25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur flutt hér inn í þingsali „fyrir tilmæli fólks þar vestra,“ eins og hann orðar það, fsp. um hvaða starfsemi sé fyrirhuguð í húsakynnum húsmæðraskólans fyrrverandi á Staðarfelli. Ég vil fyrst gera aths. við þetta orð: fyrrverandi. Ég veit ekki hvort það er að öllu leyti rökrétt, Þessi skóli hefur starfað síðan 1927, oftast nær með ágætum, og verið hin síðustu ár, eða a.m.k. í tíð frú Ingigerðar Guðjónsdóttur skólastjóra, einn af þrem best sóttu húsmæðraskólum landsins, að ég ætla. Að vísu hefur sókn til skólans fallið niður nú, en það hygg ég að sé ekki nema það sem almennt gildir um húsmæðraskóla. Tímarnir breytast og mennirnir með. Það er t.d. svo að sögn tónlistarkennarans við bændaskólann á Hvanneyri, Ólafs Guðmundssonar, að s.l. vetur var í fyrsta sinn í sögu Hvanneyrarskóla starfandi þar blandaður kór. Þar voru m.ö.o. ég held 17 skólameyjar, og nú eru þær víst enn fleiri. Þannig sveiflast tíðarandinn til og frá og er ekki um það að sakast. Hins vegar kann þetta líklega að eiga að nokkru leyti rætur sínar að rekja til þess, að húsmóðurstarfið hefur ekki verið mjög hátt skrifað, hvorki hjá alþm. né öðrum, á síðari árum. En við skulum vona að á þessu máli finnist almenn lausn, því að vitaskuld getur það ekki gengið að láta hin ágætustu húsakynni standa ónotuð lengi þarna á þessum gamla og góða skólastað. Ég fagna þeirri hugmynd sem fram hefur komið um að nýta þessi húsakynni eins og hæstv. menntmrh. hefur lýst, en ég skrifa þó ekki undir það alveg strax að húsmæðraskólinn á Staðarfelli sé „fyrrverandi“ fyrir fullt og allt.