruggs bankarekstrar að dreifa útlánaáhættunni að tengja útlánsviðskipti við ákveðin svið atvinnulífsins. Þess vegna er horfið frá þeirri reglu í þessu frv., enda er nú sannast að segja svo, að í reyndinni mun það hafa verið þannig, að þó að tekið hafi verið fram í lögunum, að bönkunum hafi verið ætlað að starfa að tilteknum atvinnugreinum og þeir tekið nöfn sín af því, þá hafa þeir verið reknir sem almennir viðskiptabankar. Hlutverk ríkisviðskiptabankanna er því í frv. skilgreint almennt, þ.e.a.s. að reka hvers konar viðskiptabankastarfsemi. Er þar um að ræða hér á landi sem annars staðar í aðalatriðum móttöku á innlánsfé frá almennum viðskiptaaðilum og ávöxtun þessa fjár í útlánum, einkum í þágu atvinnuveganna. Að þessu er vikið í 4. gr. frv., sem er nýmæli. Nánar er starfsemin svo skilgreind í 22. gr., þar sem sett er fram skilgreining á hugtakinu „bankastarfsemi“.

Í 4. gr, er sérstaklega tekið fram, að ríkisviðskiptabönkunum sé einum heimilt að reka almenna viðskiptabankastarfsemi, nema lög ákveði annað. Með þessu ákvæði er verið að koma í veg fyrir að nýir viðskiptabankar geti hafið starfsemi hér á landi án þess að fyrir liggi samþykki löggjafarvaldsins. Þetta hefur ekki áhrif á starfsemi þeirra viðskiptabanka, sem nú eru reknir með sérstökum lögum og eru í hlutafélagsformi, né á starfsemi sparisjóða. Ég vil geta þess, að samkv. þessu frv. eða frumvörpum er ekki um neinn mun að ræða á viðskiptabankastarfsemi og sparisjóðsstarfsemi að grundvallarstefnu til. Forsendur fyrir greiningu þar á milli eru ekki lengur fyrir hendi.

Sú breyting verður á skipulagi yfirstjórnar ríkisviðskiptabankanna samkv. frv., að Búnaðarbankinn, sem nú heyrir stjórnarfarslega undir landbrh., færist til þess ráðh., sem fer með bankamál almennt. Sama gildir um veðdeild Búnaðarbankans. Það er eðlilegast að sami ráðh., þ.e. viðskrh., eins og nú er ákveðið í lögum um verkaskiptingu ráðh., fari með málefni allra ríkisviðskiptabankanna og reyndar allra viðskiptabanka, enda verði gert ráð fyrir því í frv. til l. um hlutafélagsbankana, að málefni Iðnaðarbankans falli undir valdsvið viðskrh., en Iðnaðarbankinn er eini einkabankinn sem ekki heyrir undir hann nú, heldur heyrir hann undir iðnrh., svo sem kunnugt er.

Þótt lagt sé hér til að breyting verði á yfirstjórn Búnaðarbankans og veðdeildar hans, þá gegnir öðru máli um Stofnlánadeild landbúnaðarins, Hún heyrir áfram undir landbrh. samkv. frv. Er það eðlilegt, þar sem Stofnlánadeildin er sérstakur fjárfestingarlánasjóður fyrir landbúnaðinn sem slíkan og er því alveg í tengslum við hann. Mér er því gert ráð fyrir sama skipulagi og varðandi Fiskveiðasjóð og Útvegsbanka. Sjútvrn. fer með mál er varða Fiskveiðasjóð, en aftur á móti fer viðskrn, með mál Útvegsbankans.

En það er ekki nóg að koma eðlilegra skipulagi á hina stjórnarfarslegu verkaskiptingu, Það verður að veita ráðh. betri möguleika en nú er til þess að fylgjast með starfsemi og rekstri þessara stofnana. Sannleikurinn er sá, að þó að menn geri ráð fyrir að bankamálar.íðherra hafi eitthvert vald til afskipta af bankastarfseminni, þá er það í reyndinni svo, að áhrif hans í því efni eru sáralítil og reyndar takmörkuð við það sem berum orðum segir í lögum. Bankamálaráðh. er stundum talinn bera ábyrgð í þessu sambandi. Þá er líka eðlilegt hér eins og endranær, að ábyrgð og vald fylgist að og ráðh, sé veitt nokkru meira vald í þessum efnum en nú á sér stað. Því er t.d. það nýmæli tekið upp í 7. gr., að ráðh., geti hvenær sem er krafið bankaráð og bankastjórn um yfirlit yfir rekstur og hag ríkisviðskiptabanka. Þetta ætti að veita ráðh. virkari úrræði til að fylgjast með rekstri bankanna.

