06.02.1978
Neðri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

125. mál, virkjun Blöndu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru orðnar nokkrar umr, um þetta mál og í þeim hefur ýmislegt komið fram sem freistandi væri að taka til nánari athugunar. En þar sem ég flutti langa ræðu seinast þegar þetta mál var til umr., þá mun ég takmarka mig núna eins mikið og ég mögulega get, en kemst þó ekki hjá því að skoða nokkur atriði nánar.

Í ræðu sinni á miðvikudag í fyrri viku bar hv. þm. Pálmi Jónsson enn á borð röksemdir sem hann hefur áður haldið á lofti og margsinnis hafa verið bornar til baka. Þó verð ég að játa það, að ég kunni ekki alla ræðu hans utan að og þar komu fram athyglisverðar staðreyndir sem ég verð að víkja að nokkrum orðum. Hv. þm. sagði margt spekingslega um nauðsyn á vönduðum undirbúningi verka — og þar er ég sammála honum — og þess vegna eigum við ekki að flana í fjárfestingu að óyfirveguðu máli né setja lög um framkvæmdir sem enn eru á frumstigi undirbúnings og engan veginn er ljóst hvernig þróist.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson og einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, gerðu ágætan samanburð á þessu frv. til laga og á frv. um Kröflu. Og víst er um það, að þar er flest á sama veg. Raunar eru þó þættir í frv. um Blöndu sem eru miklu alvarlegri heldur en við Kröflu og líkari því sem var við Laxá, þ.e.a.s. náttúruverndarþáttur og samskiptin við fólkið heima fyrir. Afstaða bændafólks í þeim sveitarfélögum, sem þarna er áformað að eyðileggja, hefur komið mjög glöggt í ljós, bæði þeirra, sem eru framkvæmdinni meðmæltir, og eins hinna, sem eru raunar miklu fleiri, sem ekki vilja að af þessari landeyðingu verði og telja aðra kosti heppilegri. Þessi afstaða hefur verið látin í Ljós á ýmsa vegu, bæði með fundarsamþykktum, sem sumar eru prentaðar sem fskj. með till. til þál. um virkjun Héraðsvatna og ég bið hv. d. og þá sérstaklega iðnaðarnefndarmenn að kynna sér vandlega, í ágætum blaðagreinum, svo sem hjá Jóni á Torfalæk og Rósmundi á Hóli, og eins hefur skoðun manna komið fram með ýmsu öðru móti. Þetta get ég fullyrt þar sem ég hef haft ágætt tækifæri til þess að kynna mér málið, þekki bæði nákvæmlega hvað þarna er í húfi af landsgæðum og auk þess fólkið, lífsskoðun þess og siðferðisvitund. Það eru fleiri en ég úr þessum byggðum sem telja að suma hluti sé ekki hægt að selja. Það er ríkjandi viðhorf þar sem betur fer.

Ég verð að lesa — með leyfi forseta — úr einni af þessum ályktunum, en það er umsögn sveitarstjórna austan Blöndu, þ.e.a.s. umráðamanna Eyvindarstaðaheiðar, um þáltill. um Villinganesvirkjun og um frv. til laga um virkjun Blöndu, en þetta er prentað sem fskj. með þáltill. um Villinganesvirkjun. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Því telur fundurinn augljóst, að fullnægjandi samstaða náist aldrei meðal landeigenda um Blönduvirkjun eftir þeim hugmyndum sem nú eru uppi, og telur því ástæðulaust að frekari viðræður fari fram í þeim efnum:

Mér þóttu óviðeigandi hótanir sem komu fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar í garð bænda varðandi eignarrétt sem tekinn yrði af þeim ef þeir yrðu ekki þægir. Svona málflutningur tel ég að sé bónda í Húnaþingi til vansæmdar. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Pálma Jónssyni um það, að augljóst er að orkukreppa vofir yfir veröldinni. Það er grundvallaratriði í afstöðu minni til stóriðju og virkjunarmála, og á því byggist sú skoðun mín, að við verðum að hagnýta orkulindir okkar sjálfir og fyrir okkur sjálfa, en ekki reisa virkjanir til þess að selja útlendum auðfélögum ódýra orku. Þess vegna eigum við að sjá okkur skynsamlega farborða sjálfir og miða virkjunarframkvæmdir við eigin markað, eftir því sem þörfin knýr á, en ekki reisa virkjanir sem ekki er hægt að nýta af okkur sjálfum nema á óskynsamlega löngum tíma. Á þetta hef ég margoft bent og á eftir að benda margoft. Og það er, eins og ég benti á í fyrri viku, grundvöllurinn undir hagkvæmu framleiðslukostnaðarverði raforku Blönduvirkjunar, að orkukaupandi fáist að mestallri orkunni strax, og það er undirstrikað sérstaklega í umsögn orkumálastjóra, eins og ég las upp orðrétt um daginn.

