07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

336. mál, framkvæmdir á Hrafnseyri til minningar um Jón Sigurðsson

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans og það jákvæða viðhorf sem fram kom í ummælum ráðh.

Ég sagði áðan að 1944 hefðu verið uppi hugmyndir um ýmsar framkvæmdir á Hrafnseyri og síðan hefði ýmislegt breyst og E.t.v. breyst forsendur fyrir sumu sem hugsað var þá, en minna orðið úr öðru. Ég lýsi ánægju minni yfir þeim upplýsingum sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh„ að Hrafnseyrarnefnd hugsar nú að gera sérstakt átak til þess m.a. að fullgera byggingu þá, sem nú er á Hrafnseyri, og efla staðinn í sambandi við hundruðustu ártíð Jóns Sigurðssonar.

En ég vil ekki láta við þetta tækifæri hjá líða að benda aðeins á eitt atriði sem var ofarlega í hugum manna 1954, við lýðveldisstofnunina. Það var að koma upp á Hrafnseyri minjasafni um Jón Sigurðsson. Það er varla hægt að segja að nokkuð hafi verið gert í því efni nema þá svo lítið að varla er orð á gerandi. Ég tel að það væri sérstök ástæða að leggja áherslu einmitt á þennan þátt núna. Og þá hef ég í huga það myndarlega átak sem hefur verið gert í sambandi við hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn og Alþ. stendur að. Þar hefur verið komið upp mjög myndarlegu minjasafni um Jón Sigurðsson, þar sem eru ýmis frumgögn varðandi starf hans og ævi, ljósrit af mörgu, húsmunir og annað sem tengt er Jóni Sigurðssyni.

Það fer ákaflega vel á því og enginn ágreiningur um það, að það sé svo búið að þessu máli í húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn. En ég held að við ættum að láta verða meira úr hugmyndum manna um að koma upp slíku minjasafni á Hrafnseyri. Svo vel sem þetta á við í Kaupmannahöfn, þá getur ekki orkað tvímælis að það á ekki síður við á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, á Hrafnseyri. Við getum haft í þessu efni til fyrirmyndar aðstoð Lúðvíks Kristjánssonar, hins ágæta fræðimanns, sem var driffjöðrin í að byggja upp þetta safn í Kaupmannahöfn. Við getum notið slíkra starfskrafta og fleiri til þess að byggja upp slíkt safn á Hrafnseyri, og það kemur að mínu viti mjög til greina. Ég tel að það eigi að athuga hvort ekki sé ráð að flytja ýmsa muni, sem eru til úr búi Jóns Sigurðssonar og m.a. eru nú í Þjóðminjasafninu, til Hrafnseyrar til þess að gera þetta safn sem best úr garði. Ég hygg að það gæti orðið mjög til sóma, ef það yrði gert með reisn og því látleysi sem hæfir minningu Jóns Sigurðssonar.