Nokkur nýmæli eru í frv, um bankaráðin og eru sum þeirra mikilvæg, Til þess að styrkja bankaráðin og bæta starfsskilyrði þeirra er lagt til í 9. gr., að þeim verði veitt heimild til þess að ráða sér sérstakan starfsmann. Hugmyndin er að þessi starfsmaður vinni eingöngu í þágu viðkomandi bankaráðs og hafi engin önnur störf með höndum í bankanum. Hér er um heimild að ræða og sé hún notuð þarf viðkomandi bankaráð að ákveða nánar um aðstöðu þessa starfsmanns síns, Ég hygg að þetta geti orðið til bóta og gert hin þingkjörnu bankaráð virkari en nú er, En bankaráðunum, þessum þingkjörnu nefndum, er ætlað að fara með yfirstjórn þessara banka.

Það eru sumir sem fetta mjög fingur út í það, að hið pólitíska vald skuli hafa afskipti af ríkisbönkum með þessum hætti. Ég er að meginstefnu til alveg á öndverðri skoðun um þetta atriði. Ég tel það einmitt eðlilegt og í samræmi við uppbyggingu okkar stjórnarkerfis og stjórnskipulags, að Alþ. áskilji sér alveg sérstaklega rétt til þess að hafa hönd í bagga með stjórn þessara mikilvægu fjármálastofnana ríkisins, og mætti raunar segja að það gæti verið eðlilegt að bankaráðsmennirnir væru beinlínis kjörnir úr hópi alþm. til þess að þeir gætu með þeim hætti haft betri aðstöðu, til þess að skýra Alþ. frá málefnum á þessu sviði en ella. En þó að meiningin með þessum ákvæðum sé þannig góð að mínum dómi, þá er hitt svo sem ekkert leyndarmál, að starf í bankaráði hefur fremur verið tekið sem aukastarf heldur en starf sem leggja þyrfti mikla vinnu í. Og það er skiljanlegt að þeir menn, sem í bankaráðin veljast og hafa mörgum störfum að sinna, eigi erfitt með að fylgjast með hverju einu í hinni fjölbreyttu og viðamiklu starfsemi sem fer fram í ríkisviðskiptabönkunum. Þess vegna er það, að nýmæli sem þetta, sem veitir bankaráði heimild til þess að hafa sérstakan fastan starfsmann sem trúnaðarmann sinn til þess að starfa í bankanum og fylgjast með, gerir hvort tveggja í senn að mínum dómi: að veita bankaráðunum betri aðstöðu en nú er og skapar á hinn bóginn aðhald í innri starfsemi bankans að vita af þessum starfsmanni, þessum eftirlitsmanni, sem þar er stöðugt á ferð.

Í 18. gr. frv. er enn fremur nýmæli sem vert er að geta og varðar hlut bankaráðanna í stjórn ríkisviðskiptabankanna. Þar er bankaráðunum veitt heimild til að setja almennar reglur um lánveitingar bankanna að fenginni umsögn hankastjórnar. Hér er vitaskuld ekki um það að ræða, að bankaráð gefi fyrirmæli um einstakar lánveitingar. Hér yrði aðeins um almenna stefnumörkun að ræða með setningu slíkra almennra reglna. Þessi heimild er í samræmi við starfsskiptingu bankaráðs og bankastjórnar og hún ætti að geta gert bankaráðin atkvæðameiri en nú er, en svo þarf að verða að mínum dómi.

Varðandi aukastörf æðstu starfsmanna ríkisviðskiptabankanna er eins og áður alveg bannað að þeir stundi sjálfstæðan atvinnurekstur. Þátttaka þeirra í stjórn eða rekstri annarra fyrirtækja en bankans er eins og áður háð leyfi bankaráðs, en því er bætt við, að samþykki ráðh. þurfi einnig til að koma. Er þetta í samræmi við það sem nú gildir um seðlabankastjórana. Þótt ráðh. skipi ekki bankastjóra ríkisviðskiptabankana, heldur séu þeir ráðnir af bankaráðunum, er ekki óeðlilegt og ætti að verða til bóta að hann hafi afskipti af þessum málum auk bankaráðs, enda er, eins og áður er getið, hlutverk hans í yfirstjórn bankanna aukið í frv frá því sem nú er. Það á að gilda sú almenna regla að mínum dómi, að bankastjórar gegni ekki aukastörfum, nema í algerum undantekningartilfellum. Þar sem bankastjórar eru hæfir menn má gera ráð fyrir að það sé nokkur ásókn í þá átt að fá þá til að gegna aukastörfum, og það getur vel verið að hlutaðeigandi bankaráði, sem vinnur með bankastjóranum, finnist ekki auðvelt að neita um slíkt. Ég held að ráðh. ætti hér hægara með að beita valdi sínu og neita um leyfi til aukastarfa.