þá kem ég að því atriði í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar sem ég var allra mest undrandi á, en hv. þm. sagði orðrétt: „Ég tel beinlínis að við eigum a.m.k. að hika við, ef ekki slá striki yfir öll ný stóriðjufyrirtæki af þeim toga, sem við höfum verið að byggja undanfarið, þ.e. álbræðslur, og járnblendiverksmiðjur, vegna þess hve fyrirsjáanlega er mikil nauðsyn þjóðarinnar sjálfrar og hins almenna orkumarkaðar á komandi árum.“

Þarna kom setning sem ég hafði ekki heyrt hann segja áður og ég fagna ákaflega og legg á minnið. Batnandi manni er best að lifa. Þetta er fjórði veturinn sem við erum saman hér í hv. d., og ég hef horft upp á hv. þm. samþ. lög um járnblendisamning við Union Carbide 1975, lög um stækkunarleyfi álversins 1976, lög um járnblendisamning við Elkem 1977 án þess að blikna eða blána, og þá ætti hann nú að láta staðar numið, úr því að hann er búinn að sjá að sér, og vera ekki að nudda á þessari virkjunartillögu um Blöndu, því það er bara að stinga hausnum í sandinn og einber óskhyggja, að skynsamlegt geti verið að byggja svo stóra virkjun nú stóriðjulausa. Ekki byggðum við Sigöldu stóriðjulausa, ekki byggjum við Hrauneyjafoss stóriðjulausan, hvað svo sem líður svari hæstv. iðnrh. til hv. þm. Þórarins Þórarinssonar í umr. í fyrri viku. Hvers vegna er þá verið að mæla fyrir línu frá Hrauneyjafossi beint út á Hvalfjarðarströnd, ef ekki er hugmyndin að reisa verksmiðju þar? Hvers vegna biður hæstv. iðnrh, fylgismann sinn í fjvn. um sérstaka upphæð til stóriðjunefndar og hv. þm. Pálmi Jónsson lætur 10 millj. til þess verkefnis, ef hv. þm. er orðinn á sömu skoðun og ég um vandræði stóriðjunnar? Hvers vegna er stóriðjunefnd höfð í því að tala um þriðja kerskálann í Straumsvík ef Hrauneyjafoss á að virkja til heimilisnota?

Í skýrslu Landsvirkjunar frá 25. jan. 1978 um undirbúning Hrauneyjafossvirkjunar segir m.a., þar sem rakin eru þau rök sem lágu til þess að Hrauneyjafossvirkjun er í byggingu, þetta er á bls. 3, í lið 2: „Með Hrauneyjafossvirkjun er hægt að mæta stóraukinni eftirspurn til stóriðju“. Síðar, í niðurlagi kaflans á bls. 4, segir orðrétt, með leyfi forseta: „Að lokum skal þess getið, að verði tekin ákvörðun um annan virkjunarkost en Hrauneyjafoss verður að telja að teflt sé í tvísýnu orkuöflunarmálum Landsvirkjunar. Í fyrsta lagi virðist sem þá yrði valin dýrari eða a.m.k. ekki ódýrari leið en virkjun Hrauneyjafoss býður upp á. Í öðru lagi væri lagt út í meiri óvissu um orkuafhendingaröryggi til orkukaupenda Landsvirkjunar.“ Ég skýt því hér inn í, að þarna virðist mér að þeir séu hræddir um að þeir geti kannske ekki staðið við skuldbindingar sínar til álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar. Síðan heldur áfram í greininni: „Í þriðja lagi mundi það koma í veg fyrir að hægt yrði að koma á fót aukinni stóriðju eitthvað fram eftir næsta áratug, og þannig væri hindruð E.t.v. mjög æskileg þróun í þeim efnum.“ Lýkur hér tilvitnun í skýrslu Landsvirkjunar.

Flestir stjórnarliðar létu þvæla sér út í að samþ. járnblendiverksmiðjufrv. til þess að reyna að koma Sigöldurafmagninu í lóg, tryggja yrði sölu á 70 mw., sem annars yrðu afgangs í kerfinu. Hvers vegna var hv. þm. Pálmi Jónsson að sitja á fundum með fulltrúaráði sjálfstæðismanna norður í Skagafirði fyrir 54 vikum til þess að reyna að fá þá til að taka við álverksmiðju frá Norsk Hydro, úr því að hann vill slá striki yfir stóriðjuframkvæmdir.

Ég sagði áðan að ég mundi leggja afstöðu hv. þm. á minnið, og ég lofa honum því að minna hann á þessi orð svo lengi sem mér þykir þurfa, þegar til umr. kemur þriðji kerskálinn, þegar nýjar stóriðjuframkvæmdir á Hvalfjarðarströndinni verða til umr. hér, þegar næsta Hydrohrinan verður gerð, þegar hugmyndin um súrálsverksmiðju á Reykjanesi skýtur upp kollinum næst o.s.frv., eða aðrir þættir Integral-áætlunarinnar, sem hæstv. iðnrh. skrifaði þó upp á minnispunkta í fyrra um að halda áfram að vinna að.

