08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

166. mál, viðskiptabankar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu, að hv. 12. þm. Reykv. tekur svo mjög mark á orðum mínum, þó þeim sé hvíslað til hans aðeins í gamni. Ég vona að eftir fylgi að hann taki þá mark á þeim orðum, sem ég segi í ræðustól, enda væri það ekki fjarri lagi eftir yfirlýsingu hans áðan stundarhátt, þar sem boðað var á þingflokksfund Sjálfstfl., en hann bað um að hann yrði strikaður út af þeim lista.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um fylgi við sameiningarhugmyndir og frekari hagræðingu í bankakerfinu. Það koma tímar og koma ráð til að koma því fram, þó ekki sé kannske í alla staði eins sterkt og er í því frv. sem nú liggur fyrir Nd.

Ég vildi aðeins taka fram út af þeim umr. sem hafa orðið um gjaldeyrisréttindi handa Búnaðarbankanum, að það er rétt, að Búnaðarbankinn hefur farið fram á þessi réttindi, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. Skoðun bankaráðs Búnaðarbankans á þessu gjaldeyrisleyfi er sú, að það mál sé á svo góðri leið, að tæpast muni verða óskað eftir því af bankaráðinu að það ákvæði verði sett inn í þessi lög, bankaráðið telji að seðlabankalögin nægi þar algerlega.

Það hefur verið mjög um starfsmannafjölda rætt og ofhlæði í þeim efnum. Ég hef því miður ekki tölur um það í hinum einstöku bönkum, en þó er alveg Ljóst af þeim tölum sem ég hef heyrt, að bankarnir eru með mjög misjafnan fjölda starfsmanna án tengsla við umsvif. Ég þori að fullyrða t.d., að Búnaðarbankinn sem ég er kunnugastur, virðist vera mjög vel rekinn hvað þetta snertir. Starfsmannafjöldi hans miðað við umsvif er tiltölulega hagstæður samanborið við aðra banka. En þarna kunna að koma inn í önnur atriði að sjálfsögðu.

Varðandi 9. gr., sem líka hefur komið hér til umr., 2, mgr. hennar, þá fagna ég því ákvæði sem þar er, hvort sem við köllum þetta njósnir, þefvísi eða eitthvað annað. Ég geri mér það ljóst sem bankaráðsmaður að ég fylgist of lítið með þeim banka sem ég á þó að hafa eftirlit með. Ég hef ekki tök á því. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég hef aðgang að hverjum aðila þar, en það er ekki það sama og er ekki nóg þó að ég hafi aðgang að deildum þar og geti talað við deildarstjóra og spurt þá í þaula. Það er ekkert leyndarmál, held ég, að Búnaðarbankinn eða bankaráð Búnaðarbankans hefur haft það í huga og meira að segja gert um það samþykkt að ráða sér slíkan starfsmann, ekki neinn njósnara eða þefara eða neitt því um líkt, heldur starfsmann, sem bankaráðið gæti leitað til, starfaði m.a. að sérstakri endurskoðun, Það er því full ástæða fyrir mig sem bankaráðsmann í Búnaðarbankanum og aðstandanda að þessari samþykkt að fagna einmitt þessu ákvæði.