07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

148. mál, hollustuhættir í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fyrstu spurningu:

Sveitarfélög annast heilbrigðiseftirlit hvert fyrir sig og er framkvæmd eftirlitsins í höndum heilbrigðisnefndar viðkomandi sveitarfélags. Yfirumsjón með starfi heilbrigðisnefnda er 1 höndum Heilbrigðiseftirlits ríkisins.

Samkv. 1. gr. reglugerðar nr. 164/1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, her öllum verksmiðjum, þar sem ætla má að slík efni séu notuð, myndist eða komi fram, að hafa leyfi heilbrrh. til þess rekstrar sem þær hafa með höndum. Síldar- og fiskimjölsverksmiðjur eru sérstaklega tilgreindar í 2. gr. reglugerðarinnar. Samkv. reglugerðinni skulu umsóknir um starfsleyfi sendar Heilbrigðiseftirliti ríkisins sem kannar þær og sendir síðan till. sínar um afgreiðslu hvers máls til heilbrrh. að fengnum umsögnum heilbrigðisnefndar og fleiri aðila, eftir því sem ástæða er til.

Eftirlit með því, að ákvæðum reglugerðar þessarar sé hlýtt, er í höndum heilbrigðisnefnda undir yfirumsjón heilbrigðiseftirlits ríkisins. Í tengslum við veitingu starfsleyfa hafa starfsmenn Heilbrigðiseftirlits ríkisins farið eftirlitsferðir í allar síldar- og fiskimjölsverksmiðjur landsins. Hefur við mat á aðstæðum öllum verið eftir því litið, að aðstæður og aðbúnaður á vinnustað með tilliti til hollustuhátta uppfylltu skilyrði laga og reglugerða um þessi efni. Þar sem misbrestir hafa komið í ljós hafa kröfur um úrbætur verið settar fram og í einstaka tilfellum hafa skilyrði um bætta vinnuaðstöðu verið sett fyrir veitingu starfsleyfis. Fullt samráð hefur verið milli Heilbrigðiseftirlits ríkisins og heilbrigðisnefnda um þessi atriði. Enn fremur hafa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fylgst með aðbúnaði og hollustuháttum í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum landsins. Við rotvörn loðnu eru notuð hættuleg efni, blanda af natríumnítrít og formalíni, en framkvæmd rotvarnar er undir handleiðslu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Svonefnd nítrósamin efnasambönd eru talin geta myndast í fiskimjöli við eldþurrkun á rotvörðu hráefni, en þessi efni eru talið geta valdið m.a. krabbameini. Að hve miklu leyti þessi efni koma fyrir í útblæstri frá verksmiðjunum eða í andrúmslofti á vinnustöðum þeirra er ekki vitað, enda hafa rannsóknir ekki verið gerðar á þessu sviði hér á landi eða í nágrannalöndunum, svo að kunnugt, sé. Að öðru leyti er ekki kunnugt um að hættuleg efni eða eiturefni séu fyrir hendi í umhverfi starfsmanna í þeim mæli, að um heilsufarshættu geti verið að ræða.

Þegar á heildina er litið verður að telja hávaða, óþrif og óþef vera meginvandamál vinnuumhverfis fiskimjölsverksmiðjanna. Verður að telja vinnu í ýmsum þeim fiskimjölsverksmiðjum, sem nú eru starfræktar á landinu, með óþrifalegri vinnu sem um getur. Verulegar endurbætur hafa þó orðið á þessu sviði í nokkrum verksmiðjum á undanförnum árum, en ólíklegt er að innan veggja þessara fyrirtækja skapist viðunandi vinnuumhverfi fyrr en gagnger endurnýjun hefur átt sér stað hjá meginþorra verksmiðjanna.

Um skráningu og tilkynningu atvinnusjúkdóma fer eftir reglugerð nr. 24 frá 1966, en eins og vitað er hefur tilkynningar- og skráningarskyldu samkv. henni verið slælega framfylgt og liggja ekki fyrir neinar skýrslur um tíðni atvinnusjúkdóma í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum sérstaklega.

Önnur spurning:

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 161 frá 1972 eiga allar síldar- og fiskimjölsverksmiðjur að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Sótti Félag fiskimjölsframleiðenda sameiginlega um leyfi fyrir allar verksmiðjur innan sinna vébanda þegar í ágúst 1972. Við afgreiðslu þeirra voru fyrst og fremst gerðar kröfur um varnir gegn reyk og ólykt, einkum þar sem verksmiðjur voru staðsettar inni í byggð, en einnig um frágang frárennslis, aukið hreinlæti og bætta aðstöðu fyrir starfsfólk. Almennar reglur hafa ekki verið settar um mengunarmörk, heldur hefur málefni hverrar verksmiðju verið metið sérstaklega með tilliti til aðstæðna. Mjög erfitt er enn fremur að setja mengunarmörk fyrir ólykt vegna skorts á nákvæmum og áreiðanlegum mæliaðferðum, og hafa yfirvöld á hinum Norðurlöndunum ekki farið slíka leið enn sem komið er a.m.k.

