07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ýmsir hafa látið til sín heyra í umr. um þessa þáltill., sem hér er á dagskrá. En það hefur farið sem fyrr, að umr. hafa ekki nema að litlu leyti snúist um efni till., heldur um hvort hafa skuli beinar og almennar prestskosningar, eins og nú er, eða hvort afnema skuli þær.

Till. sjálf kveður ekkert á um það, hvaða aðferð skuli viðhöfð við prestskosningar. Hún fjallar einungis um að borið sé undir þjóðina hvort almennar beinar prestskosningar skuli viðhafðar, svo sem nú tíðkast, eða ekki. Till. sjálf er algjörlega hlutlaus um þetta efni. En svo beitt verður mönnum í hamsi þegar prestskosningar ber á góma, að menn sjást ekki fyrir í þessum efnum. Menn geta ekki einu sinni lesið grg. með þáltill. þessari án þess að hlaupa í gönur. Hlutlaus frásögn af staðreyndum er þá ýmist túlkuð sem lævís áróður fyrir afnámi prestskosninga eða fyrir því að viðhalda þeim.

Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, er ákafur fylgjandi beinna og almennra prestskosninga. Hann telur það vera lýðréttindi. Hins vegar telur hann það brot á lýðréttindum ef borið er undir þjóðina í þjóðaratkvæði hvort hún vill halda lýðréttindum. Hv. þm. gaf enga skýringu á þessari afstöðu sinni. Hins vegar þótti honum öruggara að taka fram, að þessi afstaða hans beindist á engan hátt gegn þjóðkirkjunni, enda væri þjóðkirkjan íslenska að sínum dómi fyrirmyndar trúarstofnun þegar hún væri borin saman við aðrar trúarstofnanir, hvað svo sem það á nú að þýða.

Þá var hv. þm. mikið niðri fyrir þegar hann las upp úr grg. með þáltill. að af hálfu þjóðkirkjunnar hefðu verið færð þau rök fyrir nýrri skipan um veitingu prestakalla, að prestskosningar í núverandi mynd reyndust einatt illkynja þolraun fyrir söfnuðina og það geri prestum óeðlilega erfitt um að færa sig til á starfssviði sínu. Þessi orð eru í grg. innan gæsalappa og er vitnað með því til ummæla í grg. fyrir frv. Kirkjuþings um afnám beinna og almennra prestskosninga. Þm. telur þessar skoðanir ekki á rökum reistar, enda hafi hann hvergi á Vesturlandi heyrt nokkurn mann kveinka sér undan því að taka þátt í prestskosningum. Þm. andmælir því næst rökum Kirkjuþings. Eftir slíkum leiðum talar hv. þm. sig upp í að vera á móti þeirri till. sem hér liggur fyrir.

En ekki tekur betra við þar sem er hv. 2. þm. Vesturl., Guðjón Þórðarson. Hann er ekki einungis talsmaður fyrir afnámi prestskosninga og fylgjandi Kirkjuþingi heldur gerir hann flutningsmönnum þessarar till. upp sakir fyrir að vera valdir að því, að áform Kirkjuþings hafi ekki náð fram að ganga. Sagði hann, að við flm. hefðum komið laglega upp nm okkur í grg. með till. og rakti í því sambandi frásögn grg. og meðferð Alþ. á frv. Kirkjuþings um afnám prestskosninga frá árinu 1962 til 1974. Klykkti þm. síðan út með því að segja, að það væri ekki að furða að við flm. værum allstoltir yfir þessari meðferð mála.

Þetta las þm. út úr algjörlega hlutlausri og áreitnislausri frásögn af staðreyndum. Slík eru rökin fyrir því að vera á móti till. þessari. Ekki þurfa menn nú að afsala sér allri dómgreind, þó að þeir vilji afsala sér réttinum til þess að velja sér sálusorgara.