Hv. þm. Pálmi Jónsson var fullur vandlætingar yfir mér, að ég leyfði mér að rengja sérfræðinga, það væri hreint hneyksli, eða eins og hann orðaði það: að þykjast sá maður að bera brigður á það sem okkar færustu menn segja eða á niðurstöður okkar færustu vísindamanna. Ég vil taka það fram strax, að ég mun óhikað vefengja það sem mér sjálfum þykir að ekki fái staðist, án tillits til þess að einhverjir færustu menn haldi öðru fram, og mynda mér skoðanir sjálfur eftir bestu samvisku, þó að einhverjir Salómonar hafi aðrar skoðanir, af því, eins og segir í vísunni: „Öllum getur yfirsést, og einnig þeim á Fjalli.“

Þrátt fyrir það, að ég taki með ofurlítilli varúð jafnvel okkar færustu menn, þá verð ég hér og nú að benda hv. þm. Pálma Jónssyni á umsagnir nokkurra af okkar færustu mönnum sem eru sömu skoðunar og ég um til hvers Blönduvirkjun verði notuð, og ég leyfi mér að halda fram, að þeir hafi allir enn þá meiri þekkingu á orkumálum en hv. þm. Pálmi Jónsson. Ég vitna þá fyrst í þann sem hv. þm. ætti að taka allra frekast mark á, bæði vegna langrar og ötullar baráttu hans fyrir ákveðinni þjóðfélagsuppbyggingu skýrrar bugsjónar, en fyrst og fremst hreinskiptni sem er til fyrirmyndar, og þá á ég auðvitað við félaga okkar, hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson. Hann sagði, með leyfi forseta, í fyrravetur, 8. mars, í umr. um till. þeirra Sverris Hermannssonar um staðarval stóriðju á Norður- og Austurlandi: „Við vitum bara að tækniframfarir í heiminum eru gífurlega miklar, og þess vegna finnst mér alveg jafnfráleitt eins og það væri að byggja 20 álbræðslur að afskrifa þann möguleika um alla framtíð að við förum út í frekari orkufrekan iðnað, og auðvitað greiðir það fyrir virkjunum eins og Blönduvirkjun ef orkusölusamningur er fyrir hendi:

Þetta ætti í raun og veru að nægja til þess að hv. þm. áttaði sig, þar sem hv. þm. hlýtur að taka meira mark á þessum sérfræðingi en öðrum mönnum dauðlegum og hafa fyrir leiðtoga lífs síns. En ég get þó til viðbótar og af öryggisástæðum vitnað í minni spámenn líka, og þeir tóku reyndar sumir afdráttarlausar til orða en hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem raunar síðar hefur dregið úr þessum ummælum sínum þegar ég hef áður vitnað til þeirra. En af þessum minni spámönnum vil ég fyrst vitna til dr. Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra. Hann flutti ræðu á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna 1975, ræðu sem birt var í Morgunblaðinu 8. mars það ár og auk þess í Fjármálatíðindum, 1. hefti 22. árgangs, en þar segir Jóhannes:

„Blönduvirkjun er ákjósanleg til þess að ná því markmiði að hægt sé að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Norðurlandi, t.d. við Eyjafjörð, sem þá mundi fá orku bæði frá Blöndu og Kröflu. Sé þetta rétt metið er mikilvægt að halda áfram virkjunarundirbúningi við Kröflu af fullum krafti á næstunni.“

Síðar í ræðunni segir dr. Jóhannes: „Með tveimur nýjum virkjunum á Norðurlandi, Kröfluvirkjun og Blönduvirkjun, ásamt samtengingu við raforkukerfi Suðvesturlands munu í fyrsta skipti skapast skilyrði til þess að koma upp orkufrekum iðnaði í stórum stíl á Norðurlandi.“ — Lýkur hér tilvitnun í dr. Jóhannes.

Þá vitna ég til Bjarna Einarssonar framkvæmdastjóra byggðadeildar Framkvæmdastofnunar, en hann sagði í ræðu á ráðstefnu um iðnþróun á Norðurlandi á Húsavík 24. og 25. júní 1977 samkv. fundarskýrslu, á bls. 20: „Geðfelldasta leiðin til að laga orkubúskap Norðlendinga er ný og hagkvæm stórvirkjun á Norðurlandi, en þetta er einungis hægt ef byggt er upp a.m.k. eitt stóriðjufyrirtæki á Norðurlandi.“

Þarna er kveðið fastar að orði en hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Og svo lætur hv. þm. Pálmi Jónsson sér eins og vind um eyru þjóta þetta, sem okkar færustu menn segja. Ég þarf ekki frekar vitna við. Ég er ekki sá maður að ég leyfi mér að draga í efa skoðanir þessara manna um tengsl stóriðju og Blönduvirkjunar.