Við afgreiðslu fyrrnefndra umsókna á árunum 1972–1974 var yfirleitt gerð krafa um að reistir yrðu reykháfar á þeim stöðum þar sem óþægindi vegna ólyktar þóttu mest og þar sem talið var að slík lausn mætti verða að gagni. Hvað frárennsli snerti var gerð krafa um að það væri leitt niður fyrir stórstraumsfjöruborð í samræmi við 61. gr. heilbrigðisreglugerðar fyrir Ísland, nr. 45 frá 1972.

Ákvæði starfsleyfa um háa reykháfa sættu verulegri gagnrýni af hálfu ýmissa aðila, bæði vegna kostnaðar og eins vegna þess, að í ýmsum tilvikum var ekki víst að slík lausn kæmi að fullum notum. Enn fremur mátti benda á að slíkar leiðir hefðu ekki verið valdar í nágrannalöndunum. Á grundvelli þessa sendi Heilbrigðiseftirlit ríkisins frá sér í maí 1976 ítarlega skýrslu um mengunarmál fiskimjölsverksmiðja. Grg. þessi var unnin á grundvelli ítarlegrar upplýsingaöflunar um þróun þessara mála í nágrannalöndunum, þar sem aðstæður eru sambærilegar, einkum í Danmörku og Noregi. Er í skýrslu þessari bent á þær tæknilegu leiðir til eyðingar á lykt sem helst eru taldar koma til greina og reynsla hefur fengist fyrir, ásamt öðrum ráðstöfunum til mengunarvarna innan dyra verksmiðjanna og utan. Eru niðurstöður stofnunarinnar þær, að til eyðingar ólyktar komi eftirtaldar leiðir helst til álita:

1. Tekinn verði upp þvottur útblásturslofts í svonefndum efnahreinsiturnum af viðurkenndri gerð.

2. Tekin verði upp brennsla útblásturslofts með svonefndri Hetlandaðferð.

3. Breytt verði um framleiðsluhætti og tekin upp gufuþurrkun samfara brennslu lyktarefna undir gufukötlum eða eyðingu þeirra í efnahreinsiturnum.

Tveim fyrstnefndum aðferðunum mætti koma við í verksmiðjum eins og þær eru í dag samfara nauðsynlegum lagfæringum á loftræstikerfi o.s.frv. Síðast nefnda aðferðin felur í sér gagngerða endurnýjun verksmiðjanna og krefst því mikils fjármagns. Hún gefur hins vegar möguleika á aukinni hráefnisnýtingu og betri framleiðslu er gæti skilað verksmiðjunum og þjóðarbúinu auknum arði.

Þriðja spurning:

Alls munu nú vera starfandi á landinu 47 fiskimjölsverksmiðjur, þar af 24 sem vinna úr loðnu. Af þessum 47 síldar- og fiskimjölsverksmiðjum ern í dag 16 verkmiðjur með fullt starfsleyfi og 20 með skilyrt starfsleyfi, en 11 hafa ýmist ekki fengið starfsleyfi eða eru með skilyrt starfsleyfi frá heilbr.- og trmrn. samkv. reglugerð nr. 164/1972 sem ekki hefur verið uppfyllt að fullu.

Eftirtaldar verksmiðjur hafa ekki fengið starfsleyfi:

1. Fiskimjölsverksmiðjur í Reykjavík, þ.e. Faxi og Stjörnumjöl í Örfirisey og Klettur við Lauganes. Málefni þessara verksmiðja hafa fram til þessa alfarið verið í höndum heilbrigðismálaráðs Reykjavíkur, enda hafði ráðið tekið þessi mál upp löngu fyrir gildistöku reglugerðar.

2. Fiskimjölsverksmiðjurnar í Vestmannaeyjum, tvær talsins. Starfsemi þessara verksmiðja lagist niður 1973 við gosið í Vestmannaeyjum og urðu þær því ekki afgreiddar samfara öðrum verksmiðjum. Með tilliti til þess tjóns, sem verksmiðjurnar urðu fyrir, og þeirrar enduruppbyggingar, sem átt hefur sér stað í Vestmannaeyjum á undanförnum árum, hefur ekki þótt ástæða til að setja fram kröfur um mengunarvarnir enn sem komið er.

3. Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Starfsemi verksmiðjunnar lá niðri þar til sumarið 1976.

4. Tvær minni háttar beinamjölsverksmiðjur á Snæfellsnesi.

Aðallega hefur verksmiðjunum gengið treglega að uppfylla skilyrði starfsleyfis um varnir gegn óþægindum af völdum ólyktar, og hefur fjárskorti mest verið borið við. Hins vegar hefur nú svo brugðið við, að afkoma loðnuverksmiðja hefur stórlega batnað og margar af þeim verksmiðjum, sem eru með skilyrt starfsleyfi, eru nú að undirbúa að verða við þeim kröfum sem heilbrigðisnefnd viðkomandi staðar og Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafa farið fram á.