07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð hér út af aths., sumum allkyndugum, sem hafa fallið í rás þessarar umr.

Ég vil fyrst aðeins minnast á það sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði hér síðastur manna í ræðustól. Í rauninni sagði hann það sem ég taldi að væri meginatriði í máli mínu þegar ég tók hér til máls síðast, að við værum vanbúin að bera þetta mál undir þjóðaratkv. á meðan þjóðin vissi ekki um hvað væri að velja, ef horfið yrði frá núverandi skipan um beinar prestskosningar. Þetta tel ég merg málsins. Það er alrangt, eins og ýmislegt fleira sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf., að ég vildi alfarið neita um þjóðaratkvgr., það er alrangt. En þennan fyrirvara hafði ég á, að við værum að greiða atkv. nokkuð út í bláinn, ef ekki væri skýrt hvað ætti að koma í staðinn, ef prestskosningar með því sniði, sem við höfum nú, yrðu afnumdar. Því taldi ég að það væri eðlilegt, að beðið væri tillagna frá þeirri n., sem nú vinnur að athugun á þessu máli, og hún ásamt öðrum kirkjunnar mönnum, sem þetta varðar mest, gerði ákveðnar till, sem hægt væri að henda reiður á.

Að því er varðar málflutning hv. 5, þm. Vestf., sem lætur nú öðrum þm. betur að teygja lopann hér á hinu háa Alþ., þá vil ég segja honum það út af kveinstöfum hans um að honum hefði komið á óvart afstaða mín til þessa máls, — ég get aðeins sagt það, að þó að fari vel á með okkur í flestum málum, svo sem vera ber um góða samþm., þá tel ég að ég hafi ekki enn gert hv. 5. þm. Vestf. að sérstökum trúnaðarmanni mínum, þannig að hann eigi sérstaka heimtingu á því að ég láti hann fyrir fram vita um afstöðu mína til mála hér á Alþ. áður en þau koma til umr. Mér finnst hann nokkuð kröfuharður í minn garð, þessi ágæti kollegi minn. En ég þarf ekki að rekja nánar hans mál, því að það var nánast allt það sama sem hann sagði í síðustu ræðu og ég gerði því nokkur skil um daginn, þegar þetta mál var til umr.

Annar ágætur þm., hv. 3. þm. Austurl., sveitungi minn Sverrir Hermannsson, gerði smákúnstugar aths., einnig nokkuð til hliðar við alvöru þess máls sem hér er til umfjöllunar. Hann vék m.a. að því, að afstaða afa míns sáluga, Vigurklerks, mundi ekki í beinu samræmi við skoðanir mínar nú í dag. Ég hygg að hann sé engu fremur en ég umkominn að fullyrða hverjar skoðanir hans hefðu verið á þessu máli. Framsfl. var ekki til þá, svo að hann hafði enga möguleika á því að óttast þá hættu. Og ég segi nú fyrir mitt leyti, að ég tel framsóknarmenn ekki verr kristna en annað fólk og kannske fullt eins vel kristna og okkur í flokki okkar Sverris. Og svo er annað, að ég veit ekki hvaða bölsýni það er í hv. þm., að hann telur að í embætti dóms- og kirkjumálarh. mundi verða framsóknarmenn um aldur og ævi, þannig að það yrðu tómir framsóknarmenn í embættum klerka. Þetta er óþarfakvíði í hv. þm. En að því er varðaði afa gamla í Vigur, þá get ég fullvissað hv. 3. þm. Austurl. um það, að þau undanbrögð, sem hafa verið höfð við í þessu máli hér í Alþ., hefðu verið gamla manninum lítt að skapi. Svo mikið þekki ég til hans.

En það var þetta um pólitíkina, svo að ég víki aðeins nánar að því. Heldur hv. 3. þm. Austurl. virkilega að prestskosningar í núverandi mynd hafi verið alveg lausar við alla pólitík? Ég held, að hann tali gegn betri vitund ef hann heldur því fram. Sannleikurinn er sá, að það má alls staðar koma pólitíkinni inn og illu heilli kemur hún allt of oft inn, flokkspólitík, þar sem hún á ekki heima. En hitt held ég að ég megi fara með satt og rétt, að yfirleitt hafa íslenskir prestar gætt hófs í pólitík í sínu sálusorgarastarfi, enda er það nauðsynlegt og skylt. En jafnvel þegar klerkar voru mjög fjölmennir hér á Alþingi, þá held ég að þeir hafi engu síður sorgað fyrir sálum sóknarbarna sinna, þó að þeir stæðu fyrir sínum pólitísku skoðunum hér á Alþ. Þeir létu það niður falla þegar heim kom í sókn þeirra og söfnuð.

Svo ég víki aðeins aftur að prestskosningum eða ekki prestskosningum, um það snýst umr., þá er mikið talað um lýðræði og áhuga almennings. Mér hefur ekki virst að áhugi almennings væri alltaf sérstaklega mikill þegar til prestskosninga kemur. Hve oft heyrum við ekki þær fréttir frá biskupsskrifstofu að prestskosningum loknum, að kosningin hafi verið ólögmæt vegna ónógrar þátttöku. Sýnir þessi staðreynd varla jafnmiklun og óskiptan áhuga almennings á þessum málum og margir hér vilja vera láta.

Ég skal ekki lengja þessar umr. meir. Ég held að við ættum að takmarka mál okkar, okkar löngu ræður um þetta, en reyna nú að afgreiða þetta mál frá þingi með eðlilegum hætti. Ég fyrir mitt leyti, — og nú vona ég að hv. 5. þm. Vestf. geti fótað sig á málflutningi mínum þó honum veitist það erfitt stundum, — hafi ég liggjandi fyrir framan okkur till. þar sem hv. kjósendum í vor yrði gert kleift að velja um til hliðar við prestskosningarnar, þá skal ekki standa á mér að samþ. þessa till. En vissu um það verð ég að hafa, áður en ég get samþ. þessa till., að einhverjar slíkar fastmótaðar till. í meginatriðum liggi fyrir.