07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Þessar umr. eru orðnar alllangdrægar. En ég er ekki að finna að því, síður en svo. Mér finnst eðlilegt að það sé mikið rætt um þetta mál. Og það er ekkert óeðlilegt, þó að till. þessi fjalli ekki um það, hvern hátt skuli hafa á prestskosningum, að þá verði umr, um það efni í sambandi við þessa þáltill.

Ég skal hafa þessi orð fá og reyna að tala alveg áreitnislaust í þessu máli. Ég fann mig knúinn til þess aðeins að víkja að einstökum atriðum til skýringar.

Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, ræddi nokkuð um misskilning sem væri á milli okkar. Ég held að málum sé nú svo komið, að þar sé ekki um neinn misskilning að ræða. En auðvitað finnst mér það misskilningur hjá honum, miðað við hans málflutning, ef hann greiðir ekki atkv. með þessari till.

En hv. þm. sagði að það væri lítið tilefni til þess að hafa þjóðaratkvgr. um þetta atriði. Mér finnst nú að það sé alltaf augljósara og augljósara, að það er fullkomið tilefni til þess að hafa þjóðaratkvgr. einmitt um það, sem þáltill. gerir ráð fyrir. Og ég vil minna á að það er eitt ákvæði í stjórnarskránni, sem gert er ráð fyrir þjóðaratkvgr. um, og það er ef kirkjuskipunin er breytt. Þá er gert ráð fyrir þjóðaratkvgr. Við flm. höfum tekið það fram í grg. með þessari till., að við viljum ekki heimfæra þetta mál, sem hér um ræðir, prestskosningarnar, beint undir þetta stjórnarskrárákvæði. En hins vegar er enginn vafi á því, að það er mjög í samræmi við anda stjórnarskrárinnar og þetta stjórnarskrárákvæði að hafa þjóðaratkvæði um það, með hverjum hætti prestskosningar skuli fara fram.

Hv. 4. þm. Vesturl., Ingiberg J. Hannesson, fann að því, að ég hefði sagt að það hefði verið ósmekklegt hjá honum að lesa hér upp ummæli biskups um einstakt frægðardæmi í vestrænni lýðræðissögu, sem var til háðungar um okkur flm. þessarar till. Við höfum mismunandi skoðanir á þessu og hv. þm. getur haft sínar skoðanir óáreittur af mér, en þetta var mín skoðun.

Þessi hv. þm. hefur miklar áhyggjur út af þessum 8% þjóðarinnar sem ekki eru í þjóðkirkjunni. Hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, hefur nú tekið af mér ómakið að svara í því efni. Þegar við vorum að orða þessa till., þá kom auðvitað upp sú hugsun, hvort vera ættu í till. bein ákvæði um það, að atkv. skyldu aðeins greiða þeir sem væru meðlimir þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan varð að taka ekki svo til orða, heldur aðeins að tala um þjóðaratkvgr., eins og stjórnarskráin talar um þjóðaratkvgr. varðandi kirkjuleg mál án þess að takmarka bað við þá sem eru í þjóðkirkjunni, Hver sem framkvæmdin verður á þessu, þá held ég að þetta sé ekki neitt höfuðatriði í þessu máli. Við hljótum með góðum vilja að komast fram hjá öllum erfiðleikum í sambandi við þetta atriði.

Ég vil svo aðeins víkja að því, að það hefur komið fram hjá nokkrum þm. og m.a. hv. 5. hm. Vestf., Karvel Pálmasyni, 6. þm. Suðurl., Steinþóri Gestssyni, 9. landsk. þm., Sigurlaugu Bjarnadóttur, og rannar fleirum, að það séu nokkrir vankantar á þessari leið, að fara í þjóðaratkvgr., vegna þess að það séu ekki nógu skýrir valkostir og ef þjóðin hafni prestskosningum, beinum og almennum, þá sé spurningin, hvað hún sé að kjósa þá á sig í staðinn.

