07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

148. mál, hollustuhættir í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans við fsp., sem voru ítarleg og hreinskilin, að því er ég best fæ séð. Eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, er hér um að ræða allmikinn iðnað, sem jafnvel mætti kalla í heild íslenskan stóriðnað, þar sem tvímælalaust skortir mikið á að gætt sé þeirra hollustuhátta sem við nú á dögum verðum að krefjast fyrir verkafólk okkar.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh. við fyrstu spurningunni, sem ég hafði raunar heyrt frá læknum áður, að talið er hugsanlegt að viss efnasambönd, sem fyrir koma í þessari framleiðslu, geti valdið krabbameini. En engar rannsóknir hafa farið fram í þessu hér og ekki er vitað til að það hafi verið gert í nágrannalöndum okkar. Ég veit ekki hvort í nokkru nágrannalandi séu tiltölulega eins margar slíkar verksmiðjur og hér. Það eru örfáar verksmiðjur í Danmörku, Noregi og Færeyjum. En mér finnst þessar upplýsingar ískyggilegar og getur það ekki stafað af öðru en því, að heilbrigðisyfirvöld okkar eru ofhlaðin verkefnum. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það. Viðurkennt er í skýrslunni, að hávaði, óþefur og óþrif séu slík í þessum verksmiðjum, að fjarri sé því að þær séu viðunandi vinnustaður, og meira að segja var tekið fram, að ólíklegt sé að viðunandi umhverfi skapist nema gerðar verði mjög miklar umbætur á verksmiðjunum.

Ég skal meta það, að á árunum 1972–1974 var gert átak til að bæta úr þessu og þá sérstaklega í sambandi við reykháfa, þ.e. ytri mengun. En í þessari fyrirspurn hef ég sneitt algjörlega hjá ytri mengun og fjallar fsp. því aðeins um hina innri mengun á þessum vinnustöðum.

Það var athyglisvert að heyra þær upplýsingar, þar sem sérfræðingarnir, sem veita ráðh. svör við spurningunum, telja upp hvað gera þurfi til að gera þessar verksmiðjur að mannlegri vinnustöðum. Þar segir að slíkum umbótum mundi fylgja aukin nýting og betri framleiðsla. Það er því ekki verið að gera það fyrir fólkið eitt eða mennina eina að bæta þessa vinnustaði sem slíka, heldur mundu þeim breytingum fylgja aukin nýting og betri framleiðsla. Þetta er athyglisvert, einmitt um það leyti sem hávær gagnrýni hefur verið um að nýting í mörgum þessara verksmiðja sé ófullnægjandi.

Miðað við fjölda þessara fyrirtækja og þýðingu þeirra í íslensku atvinnulífi finnst mér satt að segja hrollvekjandi, að af 47 verksmiðjum, sem eru á skrá, skuli aðeins 16 hafa fullt leyfi — aðeins 16. 20 hafa fengið það sem kallað er skilyrt leyfi, þ.e.a.s. þeim er gert að uppfylla einhver lágmarksskilyrði til að geta fengið leyfi, og 11 eru einhvers staðar á leiðinni, þ.e.a.s. hafa fengið skilyrt leyfi, en ekki uppfyllt skilyrðin. Þetta er ástand, sem við getum ekki við unað, og við verðum að snúa okkur að því að hreyta því. Síðustu orð hæstv. ráðh. stuðla að því, að nú sé rétti tíminn til að taka þetta mál alvarlegum tökum og krefjast þess af verksmiðjunum, að þær geri betur á þessu sviði, en þessi síðustu orð ráðh. voru á þá lund, að afkoma verksmiðjanna hefði nú undanfarið stórbatnað og væru því margar þeirra að undirbúa að verða við þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.

Ég ítreka, að ég tel að vinnuskilyrðin í þessari iðngrein allri með 47 verksmiðjum séu fyrir neðan allar hellur og að íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og þar á meðal Alþ. sjálfu beri að taka þetta verkefni fram fyrir mörg önnur og reyna að tryggja því fólki, sem vinnur þessa arðvænlegu og nauðsynlegu vinnu, betra starfsumhverfi en það hefur haft hingað til.