Það var fróðlegur útreikningur sá er hv. þm. Pálmi Jónsson flutti um það, hvað kwst., sem ekki væri til, kostaði. Ég get sannað það fyrir honum með svipuðum röksemdum, að tunglið sé úr grænum osti eða jafnvel bláum. En að öllu gamni slepptu, þá er það vel þess virði að staldra þarna við og íhuga skaðsemi móðursýkisviðbragða af þessu tagi. Orkuskortur á Norðurlandi var 15– 20 mw. fyrirsjáanlega þegar Laxáráformin breyttust. Þar af var heildarnotkun á Norðurlandi vestra 6–8 mw. plús orkuveitusvæði Skeiðsfossvirkjunar, sem var sjálfbjarga. Það var einfalt að bæta úr þessum orkukorti. Öruggasta, ódýrasta og fljótvirkasta leiðin var að leggja byggðalínuna. En þá komu fram menn, sumir sem ætluðu að efla sín byggðarlög og aðrir sem ætluðu að græða sjálfir á framkvæmdum, og fóru að æpa um að þetta væri ekki nein úrlausn. Við viljum fá nýjar virkjanir strax. — Kröflumenn tóku til starfa á kostnað framkvæmdahraða byggðalínu og höfðu virkjunina upp á 70 mw. Síðan fóru menn að biðja um Blönduvirkjun, 135 mw. þar eða kannske 150, samtals úrbót upp á a.m.k. 205 mw. plús flutningsgetu byggðalínunnar, sem er 80 mw., til þess að bæta úr orkuskorti sem var 17 mw. Í vetur hefur rafmaga frá Sigöldu farið til Norðurlands og við höfum þurft svona 15 mw. nú um háveturinn og búin að vera leiðindatíð fyrir norðan.

Auðvitað þurfum við Norðlendingar að vera sjálfbjarga með orku. Við þurfum virkjun eins og fyrsta áfanga Héraðsvatnavirkjunar, m.a. með tilliti til öryggis, og það helst sem fyrst.

Hv. þm. Pálmi Jónsson hafði eftir einhverjum manni úti í bæ, að það væri hægt að flytja allt rafmagn frá Blöndu í tvær áttir og með lítils háttar aukabúnaði, eins og hann sagði, í eina átt. Þetta vil ég eindregið vara hann við að gera. Það væri miklu alvarlegra afbrot heldur en að skjóta á einangrun byggðalínunnar úr riffli. Ef hv. þm. sendir meira en 50 mw. eftir línunni, þá bráðnar vírinn. Fræðilega séð gæti hann sent 50 mw. norður og þá önnur 50 suður, en þá þyrfti bara byggðalínan sem sagt að liggja í þrjár áttir.

Það var spaugilegt þegar hv. þm. Pálmi Jónsson var að láta í það skina, að 20 milljarða Blönduvirkjun þyrfti að vera sem varastöð ef eldgos yrði í öðrum virkjunum. Þetta minnir mig á söguna af slæpingjanum, sem taldi það atvinnu sína að selja reyklitað gler þegar sólmyrkvi væri. Auðvitað er áhættusamt að hafa stjórnarstofnanir og höfuðborg hér á eldvirku svæði, og kannske við ættum að drífa í því að flytja höfuðborgina til Blönduóss?

Það er ekki byggilegt að fjárfesta í virkjun sem ekki yrði fullnýtt fyrr en 5 árum eftir að hún er fullgerð. A.m.k. er ekkert að marka verðútreikning þar sem ekki er tekið tillit til þessa.

Ekkert skil ég í Pálma Jónssyni, hv. þm., að láta samanburð á verði Blönduvirkjunar og Villinganesvirkjunar út úr sér eins og hann gerði hér um daginn. Þar á ofan er enn þá fráleitara að fara að leggja saman kostnaðartölur Bessastaðaárvirkjunar og Blönduvirkjunar á þann hátt sem hann gerði. Að vísu ber að taka kostnaðartölur, ekki síst lítið rannsakaðra virkjana, með mikilli varúð. Ég hef heyrt, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hæstv. iðnrh. hvað eftir annað fullyrða héðan úr þessum ræðustól, að orka frá Kröflu yrði með því hagkvæmasta sem völ væri á. Ég get flett þessu upp í Alþingistíðindunum við tækifæri, ef menn óska þess.

Hv. þm. Pálmi Jónsson las hér upp bollaleggingar Jóhanns Más Maríussonar um orkuforða Íslendinga, og staðfesti hann þá raunar kenningu mína. Við skulum vera sammála um, að hægt sé að vinna á Íslandi 25 þús. gwst, á ári úr vatnsorku, og hugsa okkur að stjörnuspá orkuspárnefndar rættist, að framleiðslugetan þyrfti að vera 6370 gwst, orkuvinnsla árið 2000 — og þetta er uppáhaldsorkuspá ráðh. — Síðan 4% orkuaukningarþörf á ári fram eftir öldinni, þ.e.a.s. tvöföldun á rétt liðlega 18 árum. Árið 2018 yrði þá framleiðslan 12740 gwst., árið 2036 25480 gwst., og þá væri vatnsorkan fullnýtt, Þetta eru raunar aðeins harðari tölur en ég var með hér í fyrri viku. Ég nefndi ekki orkuforða okkar í jarðvarma á háhitasvæðunum. Ég hef heyrt ágiskanir um að hann sé allt að 60 þús. gwst., en ekki 25 þús. gwst, eins og Jóhann Már Maríusson segir. En nýting jarðgufu til rafmagnsframleiðslu er enn sem komið er örðugleikum bundin. Jafnvel þótt við gætum átt von á því, að það yrði ekki í tíð barna okkar, heldur barnabarna okkar, sem orkuforði Íslendinga yrði fullnýttur úr náttúrlegum auðlindum, þá held ég að hér sé alveg nauðsynlegt að gá að sér. Hitt var alveg laukrétt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að það er raunar ástæða til þess að fara með réttar tölur og ekki síður að greina rétt frá skriflegum heimildum. Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði orðrétt, með leyfi forseta:

Hv. þm. Páll Pétursson vék að náttúruverndarkönnun í áliti Náttúruverndarráðs. Um þessi efni er ekkert af þess hálfu sem hindrar að þessi virkjun verði gerð.“

Þarna er nú ekki alveg nákvæmt með farið, því að samkv. aths. við frv. segir svo í svari Náttúruverndarráðs, að það áskilji sér rétt til frekari umfjöllunar þegar niðurstöður náttúruverndarkönnunar liggi fyrir. Niðurstaða náttúruverndarkönnunar liggur nú fyrir í skýrslu Orkustofnunar frá apríl 1977. Ég les — með leyfi forseta — á bls. 106, úr kaflanum Lokaniðurstöður — náttúruverndargildi, þar sem ég tel að þetta þurfi að ná eyrum alþm. og eigi skilið að varðveitast í alþingistíðindunum, Ég byrja á kaflanum um mat á helstu vistkerfum:

„Hér hafa nú verið taldir þeir staðir og þau svæði sem athyglisverðust eru og við teljum því mesta ástæðu til að vernda. Hefur þá verið reynt að taka tillit til sem flestra þátta sem taldir eru ákvarða náttúruverndargildi. Að þeim frátöldum er hins vegar ljóst, að frá sjónarmiði náttúruverndar ber að leggja áherslu á þær lífvistir sem þarna fara undir jökulvatnslón og skurði. Sumar þessara lífvista eru mjög auðugar af lífi og frjósamar miðað við öræfi Íslands almennt. Á það einkum við votlendið í víðustu merkingu, þ.e. stöðuvötn, tjarnir, ár og flóa, sem þekja verulegan hluta fyrirhugaðs lónstæðis og veituvegar. Flóarnir virðast yfirleitt vera mjög frjósamar lífvistir með gróskumiklum gróðri sem þekur þá víðast hvar, einkum þó á blautustu svæðunum kringum tjarnirnar. Í flóatjörnunum er einnig auðugt líf af skordýrum, krabbadýrum og fleiru, og flóarnir virðast framfleyta fjölbreyttu og tiltölulega auðugu fuglalífi, sem er nokkuð jafndreift um þá alla. Gildi þeirra fyrir fuglalíf hefur vaxið vegna mikillar þurrkunar mýra og flóa á láglendinu. Bergvatnsárnar, sem renna í Blöndu, hafa einnig nokkuð fjölbreytt líf, einkum neðri hluti þeirra. Rétt er að benda á það, að stöðuvatnasvæðið á útheiðinni er í heild sinni fágæt vatnasyrpa vegna þess, hve breytileg vötnin eru að eðli og frjósemi. Hvetur það til þess að ítarlegur samanburður verði gerður á þeim, m.a. með tilliti til þess, á hvern hátt umhverfisþættir ráða frjósemi vatnanna.“

Síðan segir enn í lok kaflans:

„Þegar litið er á hálendið í heild eru auðnir og blásin öræfi mest áberandi og stór gróðurlendi í mikilli hættu fyrir uppblæstri. Miklu mun eflaust verða kostað til þess í framtíðinni að bjarga því landi sem bjargað verður og græða örfoka land, þó eflaust með misjöfnum árangri. Út frá því sjónarmiði verður að teljast hæpið að fórna nokkru að ráði af þeim hluta öræfanna sem gróinn er.“

Ég vil þá lesa örstuttan kafla, með leyfi forseta, úr sömu skýrslu um uppblástur og áfok: „Erfitt er að sjá nokkuð fyrir um áhrif þau sem kunna að stafa af uppblæstri og áfoki úr dalbotninum á þeim árstíma, sem vatnsborð er lægst, og landbroti af völdum vatnsins. Þó er ljóst að uppblásturshætta getur verið veruleg, bæði vegna skerðingar jarðvegs í lónbotninum og vegna vatnsróts við bakkann. Ef uppblástur nær að búa um sig við lónbotninn eða við bakkann er hætta á að hann stöðvist ekki við mörk lónsins, en haldi áfram yfir í gróðurlendi nágrennisins. Aðaluppblástursáttin stefnir í norður eða norð-norðvestur, enda eru sunnanstormar tíðastir miðað við mælingar á Hveravöllum. Stefnu aðaluppblástursgeiranna, sem fyrir eru á svæðinu, má sjá á korti á bls. 119. Frá lónstæðinu mun því vera mest hætta á, að uppblástursgeirar nái að myndast í norður frá Galtarárflóa og við Reftjarnarás austan Blöndu og norður frá Korkuflóa yfir Þrístiklubungu vestan Blöndu. Þessi hætta er mikið háð því, hvenær á árinu landeyðingin er virkust á þessu svæði. Upplýsingar um það vantar og hversu hátt er í lóninu á þeim tíma. Áfok frá lónbotninum, jarðvegur eða Jökulleir, getur flýtt fyrir þykkni jarðvegs í nágrenni lónsins og þá helst norðan við það. Ef verulegrar jarðvegsþykknunar gætir á löngum tíma gerir það landið smám saman veikara fyrir uppblæstri.“

