08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

167. mál, Fiskimálaráð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég hygg að ráðh. geri rétt að beita sér fyrir því, að þessi lög verði felld úr gildi.

Ég skildi ekki orð hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar á þá lund, að hann væri á nokkurn hátt að hlakka yfir því, hversu til tókst um lög um Fiskimálaráð. Ég hygg að góðgjarnir menn hljóti að hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hugsunin, hin upprunalega hugsun á bak við hugmyndina um Fiskimálaráð, hafi verið góð. Og þess varð ég var á sínum tíma úti um land, þar sem menn gerðu sér kannske ekki grein fyrir annmörkunum sem lágu í ýmiss konar hagsmunatogstreitu, er siðar kom í ljós, að þar hafa menn bundið vonir við Fiskimálaráð, þær vonir að E.t.v. mætti auðnast að koma heildarskipulagi á ýmis þau mál sjávarútvegsins sem áður höfðu verið í fulllauslegum tengslum innbyrðis og þar sem árekstrar urðu af þeim sökum.

Því miður reyndist þetta svo sem bæði hv. þm. Jón Árm. Héðinsson og hæstv. ráðh. drápu á áðan, þetta heppnaðist ekki. Ég hygg að hæstv. ráðh. geri rétt í því að hlífa bæði höfðinu á sér og steininum við hörkusamkeppni í þessu máli, en vil síður en svo lá honum þá aðferð sem hann hefur núna, að bera fram þetta frv. um ógildingu laganna, né heldur hlakka yfir því, hversu til tókst um framkvæmd góðrar meiningar. Ég ítreka aðeins að ég styð frv.