Það er ekkert óeðlilegt að hv. þm. veki athygli á þessu atriði. Þetta er náttúrlega grundvallaratriði í sambandi við þjóðaratkvgr., hvernig á að orða spurninguna, sem lögð er fyrir þjóðina. og hversu raunhæf hún er. En ég held að í öllum þessum ummælum þeirra þm., sem ég nefndi, og þeirra fleiri, sem um þetta hafa talað, sé fólginn nokkur misskilningur. Það, hvort kosning er bein og almenn, er grundvallaratriði, og það er grundvallaratriði í þeirri merkingu, að annaðhvort er kosning bein og almenn eða hún er ekki bein og almenn. Það er ekkert þarna á milli. Ef kosning er bein og almenn, þá er ekki þar með sagt, að það sé alveg ákveðið fyrir fram, hvernig lög um prestskosningar eigi að vera. Þau geta verið með ýmsu móti. En þau verða öll að byggjast á því meginatriði, að hvernig svo sem þessu er hagað, þá verður kosningin alltaf að vera bein og almenn. Ef kosningin er ekki bein og almenn, þá geta verið margs konar leiðir til að fara. Það er t.d. hægt að fara þá leið að skipa presta á sama veg og aðra embættismenn. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í sambandi við óbeinar, takmarkaðar kosningar, eins og t.d. Kirkjuþing er með, eða eitthvað annað.

Ég held að við getum ekki lagt fyrir þjóðina öll þau tilvik sem hér koma til greina, og þjóðaratkvgr. er þess eðlis, að við þurfum að leggja fyrir þjóðina það sem er höfuðatriði. Tökum sem dæmi þegar þjóðaratkvgr. fór fram um bannlögin 1933. Þá var þjóðin spurð að því. hvort hún vildi innflutning áfengra drykkja eða ekki eða brenndra drykkja. Það var einföld spurning. En þjóðin var ekki spurð að því í leiðinni, hvort hún væri samþykk ákvæðum í áfengislögum sem búið væri að semja. Það var líka óraunhæf leið, vegna þess að áfengislög, ef þau voru samin á annað borð, hlutu að fara eftir því, hvort um bann var að ræða eða ekki bann. Eins er það nú með endurskoðun laga nm prestskosningar. Það er grundvallaratriði, hvort kosningarnar eiga að vera beinar og almennar eða ekki. Því höfum við flm. talið að það væri ákaflega erfitt fyrir nokkurn aðila, fyrir nokkra nefnd, að ætla að endurskoða lögin um prestskosningar nema sé búið að gera út um þetta atriði: Eiga kosningarnar að vera beinar og almennar eða óbeinar og takmarkaðar? Það er fyrsta spurningin. Og það er þessi spurning sem á að leggja fyrir þjóðina.

Ég skal, eins og ég sagði, láta þessi fáu orð vera áreitnislaus af minni hálfu. Það hefur verið ákaflega mikið talað um gildi prestskosninga. Inn í það tal hafa komið hugmyndir manna um það, hvers eðlis prestsstarfið væri. Og menn hefur greint á um það og það er sjálfsagt ekkert nýtt. Sumir leggja áherslu á að prestsembætti sé hliðstætt öðrum embættum í því sambandi sem við erum núna að ræða um, varðandi ráðningu í þessi embætti. Aðrir hafa haldið því fram, að prestsembætti væri allt annað, vegna þess að þar væri um að ræða sálusorgarastarf. Og hvað er það í samanburði við embættismenn? Venjulegir embættismenn eru skipaðir í embætti, þeir eru samkv. lögum embættismenn þar til þeir hafa náð ákveðnum aldri, og síðan fara þeir á eftirlaun og þar með er það búið. En hvað er prestur? Sá maður, sem er prestur, er prestur að eilífu, segir Páll postuli. Það er þessi munur hér á. Og þess vegna skyldu menn ekki vera of vissir í sök sinni um það, að eðlilegt sé að sömu reglur gildi um presta í þessu efni og aðra embættismenn.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að þessi till, okkar fái skjóta meðferð í n. og við fáum fljótt að sjá hana hér aftur.