Ég læt lokið upplestri — tilvitnun úr úttekt þeirri, sem úr náttúruverndargildi, sem gerð var á vegum iðnrn. Þá vil ég lesa aftur umsögn frá Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Það er dags. 25. apríl 1977 á Akureyri og er stílað til Ingólfs Jónssonar í iðnn. Nd. Alþ.:

„Félaginu hefur borist bréf þitt, dags. 14. apríl s.l., þar sem beðið er um umsögn varðandi lagafrv. um virkjun Blöndu,

Frá því að Blönduvirkjun komst fyrst á dagskrá hefur það verið ríkjandi skoðun félagsmanna í SUNN, að ekki skuli ráðist í þessa virkjun fyrr en aðrir sambærilegir virkjunarkostir hafa verið nýttir. Ástæðurnar eru fyrst og fremst það mikla gróðurlendi sem við núgildandi hönnun virkjunarinnar er fyrirhugað að setja undir miðlunarlón. Þessi skoðun félagsins hefur verið staðfest með ályktun sem gerð var á fulltrúafundi félagsins árið 1975 og sendist hér með í afriti.“

Ég sleppi því að lesa afritið, því að ég er búinn að gera það oft hér úr þessum ræðustól.

„Í fyrrasumar var gerð sérstök náttúruverndarkönnun á Blönduvirkjunarsvæðinu að tilhlutan Orkustofnunar og Náttúruverndarráðs. Við könnun þessa kom ekkert fram sem mælir gegn ofangreindu áliti félagsins, þ.e.a.s. að ekki skuli ráðist í þessa virkjun fyrr en aðrir sambærilegir virkjunarkostir hafa verið nýttir. Þá er félagið eindregið mótfallið því að stofna til stóriðjuvera á Norðurlandi í tengslum við Blönduvirkjun eða aðrar stórvirkjanir og hefur þegar sent frá sér ýmsar ályktanir og grg, þar að lútandi sem birtar hafa verið í fjölmiðlum.“

Ég vitna til álitsgerðar náttúruverndarnefndar Skagafjarðarsýslu, og eftir þessar álitsgerðir getur afstaða Náttúruverndarráðs tæplega orðið nema á eina leið.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum enn og aftur að uppræktuninni. Hv. þm. Pálmi Jónsson segir mig tala um þetta mál í „áróðursstíl og ekki í samræmi við staðreyndir þess máls, ef það er metið af réttsýni, og er það enda flutt til þess að reyna að hafa áhrif gegn þessu máli, en ekki til að leiða hið rétta í ljós.“ Ósköp er að heyra þetta. Það er nú eitthvað annað en málflutningur þeirra sannleiksvina, sem mæla með þessari framkvæmd og „leiða hið rétta í ljós.“ Þó sagði hv. þm. í ræðu sinni orðrétt: „Það hefur verið talað um að rækta upp örfoka land vegna þess að það hefur verið talið falla best í geð náttúruverndarmanna, því að þá væri ekki verið að breyta neinu strái af því sem fyrir er, þar væri ekkert strá fyrir.“ Tilvitnun lýkur hér, en ég endurtek: „Það hefur verið talið falla best í geð náttúruverndarmönnum.“ Síðan ætlar hv. þm. Pálmi eitthvað allt annað með ræktunarafrek sín. En þetta er ekki í áróðursstíl. Hér er verið að „leiða hið rétta í ljós“, allan sannleikann, ekkert nema sannleikann.

Ég gerði nokkra grein fyrir beitartapi í ræðu minni í fyrri viku og því, hversu fjarstætt það væri að hugsa sér að bætt yrði beitartap til þriðjungs eða helmings af beitarþoli afréttar, þar sem ganga nú á hverju sumri 12–16 þús, ærgildi og sennilega í kringum 1000 hross, með ræktun örfoka lands, 600–700 hektara, sem kæmi í hlut Auðkúluheiðar, og ætti sá hluti að fleyta 1700 ærgildum, þegar búið er að eyðileggja land sem ganga nú á 6–8 þúsund fjár og E.t.v. 500 hross. Ég vil alls ekki vera vændur um að fara ekki rétt með staðreyndir, og þess vegna verð ég að fá leyfi forseta til þess að lesa hér orðrétt stuttan kafla úr skýrslu Orkustofnunar um Blöndu frá 1975, enda á sá kafli sannarlega heima í Alþingistíðindum höfundum sínum til frægðar og brjóstviti þeirra sem ekki eru þeir menn að rengja sérfræðinga. Í kaflanum um umhverfismál segir:

„Eins og fram hefur komið hafa verið gerðar ýmsar tilraunir, tilhaganir á miðlun, í því skyni að takmarka beitiland sem fer undir vatn. Beitargildi landsins hefur verið ákvarðað af Rannsóknastofnun landbúnaðarins í ærgildum, en eitt ærgildi er sú fóðureining, sem framfleytt getur einni á með 1.4 lömbum í 90 daga.“

Síðan segir: „Þótt stíflað verði ofar Sandárhöfða fer engu að síður verulegt beitiland undir vatn. Með hliðsjón af því og framansögðu er eindregið lagt til að miðlað verði við Reftjarnarbungu og umrædd umhverfisáhrif virkjunarinnar bætt með ræktun örfoka lands í næsta nágrenni miðlunarlóns, bæði vestan Blöndu og austan. Að slíkt sé unnt má heita sannað, m.a. með tilraunum sem starfsmenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hafa staðið fyrir, sjá fylgiblað 4.1. Með núverandi áburðarverði óniðurgreiddu má áætla að kostnaður við dreifingu áburðar úr flugvél nemi 20 þús. kr. á hektara, en 25 þús. kr. á hektara ef jafnframt er dreift fræi. Hugsa má sér að slík uppgræðsla sé framkvæmd þannig, að fyrsta árið sé dreift bæði fræi og áburði en áburði næsta ár og síðan annað hvert ár uns liðin eru 10 ár frá því að verkið hófst, en fjórða hvert ár úr því um alla framtíð, Árskostnaður virkjunarinnar af slíkum aðgerðum verður sem hér segir í krónum á hektara, ef gengið er út frá ofangreindum tölum um dreifingarkostnað áhurðar og gert ráð fyrir að uppgræðslan hefjist 4 árum áður en lónið er fyllt í fyrsta sinn.“

Ég sleppi því að lesa þessa útreikninga, en niðurstaðan af þessu öllu saman er þessi: „Langsamlega álitlegasta leiðin til þess að bæta það eigna- og beitartjón, sem Blönduvirkjun hefur í för með sér, virðist því vera sú, að rækta upp gróðurlaust land í nágrenni miðlunarlónsins. Þessa leið þarf að íhuga vandlega í samráði við bændur sem nýta beitiland.“

Það er vísað til fylgiblaðs, 4.1 og það hljóðar svo:

„Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Rætt um bithaga. IÞ og AT.

Á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði þarf að jafnaði 2.3–2.5 hektara gróins lands til þess að framfleyta einu ærgildi í 90 daga. Á graslendi, sem ræktað er t.d. á örfoka landi, má yfirleitt áætla að hver hektari framfleyti 2–4 ærgildum á sama tímabili. Sé reiknað með lægra gildinu þarf þannig að rækta um 1250 hektara til að framfleyta 2430 ærgildum. Tilhögun slíkrar ræktunar yrði með eftirfarandi hætti: Á fyrsta ári yrði sáð 40 kg af grasfræi og 50 kg af blönduðum áburði á hektara. Á öðru ári yrði borið á sama áburðarmagn, en síðan annað hvert ár á átta ára tímabili. Að því loknu mundi sennilega hæfilegt að bera á fjórða hvert ár eða jafnvel enn sjaldnar, ef gróðurinn væri hæfilega nýttur. Miðað við núgildandi verðlag yrði kostnaður við slíka ræktun 25 þús. kr, á fyrsta ári, en síðan um 20 þús. kr. á hektara hvert áburðarár. Full ástæða er til að ætla að slík ræktun mundi heppnast vel á Auðkúluheiði, og byggist það á niðurstöðum tilrauna með uppgræðslu örfoka lands sem þar hafa verið gerðar í 500–600 m. hæð. Svipað land er fyrir hendi á Eyvindarstaðaheiði. Á þessum afréttum er ríkjandi gróður kvistlendi, mosaþemba og votlendi sem svarar illa áburði.“

Ég rakti það í ræðu minni í fyrri viku, hvert viðhorf Landgræðslu ríkisins væri til þessara útreikninga. Ég mun ekki endurtaka það hér, enda er skammt um liðið. En ef hv. þm. hafa áhuga á og vilja fá staðfestingu orða minna, þá veit ég fyrir víst, að sú staðfesting liggur á lausu hjá landgræðslustjóra, Sveini Runólfssyni, og er þar tiltæk, ef málið verður borið undir hann en hann telur sem sagt að þetta fái ekki staðist. Raunar sá ég það af brjóstviti mínu líka.

Það er von að hv. þm. Pálmi Jónsson sé hneykslaður á mér að viðhafa áróðursstíl, Það freistar mín verulega að velta stuttlega vöngum yfir loftslagsbreytingu sem vafalítið er tekin áhætta með að þarna verði. Sjálfsagt eru til þeir menn sem fullyrða að Þingvallavatn hafi ekki veðurfarsáhrif í nágrenni sínu. Þingvallasveitin er auðvitað bara svona köld vegna hnattstöðu sinnar. Þegar meðalhiti lækkar um eina gráðu sér þess strax stað á fyrsta sumri á Auðkúluheiði. En ég sleppi því í þetta skipti að fjölyrða um veðurfarsþáttinn.

