08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

166. mál, viðskiptabankar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja eina spurningu fyrir hæstv. dómsmrh. Hún er þessi: Hvers vegna, eftir allt það tal sem átt hefur sér stað um væntanlega gjaldeyrisafgreiðslu á vegum Búnaðarbanka Íslands, er ekki í þessum lögum gert ráð fyrir því, að allir ríkisviðskiptabankarnir hlíti nákvæmlega sömu lögum og hafi þá sömu skyldur og sömu réttindi á öllum sviðum? Ég held að ekkert fari á milli mála, að Búnaðarbanki Íslands hefur reynst mjög þörf og góð viðskiptastofnun, og miðað við afkomu bankans sé ég í raun og veru ekki nokkra ástæðu til þess að gera neinar breytingar á rekstri bankans. Rekstrarútkoma bankans sýnir það. Ef talið er nauðsynlegt að gera það þá tel ég rétt að allir ríkisviðskiptabankarnir hafi sömu réttindi og skyldur og hlíti sömu lögum.

Ég vil á sama hátt og hv. síðasti ræðumaður draga í efa, að rétt sé að hafa tvo ráðh, yfirmenn bankans. Væri þá ekki stigið fyrsta skrefið í þá átt að skilja Stofnlánadeild landbúnaðarins frá bankanum og þá frá stjórn bankans? Það getur vel verið að það sé rétt, en þó sé ég ekki ástæðu til þess, því ég held að þessi mál hafi verið í mjög góðum höndum. Þar sem málin ganga vel, þá er hættulegt að breyta bara breytinganna vegna.

Ég held að við getum öll verið sammála um það, að rekstur Búnaðarbankans, eins og hann hefur verið, kallar ekki á neinar sérstakar breytingar. Því vil ég koma að 9. gr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Bankaráð hefur yfirumsjón með málefnum ríkisviðskiptabanka í samræmi við lög og reglugerðir. Bankaráð hefur einnig með höndum almennt eftirlit með bankarekstrinum.

Bankaráði er heimilt“ — að vísu bara heimilt — ,.að ráða sér starfsmann, er ekki hafi með höndum önnur störf í þágu bankans. Starfsmaður þessi hafi aðstöðu til að fylgjast með starfsemi bankans eftir nánari ákvörðun bankaráðs.“

Hér er um að ræða að setja einhvers konar njósnara sem tengilið á milli bankaráðs og bankastjóranna, bankastjórnar, sem sagt trúnaðarmann bankaráðs til þess að fylgjast með störfum trúnaðarmanna bankaráðs, bankastjóranna, þeirra sem reka bankann. Alþingi er ætlað að samþykkja einhvern leynilögreglumann þar á milli. Það eru tengsl milli bankaráðs og bankastjórnar samkv. 11, gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Bankaráð ræður, að fengnum till. bankastjórnar, aðstoðarbankastjóra og útibússtjóra og segir þeim upp starfi. Bankaráð ræður forstöðumann endurskoðunardeildar bankans og segir honum upp starfi.“

Þessi forstöðumaður endurskoðunardeildar bankans hlýtur að vera tengiliðurinn á milli bankaráðs og bankastjórnar og alveg óþarfi að ráða sérstakan mann til þess að vera einhvers konar njósnari þarna á milli. Ég held að bankastjórarnir eigi ekki skilið að þeim sé sýnd þessi vanvirða eða vantraust.

Ég ætla ekki að ræða þetta frv. frekar á þessu stigi. En Búnaðarbankinn hefur verið góð alhliða lánastofnun sem hefur starfað vel og árangurinn blasir við alþjóð.

Varðandi útibú bankanna hér og þar um landið, hvort þau eru umboðsdeildir, sem hv. 7. landsk. þm. kallaði útibú áðan, sem einn maður í herbergi einhvers staðar starfar í skiptir ekki máli.

Ég held að það sé alveg augljóst, að eins og seðlaveltan hefur aukist undanfarið og þar með peningar manna á meðal um land allt, þó verðlitlir eða verðlausir séu, þá kalli það á þjónustustofnanir sem víðast til þess að bankakerfið nái þessu fé inn til áframhaldandi veltu, í staðinn fyrir að það sé annaðhvort niðurgrafið í jörðu, eins og var á sínum tíma í Frakklandi og annars staðar þar sem fólk missir traust á peningastofnunum, eða menn geymi það jafnvel undir kodda. Það er betra að ná fénu inn í peningakerfið aftur, jafnvel þó að það kosti fleiri þjónustustöðvar.

Ég held líka að vafasamt sé hvort 6. gr. er réttlætanleg, að það verði tvískipt yfirstjórn Búnaðarbankans, að tveir ráðh. fari með málefni Búnaðarbankans, annar með bankastarfsemina sjálfa og hinn með Stofnlánadeildina. Ég held að það sé röng stefna, nema Stofnlánadeildin verði alveg tekin út úr starfsemi bankans, en þá finnst mér sjálfsagt að bankinn sem slíkur heyri undir bankamálaráðh. og er sammála því sem kom fram áðan, að það ætti ekki að vera nema einn bankamálaráðh. Stofnlánadeildin er deild innan bankans, rétt eins og sparisjóðsdeildin og aðrar deildir, og ég tel rangt að skipa deildum sama banka undir fleiri en einn ráðh.

Ég vil endurtaka þá fsp. sem ég bar fram til hæstv. bankamálaráðh.: Er ekki rétt að þetta frv. taki af öll tvímæli um það, að allir ríkisviðskiptabankarnir hafi sömu skyldum að gegna við landsmenn, hvort sem er í gjaldeyrismálum eða í öðrum málum?