08.02.1978
Neðri deild: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Austurl. varðandi ráðstafanir á gengishagnaði.

Það er auðvitað mjög erfitt að segja til um fyrir fram hver gengishagnaður verður. Það er talið að birgðir um síðustu áramót hafi numið um 19.2 milljörðum, en verðmæti ógreidds útflutnings á sama tíma um 6000 millj., eða samtals um 25.2 milljörðum kr. Við fyrri gengisbreytingar hefur það verið venja að undanþiggja nokkrar afurðir gjaldi í gengismunarsjóð, svo sem hvalafurðir, grásleppuhrogn, þorskalýsi, aðallega fóðurlýsi í dósum. Birgðir af þessu eru þó taldar mjög smávægilegar um þetta leyti árs og eru taldar geta verið liðlega 200 millj. kr. Þá munu vera um 250 millj, kr. í útflutningi á verkuðum saltfiski, sem sendur var til Zaire, eins og hæstv. forsrh. gat um í framsöguræðu sinni. Loks mun hafa verið afskipað allmiklu af saltsíld í janúarmánuði. Þegar tillit er tekið til þessa gæti gjald af birgðum og ógreiddum útflutningi numið um 23.3 millj. brúttó. En í þessu er afar stór upphæð skreið, sem er talin nema um 5 milljörðum, ef ég man rétt, og væri þá gengismunur liðlega 700 millj. kr., sem ég held að sé óráðlegt að reikna með gengishagnaði af eins og sakir standa og útlit er fyrir í sambandi við sölu á þessum afurðum. Bæði verður hér um mikla rýrnun að ræða og meiri eftir því sem lengur dregst að þessi vara seljist og fari úr landi og sömuleiðis þarf bæði að pakka hana, sem mikill kostnaður er við, og meira að segja þá, sem búið er að binda, verður að taka upp aftur vegna rýrnunar, sömuleiðis er mikill vaxtakostnaður, svo að ég fyrir mitt leyti hef verið mjög varkár í mati á þessu.

Það mun láta nærri að helmingur af þessum gengishagnaði, sem fæst, komi í freðfiskdeildina sem er eins og allir vita tóm. Saltfiskdeildin mun fá um það bil 370 millj., hygg ég að áætlað sé. Einnig er gert ráð fyrir að stofnuð verði ný deild við Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, saltsíldardeild, eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. forsrh., og er gert ráð fyrir að nálægt 180 millj. verði stofnfé þeirrar deildar. Lýsis- og mjöldeildin mun vafalaust verða með nálægt 250–260 millj. kr. Hins vegar er í þessu frv. um ráðstöfun gengishagnaðar, vegna þeirrar óvissu sem er ríkjandi og í meira lagi nú en jafnan áður vegna hinna miklu skreiðarbirgða, gengishagnaði skipt hlutfallslega þannig að af öllu því fé, sem inn kemur, að frádregnum kostnaði og greiðslu á skuld Verðjöfnunarsjóðs við ríkissjóð sem fram kemur í frv., fari 65% af gengishagnaðinum í Verðjöfnunarsjóðinn og 35% fari í þessar tvær aðrar greinar, annars vegar 43% af þessum 35% til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og 57% til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda, hvort tveggja eftir þeim reglum og skilyrðum sem ríkisstj. setur. Ég geri ráð fyrir samkv. því, sem fram kemur í 4. gr., að sett verði reglugerð um þetta atriði, sem vafalaust mun þá verða sett að tillögu sjútvrn., þá mun ég leggja eindregið til í sambandi við þessa skiptingu, að farið verði eftir mjög hliðstæðum reglum og gert var við gengisbreytinguna 1974 varðandi uppbætur til þeirra sem skulda Fiskveiðasjóði í erlendum gjaldeyri. Þá verður tekin upphæð erlendra skulda og síðan verður fundið út, hvaða prósenta eigi að koma, þannig að það fái enginn meira en annar. Þessi regla var ekki gagnrýnd síðast. Ég held m.ö.o. að allir hafi orðið ásáttir um hana.

Aftur í sambandi við hinn liðinn sem hv. 2. þm. Austurl. ræddi um, 43% af þessum 35% til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði er skoðun mín sú, að það eigi ekki að leggja fram þetta fjármagn sem styrki, heldur í formi lána og þá með mjög góðum kjörum. Það er líka skoðun mín, að þegar við tölum um hagræðingu, þá er um nokkur fyrirtæki þannig varið, að ef rekstrarstaða þeirra er slæm, en þau standa efnahagslega vel, þá eigi að beita bæði því, sem Byggðasjóður kemur til með að lána, og þessu fjármagni, sem kemur til viðbótar, á þann veg að gera þessi fyrirtæki rekstrarlega hæf, en ekki að beina þessu fjármagni til að auka afköst þessara fyrirtækja. Þetta held ég að eigi að vera höfuðatriðið í því sem gera þarf. Hins vegar er það einnig skoðun mín, að þegar hér kemur fjármagn til viðbótar við það sem Byggðasjóður kemur til með að lána, þá þurfi auðvitað að samræma vinnubrögðin og þá verði fulltrúar Byggðasjóðs, fulltrúi ríkisvalds og fulltrúar frá t.d. hagdeildum viðskiptabankanna og fulltrúi Seðlabankans að mynda þá reglu sem fara eigi eftir. Ég held að það séu skynsamlegustu vinnubrögðin. En á þessu stigi er ekki hægt að fara frekar út í þá sálma. En með þessari uppsetningu á ráðstöfun gengishagnaðar, hver sem endanleg upphæð verður, er honum öllum fyrir fram ráðstafað, vegna þess að hér er tekinn upp hlutfallslegur útreikningur.