Það væri gaman að spjalla litla stund um landvinningana í Langadal, sem hv. þm. Pálmi Jónsson talaði sem fjálglegast um, en ég sleppi því. Einungis verð ég að geta þess, að „kanalisering“ á Blöndu frá ræsinu til sjávar mundi hækka byggingarkostnað virkjunarinnar kannske allt að 30%, og þá fer nú að hallast hagkvæmnisamanburðurinn við Villinganesvirkjun, Þó verð ég enn að víkja að veiðimálum í Blöndu. Uppeldissvæði laxa minnkar að sjálfsögðu þar sem áin náttúrlega styttist. Samgangur við Seyðisá og Haugakvísl er alveg rofinn. Hluti árinnar verður þurr eða því sem næst þurr, en meiri straumur í hinum hlutanum að vetrinum, meiri straumur og þar af leiðandi minna afdrep fyrir hrognin.

Mér þótti skemmtilegt að heyra hugleiðingu hv. þm. Pálma Jónssonar um eðli jökulvatnsins í Blöndu. Það er auðséð að hv. þm. hefur ekki alist upp í nágrenni árinnar. Jökulliturinn kemur að sjálfsögðu frá jökulvatninu, en ekki af lindáavatni eða dragáa. Ef lítil leysing er í jökli er hún tiltölulega tær. En þegar þar leysir litast vatnið. Það er ekki venjulegur sandur sem litar vatnið, heldur eru það mjög fíngerð korn, svokölluð ármóða, og hún botnfellur ekki eins og sandurinn. Þetta gæti hv. þm. sannað sjálfum sér, svo að honum geti verið alveg sama um hvað hv. þm. Páll Pétursson segir,“ eins og hann orðaði það. Þetta gæti hann rannsakað með því að sækja vatnssopa í Blöndu í sumarvexti, t.d. í koppinn sinn, og bíða svo eftir því að vatnið settist til og yrði tært í koppnum. (Gripið fram í: Þarf ekki að kenna öllum Húnvetningum þetta?) Nei, ég held að hann mætti bíða lengi. Þá yrði hann einn af okkar „færustu mönnum á því sviði“ og gæti talað af reynslu og þekkingu um eðli jökulvatns, því að maðurinn vill „greina rétt frá staðreyndum“.

Mig langar til að nefna Hvítá í Árnessýslu. Hún hefur haft tíma til að setjast til í Hvítárvatni áður en hún fellur til sjávar, og ekki er hún orðin tær, Ég vil nefna Lagarfljót, sem hefur haft tíma til að setjast til í stóru vatni, í Leginum. Ekki er það tært heldur.

Ég hef séð ástæðu til að gera fáeina þætti úr ræðu Pálma Jónssonar, hv. þm., að umtalsefni, þar sem hann kom hér í fyrri viku með nokkrar nýjar staðhæfingar sem ég hef ekki haft tækifæri til að bera áður til baka. Að sjálfsögðu er af mörgu fleira af taka, en ég sé þó ekki ástæðu til þess að rekja nákvæmlega og endurtaka röksemdir sem ég hef áður látið frá mér fara um þetta efni héðan úr þessum ræðustól. Ég læt aðeins nægja að vísa til umr. í fyrravetur og ræðu minnar í fyrri viku. Þær röksemdir eru allar eða flestallar í fullu gildi og prentaðar í Alþingistíðindunum.

Niðurstaða mín er í sem stystu máli þessi, að ekki beri að samþykkja þetta frv, og ekki eigi að virkja Blöndu eftir þessari tilhögun, þar sem augljóslega sé ekkert vit í því að reisa þessa stóru virkjun nema í tengslum við erlenda stóriðju, sem ég tel mjög óheppilega þjóðfélagi okkar og þjóðarbúskap, heldur beri okkur að reisa mátulega stórar virkjanir og það eru möguleikar að gera í Blöndu. Það er tiltölulega einfaldur möguleiki að reisa 50–70 mw. virkjun án verulegra náttúruspjalla. Við eigum að reisa mátulega stórar virkjanir fyrir þarfir raforkumarkaðar Íslendinga sjálfra, þannig að notendum verði tryggð sem ódýrust raforka í bráð og lengd, ekki einasta ódýr í krónum talið, heldur einnig á þann siðræna mælikvarða sem allar okkar gerðir verða að metast eftir, ef við eigum að ganga sæmilega uppréttir í landi okkar og ekki þurfa að fyrirverða okkur fyrir afkomendum okkar eða því landi sem við eigum og tókum í arf og verðum síðar að skila afkomendum okkar. Ég leyfi mér að fullyrða það, að kwst, frá Blöndu verði siðferðilega dýrari — og raunar hef ég fært rök að því að hún verði það fjárhagslega líka — heldur en raforka frá flestum öðrum virkjunarstöðum sem við höfum um að velja, og ég mun ekki standa að því að eyðileggja 60 km2 af héraði mínu. Og ég mæli ekki einasta fyrir sjálfan mig, ég mæli einnig fyrir munn þess fólks á Norðurlandi vestra sem lítur á það svipuðum augum og ég, hvað sé sæmandi að gera og hvað ekki.