25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Örfá orð aðeins, herra forseti. Það er rétt að taka fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að það hefur engin ákvörðun verið tekin um það með eða móti, hvort fjárveiting til þessa fyrirhugaða rekstrar á Staðarfelli komi inn í fjárl. núna. Það var bara ekki tekið upp í fjárlagafrv., en bíður meðferðar Alþingis. Þess er kannske ekki að vænta, að á miðju ári sé samþykkt af hálfu fjárveitingavaldsins, þá fjmrn., að ráðast í fyrirtæki eins og þetta, því að þetta kostar nokkuð mikið. Þarna er um að tefla á ársgrundvelli milljónatugi, ég hef ekki áætlunina við höndina. Og þó ég harmi það út af fyrir sig, að ekki var í þetta ráðist þegar í haust, þá segi ég það ekki í ádeilutóni.

Ég vil minna á það vegna orða sem hér hafa fallið um húsmæðrafræðsluna, hún sé hvarvetna á undanhaldi, að þetta er rétt að hluta, hún hefur minnkað stórlega í gamla forminu. En aftur á móti hefur verið gífurlegur áhugi hjá nemendum og kennurum að nýta og framkvæma ákvæði námsskrár grunnskólanna um húsmæðrafræðsluna. Og ég vil vekja athygli á því, af því að hér er verið að ræða um einn húsmæðraskólann og nýtingu hans, að húsmæðraskólarnir hafa mjög komið til hjálpar með framkvæmd þessa ákvæðis grunnskólalaganna. En víða er ekki þannig um búið í grunnskólum, að aðstaða sé til þess að kenna heimilisfræði á sama hátt og hægt er í húsmæðraskólunum sem hafa alla aðstöðu sem til þarf. Á nokkuð mörgum stöðum á landinu hafa hrísmæðraskólarnir annast stutt námskeið fyrir unglinga á grunnskólastigi. Bæði þar, en einnig þar sem skólarnir hafa vegna aðstöðu getað sinnt þessu, hefur áhuginn verið mjög mikill. Og hann er í raun og veru jafn hjá piltum og stúlkum — fyrir þeirri tiltölulega takmörkuðu fræðslu sem þarna er að hafa, því takmörkuð er hún vitanlega í samanburði við heils vetrar nám í húsmæðraskóla.

En af því að hér er verið að ræða um aðgerðir vegna þroskaheftra, þá vil ég leyfa mér í lokin að vekja athygli á þeirri jákvæðu þróun sem mér virðist vera í þessum málum. Ég skal nefna ein 3–4 atriði.

Áhugafélögin eru að loka keðjunni. Þau eru í þann veginn að spanna yfir allt landið og þeirra hlutur og forusta hefur verið gífurlega mikil á þessu sviði.

Grunnskólalög hafa verið sett, eins og síðasti hv. þm., sem talaði hér, minnti á. Ákvæði þeirra um þessi efni eru þýðingarmikil. Reglugerð um sérkennslu hefur verið sett og sérkennslufulltrúi ráðinn, m.a. samkv. ályktun frá Alþ. um það efni. Auðvitað kemst þessi reglugerð ekki til framkvæmda öll í einu, því að grunnskólalöggjöfin sjálf gerði ráð fyrir 10 ára aðlögunartíma.

Það hefur ákaflega mikið þokast í menntunarmálum kennara að þessu leyti. Kennarar hafa sýnt gífurlegan áhuga fyrir að sækja einmitt sérkennslunám í kennaraorlofum sínum. Og frjáls samtök, eins og Thorvaldsensfélagið, eins og Svölurnar o.fl., o.fl., hafa lagt fram gífurlega miklar fjárhæðir til stuðnings fólki sem vill nema sérkennslufræði.

Styrktarsjóður vangefinna hefur verið endurreistur á mjög myndarlegan hátt. Byggingarfjárveitingar til stofnana þroskaheftra voru auknar stórlega síðast. 45 millj. kr. fjárveiting er á fjárl. 1977, og er gert ráð fyrir tveimur verkefnum í ár. Og í fjárlagafrv. núna er þessi fjárhæð hækkuð um 15 millj., og vonast er til að unnt verði að byrja á þriðja verkefninu á næsta ári. Og varðandi fjárveitingar til rekstrar er einnig nokkuð myndarlega á þeim málum tekið. Það voru um 160 millj. á fjárl. í fyrra, 305 millj. í frv. núna. Það var vanáætlað í fyrra og hefur verið bætt við með umframfjárveitingum, svo að munurinn er ekki eins og þessar tölur gefa til kynna, en um miklar hækkanir er að ræða. En þó álít ég og við í menntmrn. að þetta sé of lágt áætlað, og m.a. vantar inn í þessa tölu, eins og þegar hefur komið fram, fjármagn til þess að hefja reksturinn á Staðarfelli.

En þetta, sem ég nú hef greint, breytir auðvitað ekki því, að verkefni eru gífurleg fram undan. Menn eru alltaf að sjá meiri og meiri möguleika til að koma þeim þroskaheftu til hjálpar. Og ég er sannfærður um það, að ef þeim í fjármunum, sem í það fara, er skynsamlega varið, þá bókstaflega skila þeir sér aftur fjárhagslega líka.