En víkjum þá að þjóðaratkvæðinu. Af aumum ræðumönnum hafa verið bornar brigður á að það sé eðlileg málsmeðferð eða þörf sé á að hafa þjóðaratkvæði um þetta, þ.e. hvort afnema skuli beinar og almennar prestskosningar eða ekki. Hér er spurningin um það, hvort þörf sé að leysa mál sem er til úrlausnar og hefur ekki tekist að finna lausn á. Allir eru sammála um að málið skuli leyst. En sumir segja að það megi ekki gera með því að láta þjóðaratkvgr. fara fram, Alþ. eigi sjálft að leysa málið án þess að gripið sé til þeirra ráða. En það er einmitt þetta sem Alþ. hefur ekki tekist að gera. Menn geta deilt um hvers vegna það er, en þetta er staðreynd.

Allan þann tíma, sem Kirkjuþing hefur verið að berjast fyrir afnámi prestskosninga, hefur ekki verið meiri hluti á Alþ. fyrir þeirri lausn. Hvers vegna hefur Alþ. þá ekki fellt frv.? Svo má spyrja. Kannske er hér um einhverja tillitssemi að ræða. Í 62. gr. stjórnarskrárinnar segir, að hin evangelíska- lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Ekkert er því óeðlilegt að Alþ. fari með gát þegar upp kemur ágreiningur við þjóðkirkjuna. Verður ekki annað sagt en Alþ. hafi gert það í þessu máli. En það er ekki þar með sagt að Alþ. hafi ekki sýnt vilja sinn í málinu. Það er hægt að gera það með öðru móti en að samþykkja eða fella frv. sem fram hefur verið lagt. Það var gert í þessu tilfelli árið 1974 með því að vísa frv. Kirkjuráðs til ríkisstj. með rökstuðningi á móti afnámi beinna og almennra prestskosninga. Þetta var m.a. byggt á upplýsingum sem Alþ. hafði aflað sér og sýndu, að ekki var jafnmikil eining í röðum kirkjunnar manna fyrir afnámi prestskosninga og af hafði verið látið, og raunar var þar líka um sterka andstöðu að ræða.

En þegar hér var komið heyrðist hljóð úr horni. Biskupinn yfir Íslandi sendi Alþ. kveðju sína út af þessum málum. Það verður ekki komist hjá því að víkja að viðbrögðum biskups, eftir að hv. 4. þm. Vesturl., séra Ingiberg J. Hannesson, hefur hafið þann leik í þessum umr. Í þessum umr. hefur þessi hv. þm. teflt fram á ósmekklegan hátt gegn þessari þáltill. ummælum biskups í setningarræðu á prestastefnu 1977, þar sem till. þessi er sögð í óvirðingarskyni „einstakt frægðardæmi í sögu vestræns þingræðis“. Minna mátti ekki gagn gera.

En þessi ummæli biskups draga athyglina að viðbrögðum hans eftir afgreiðslu Alþingis árið 1974 á frv. Kirkjuþings um afnám prestskosninga. Í ræðu að upphafi prestastefnu 1974 veitist biskup að Alþ. með ofsa og yfirlæti fyrir meðferð málsins. Hann sagði m.a. að flestir, sem leitað var til við könnun á afstöðu til málsins, hafi ekki virt Alþ. svars, menn hafi litið á þessi umsvif Alþ. eins og hverja aðra marklausa tilburði. Þannig var orðbragðið. Sem dæmi um rökvísi og málfar vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa eftirfarandi:

„En spyrja má: Hví setti Alþ. sjálft ýmsar nefndir og ráð sem hafa talsverð áhrif og völd? Ég nefni aðeins útvarpsráð. Slíkar nefndir og ráð, hverra tala er legio, hafa stórum meiri völd á þjóðfélaginu en sóknarnefndir mundu fá með því að eiga þá íhlutun um val presta sem frv. Kirkjuþings gerir ráð fyrir. Hverjir hafa verið spurðir þegar Alþ. hefur hrifsað í greipar pólitísku flokkanna völd og áhrif af þessu tagi. Það er tómahljóð í orðum vorra háttvirtu löggjafa þegar þeir tala um lýðréttindi í þessu sambandi. Til þess að það tal væri sannfærandi þyrfti Alþ. endranær að hlusta á almenning betur. Hv. alþm. mættu þá t.d. gæta sín gjör þegar þeir skammta sjálfum sér, flokkum sínum og blöðum sínum aðstöðu og fjárráð á almannakostnað. Ekki var leitað eftir áliti eins eða neins utan valdakerfisins þegar það var ákveðið, að tilteknir söfnuðir skyldu sviptir rétti til þess að geta búið prestum sínum sæmilega aðstöðu hvað húsnæði snertir, svo að eitthvað sé nefnt af mörgu og margvíslegu:

Næst kemur kafli sem heitir Kirkjan og stjórnmálin. Ég ætla ekki að lesa þann kafla upp, en þar er biskup af þessu tilefni að gera því skóna, að þjóðkirkja Íslands myndi sinn stjórnmálaflokk á Íslandi. Hann víkur svo nokkuð að reynslu slíkra flokka á Norðurlöndum og svo lýkur þessum kafla með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„En það getur orðið tímabær og óhjákvæmileg nauðsyn allt um það“ — þ.e.a.s. að stofna kristilegan flokk. „Kristilegu flokkarnir nýju berjast gegn pólitísku ofríki á menningarsviðinu gegn sjálfræði flokka og valdamanna. Þeir hamla gegn svefngöngu blaða og stjórnmálamanna í siðgæðisefnum, þar sem stefnt er til upplausnar fyrst og einræðis síðan, þegar svo verður komið, að öll alþýða er uppgefin á máttlausri síbylju atkvæðabiðla, uppgefin á agaleysi, upplausn, öryggisleysi, svo að henni þykir nær hver kostur skárri en það lýðræði, sem hefur étið sjálft sig upp inn að hjartarótum“.

Þetta er allt í tilefni af afgreiðslu Alþingis á frv. Kirkjuþings. Þetta, sem ég hef hér farið með, er tekið upp úr Kirkjuritinu. Biskup mun svo hafa hnykkt á ummælum sínum í viðtölum við fjölmiðla, eins og fram hefur komið í þessum umr. En ég skal nú ekki fjölyrða um þetta frekar. Þetta dæmir sig sjálft.

En það, sem eftir stendur eftir allt þetta fjaðrafok, eru nokkrar staðreyndir. Þær eru: 1) Biskup og Kirkjuþing vilja afnema beinar og almennar prestskosningar. 2) Biskup bregst ókvæða við, af því að Alþ. fellst ekki á þetta. 3) Biskup og Kirkjuþing fullyrða, að almennur vilji sé fyrir afnámi prestskosninga. 4) Biskup vill ekki að vilji almennings komi fram í þjóðaratkvgr. Hvers vegna? Það er von að spurt sé. Þetta er hinn óttalegi leyndardómur.

Undir þessum kringumstæðum hafa flm. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, talið rétt að hætt verði að deila um það, hvað almenningur vill um beinar og almennar prestskosningar. Í stað þess sé þetta borið undir almenning sjálfan, og ættu allir að geta sætt sig við þá málsmeðferð. Þeim, sem eru á móti beinum og almennum prestskosningum, er varla ætlandi að vilja koma vilja sínum fram án þess að fyrir liggi ótvíræður vilji fólksins í þessa átt. Ég segi: ég álít að þeim sé ekki það ætlandi. Þeir, sem vilja halda beinum og almennum prestskosningum, er stuðningur að því, ef í ljós kemur ótvíræður vilji fólks um að viðhalda þessari skipan. Allir eiga því að geta sameinast um að farin verði sú leið sem þáltill. þessi leggur til, þ.e.a.s. að fram fari þjóðaratkvgr. til að fá vilja þjóðarinnar fram í þessu efni.