25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Og ég tek undir með hv. 4. þm. Vesturl., að þær hugmyndir, sem uppi eru í fjmrn. um notkun húsnæðis, sem hér um ræðir, fyrir stofnun til hjálpar þeim sem þroskaheftir eru, þær eru góðar, þær hugmyndir. Og ég þykist vita það, að þær falli fólki þar vestra í geð.

En ég verð hins vegar að harma það, að ekki tókst að fá út úr fjmrn. fjárveitingu í þetta sinn, svo að hún kæmi inn á fjárlög fyrir 1978. Ég vona þó að við þurfum ekki að bíða til næsta hausts eftir því að sjá slíka fjárveitingu einhvers staðar svarta á hvítu, heldur takist okkur nú, meðan þingið fjallar um fjárlög, að koma inn lið, sem gerir ráð fyrir fjárveitingu til þessa. Að sjálfsögðu stendur ekki á mér að stuðla að þessu ásamt öðrum þm. Vesturl, og þá ekki síst þeim Dalamönnum sem hér hafa komið við sögu. Tveir voru nefndir í ræðu hæstv. ráðh., hv. þm. Ásgeir Bjarnason og hv. þm. Friðjón Þórðarson. Sá þriðji talaði hér áðan. Það stendur ekki á mér að stuðla að þessu. Ég vona að okkur takist að koma inn fjárveitingu áður en fjárlög verða afgreidd.