Í III. kafla frv. eru ákvæði sem eiga að stuðla að því, að ríkisviðskiptabankarnir hafi sem mest samstarf sín á milli, þannig að sem mest rekstrarhagkvæmni sé tryggð og eðlileg verkaskipting. Til þess að annast þessi verkefni skal þó sett á fót samstarfsnefnd með aðild allra ríkisviðskiptabanka og Seðlabankans. Ég skal ekki lesa upp þau ákvæði sem eru sett hér um þessa samstarfsnefnd, en henni eru þar falin ýmis verkefni, m.a. í sambandi við stofnun útibúa og því um líkt. Ætti slíkt samstarf að geta komið í veg fyrir að sett væru upp útibú frá mörgum, kannske öllum viðskiptabönkunum á sama stað. En að því hefur kveðið heldur mikið.

Þessi samstarfsákvæði, sem eru í þessum kafla frv., leiða eflaust huga manna að því, að í þessu frv, er ekki gert ráð fyrir sameiningu ríkisviðskiptabanka. Í frv. til l. um viðskiptabanka í eign ríkisins, sem lagt var fyrir Alþ. á 94. löggjafarþingi, árið 1974, var hins vegar gert ráð fyrir sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka. Það frv. varð ekki útrætt, en svo virtist að vafasamt, svo að ekki sé meira sagt, væri um þingfylgi við þá breytingu. Því hefur hugmyndunum um sameiningu ríkisviðskiptabanka verið sleppt í þessu frv., og má segja að í þessu frv. sé frekar um að ræða endurbætur á löggjöfinni um viðskiptabanka, sem ætla má að menn geti almennt verið nokkuð sammála um, en fremur sneitt hjá þeim atriðum sem deiluefni gætu orðið. Það eitt út af fyrir sig að sameina þessa banka, sem ég nefndi, eða aðra leysir ekki neinn vanda. Fyrir því verður að færa rök, að það hafi ávinning í för með sér að steypa þannig saman bönkum. Það, sem mestu skiptir í þeim efnum, er auðvitað hvort slík sameining hefur í för með sér sparnað fyrir þjóðfélagið. Þegar þessar hugmyndir voru uppi fyrir fjórum árum hafði sú hlið málsins að vísu ekki verið rækilega könnuð. Þó var talið að ekki yrði umtalsverður sparnaður af þessari sameiningu. En ég hef síður en svo á móti því, að þn. kanni hugmyndir um sameiningu banka og athugi hvort slík sameining geti leitt til sparnaðar fyrir þjóðfélagið, gert bankana hæfari til að sinna hlutverki sínu, hvort slík sameining geti leitt til sparnaðar í mannahaldi o.s.frv. En ég vil taka það fram, að ég held að slík sameining verði naumast gerð með valdboði, heldur aðeins með heimildarákvæði um sameiningu með samkomulagi hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka. Ég endurtek, að ég hef síður en svo á móti því, að hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, athugi gaumgæfilega hvort ástæða sé til og rétt að ganga þar lengra en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég persónulega held að það eigi að athuga það mjög alvarlega.

Ég hef áður vikið að starfsemi viðskiptabankanna og skilgreiningu á hugtakinu viðskiptabankastarfsemi. Ég vil aðeins bæta því við, að í 22. gr, er fallið frá þeirri venju að tíunda hvernig viðskiptabankar leysi hlutverk sitt af hendi, en það er gert með upptalningu á öllum helstu viðfangsefnunum í gildandi lögum.

Um rétt til verslunar með gjaldeyri er það að segja, að þetta frv. gerir út af fyrir sig ekki ráð fyrir breytingu frá núverandi skipun í þeim efnum. Um það efni eru ákvæði í Seðlabankalögunum og þau ákvæði standa áfram. Samkvæmt því, sem nú er í reynd, eru það aðeins tveir ríkisviðskiptabankar, Landsbankinn og Útvegsbankinn, sem hafa heimild til gjaldeyrisverslunar, en Seðlabankanum er heimilt að bæta fleiri bönkum við og veita öðrum en þessum tveimur bönkum leyfi til gjaldeyrisverslunar. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég tel eðlilegt að Búnaðarbankinn fái slíkt leyfi til gjaldeyrisverslunar. Það er ekki á neinn hátt dregið úr því eða komið í veg fyrir það með þessu frv. sem er hér nú til meðferðar.

Um aðra þætti starfseminnar í ríkisviðskiptabönkunum er það helst að segja, að um nýmæli er að ræða í 24, gr., þar sem lagt er til að mun strangari reglur verði settar um rétt bankanna til að eiga fasteignir, hlutabréf eða eignarhlut í öðrum fyrirtækjum og öðrum stofnunum. Undantekning er gerð vegna Reiknistofu bankanna og hliðstæðra þjónustufyrirtækja.

Mjög ófullkomin ákvæði eru í gildandi lögum um tryggingar fyrir útlánum. Hér er um mjög mikilvæg mál að ræða fyrir rekstur sérhvers banka og öryggi. Ber því nauðsyn til að setja skýrari og nákvæmari reglur um þetta og eru till, þar að lútandi í 30. gr.

Sama gildir reyndar um heildarfyrirgreiðslur til eins viðskiptaaðila. Það getur verið um mikla áhættu að ræða ef bankinn lánar einum viðskiptamanni mjög háar fjárhæðir miðað við eigið fé, eins og dæmi sanna. Um þetta eru settar reglur í 31. gr.

Ég tel þá rétt að víkja að lokum nokkuð að þeim ákvæðum frv. sem fjalla um endurskoðun í ríkisviðskiptabönkum. Þar er um ýmis mikilvæg nýmæli að ræða.

Þar er þá fyrst til að taka, að lagt er til að auk hinna þingkjörnu endurskoðenda skuli starfa að endurskoðun ríkisviðskiptabanka löggiltur endurskoðandi sem ráðh. skipar. Það er alveg ljóst, að umsvif þessara banka nú og breytt tækni við bókhald og á fleiri sviðum gerir það að verkum að krefjast verður aukinnar faglegrar þekkingar af þeim sem við endurskoðun fást í þessum stofnunum. Nú mun málum þannig háttað, að af þeim, sem vinna að endurskoðun hjá ríkisviðskiptabönkunum, er aðeins einn löggiltur endurskoðandi. Ófaglærðum mönnum einum er orðið ofviða að annast þetta endurskoðunarhlutverk svo að fullnægjandi sé. Því verður að tryggja að minnst einn löggiltur endurskoðandi starfi að ytri endurskoðun hjá hverjum ríkisviðskiptabanka, auk þess sem sérstök endurskoðunardeild starfar að innri endurskoðun, ef svo má segja. Ýmis ákvæði eru í frv., einkum í VII, kafla, um störf endurskoðendanna. Skal ég aðeins benda á ákvæði 39. og 40. gr. frv., og þá sérstaklega 40. gr., þar sem kveðið er á um endurskoðunarskýrslu, sem endurskoðendur eiga að semja og á að fylgja ársreikningi og þá athugasemdir líka, ef einhverjar eru, sem þeir telja rétt að vekja athygli ráðh. á.

Bankaráð skal fá skýrslu endurskoðenda í hendur hæfilegum tíma áður en ársreikningurinn er lagður fyrir ráðh, til staðfestingar. Bankaráðið á svo að semja svar við athugasemdum endurskoðanda ef einhverjar eru. Þarna er einnig ákvæði um færslu endurskoðunarbókar og fleiri ákvæði sem til öryggis miða og eiga að tryggja að gögn séu fyrir hendi sem beri með sér í hverju störf endurskoðenda hafi verið fólgin.

Ég held að þessi ákvæði stefni öll að bættum endurskoðunarstörfum hjá bönkunum og jafnframt að breytingu á skipulagi og framkvæmd þessa starfsþáttar.

Ég hef, herra forseti, sjálfsagt sleppt því að minnast á ýmis minni háttar atriði sem varða breytingar frá núgildandi lögum. En ég vil leyfa mér að vísa til ítarlegra athugasemda, sem frv. fylgja, og skal ekki tefja tíma hv. d. með lengri framsöguræðu, en leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.