08.02.1978
Neðri deild: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu,er upphafið að lokaskrefi á óheillavegi sem núv. ríkisstj. hefur fetað síðan hún tók við völdum. Þá þegar gerðum við í Samtökunum grein fyrir því áliti okkar, að ríkisstj. væri á rangri braut. Ekkert, sem síðar hefur skeð, hefur gefið hið minnsta tilefni til að endurskoða þá afstöðu, og málflutningur hér í dag og það sem eftir mun fara á næstu dögum sýnir að enn fetar þessi ríkisstj. sama óhappaferilinn.

Þetta frv., sem er fyrsti vottur hér á þingi um nýja gengisfellingu af hálfu ríkisstj., sýnir svo rækilega sem unnt er, að hún hefur ekki ráðið við verkefni sitt þrátt fyrir hið mikla þingfylgi sem hún getur státað af, stuðning tveggja stærstu flokka landsins og rúmlega 2/3 þingheims. Þetta frv. og það, sem á eftir mun fara, sýnir að ríkisstj. hefur haldið þannig á málum að hún, sem hóf feril sinn með gengislækkun, lýkur honum með sams konar ráðstöfunum. Þeim þrem og hálfu ári, sem þessi ríkisstj. hefur setið, hefur því í raun og veru verið sóað hvað varðar það að æðsta stjórn landsins hefjist handa og geri raunhæfar ráðstafanir í þeim aðkallandi vandamálum sem íslenskt þjóðfélag og íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir. Alls engar þær grundvallarbreytingar hafa verið gerðar, sem beini fjármálum og efnahagsmálum lands og þjóðar í heillavænlegri farveg. Ríkissjóður hefur verið rekinn með stórfelldum halla, einnig og ekki síður þann hluta af valdaferli ríkisstj. sem enginn dregur í efa að góðæri hafi ríki. Þannig hefur verið staðið að framkvæmdum af ríkisstj. hálfu, að erlent fjármagn hefur verið tekið að láni í óhóflegum mæli, með þeim afleiðingum að eftirspurnarþensla í þjóðfélaginu hefur valdið þar róti og ringulreið

með óhjákvæmilegum afleiðingum. Verðjöfnunarsjóður þýðingarmesta atvinnuvegarins, sjávarútvegsins, hefur verið notaður þannig, að í stað þess að jafna sveiflur, sem stafa af verðsveiflum og aflasveiflum í þessum atvinnuvegi, hefur hann þvert á móti verið notaður í miklum mæli sem styrktarsjóður og þannig magnað sveiflurnar. Óarðbær fjárfesting í stórum stíl hefur fengið að eiga sér stað, með þeim afleiðingum að lífskjör landsmanna hafa komist á mun lægra stig en rök liggja til að þau gætu verið ef vel væri á fjárfestingarmálum haldið. Nú blasir við ný kollsteypa, ný gengislækkun, sú þriðja á ferli ríkisstj., og ekki verður annað séð en stefnt sé í deilur á vinnumarkaði.

Það er fróðlegt að líta á það, hver þróun hefur verið á gengi krónunnar á undanförnum árum. Ef litið er til baka til upphafs þessa áratugs, þegar vinstri stjórnin tók við, þá var meðalgengið á árinu 1971 á Bandaríkjadollar 87.61 kr. Í lok síðasta heila ársins, sem sú stjórn sat, var gengi Bandaríkjadollars 89.67 kr. Á þessum tveimur og hálfu ári hafði því gengi Bandaríkjadollars aðeins hækkað um 2.06 kr., og ekki varð veruleg breyting á því fram til þess að vinstri stjórnin lét af völdum í ágústlok 1974. En þá skipti snögglega um.

Núv. ríkisstj. framkvæmdi sína fyrstu gengislækkun samtímis því að hún settist að völdum og aðra gengislækkun á öndverðu ári 1975. Afleiðingarnar sögðu til sín. Í lok ársins 1975, fyrsta heila ársins á valdaferli núv. ríkisstj., hafði meðalgengi Bandaríkjadollars komist í 153.63 kr. Sem sagt, krónan hafði fallið í verði um helming. Síðan hefur haldið áfram á sömu braut. Í árslok 1976 kom á daginn, að meðalgengi Bandaríkjadollars hafði á því ári komist í 181.91 kr. gagnvart íslenskri krónu. Enn hélt gengislækkun krónunnar áfram á síðasta ári. Meðalgengið í nóvemberlok á því ári var að einn Bandaríkjadollar kostaði 19$.06 kr. Og nú á öðrum mánuði þessa árs er farið í gengislækkun sem mun færa Bandaríkjadollarinn í um það bil 250 kr. íslenskar. Sem sagt, tvö fyrstu heilu árin, sem ríkisstj. sat, lækkaði hún krónuna gagnvart dollar um 100%, og nú er bætt þar við enn 50% lækkun.

Þessi ferill allur sýnir að ríkisstj. hefur frá upphafi verið á rangri braut. En þó keyrir úr hófi nú á síðustu missirum kjörtímabilsins. Því er haldið fram af ríkisstj. hálfu, að ástæðan til þeirra aðgerða sem hún grípur til, gengislækkunar og annarra ráðstafana sem sjá nú dagsins ljós allra næstu daga, sé samningsgerð á vinnumarkaði, einkum samningar félaganna í Alþýðusambandi Íslands á miðju síðasta sumri. Hafi svo verið, þá hlaut ríkisstj. að vera það ljóst þá þegar. En engu að síður tók hún með ýmsum aðgerðum sínum tvímælalaust ábyrgð á þeim samningum af sinni hálfu. Og hafi hún verið farin að sjá að þá hafi verið rangt að staðið, þá var rétti tíminn til að viðurkenna það og grípa til þeirra aðgerða, sem ríkisstj. taldi réttar af sinni hálfu, þegar í haust, þegar þing kom saman og afgreiðsla fjárl. hófst. En öðru var nær en svo væri gert.

Ríkisstj. tók sannarlega margvíslega ábyrgð á þeirri samningsgerð sem frá var gengið á vinnumarkaði s.l. sumar. Hún hét margvíslegum hliðarráðstöfunum í skattamálum, tryggingamálum og fleiri atriðum, og frv. til staðfestingar á brbl. í því efni voru eitt helsta verkefni Alþ. á víkunum fyrir jól. Þar að auki voru sáttasemjarar ríkisins mjög virkir við samninga í þessari deilu, og þeir tóku fullan þátt í að ganga frá þeirri niðurstöðu sem þar varð. Og þar var ákveðið af hálfu samningsaðila, að ákvæði skyldu vera í samningunum um að þeir væru uppsegjanlegir við verulega gengisbreytingu eða lagasetningu sem breytti verðtryggingu þess kaupgjalds sem um var samið. Það var tvímælalaust skilningur almennings og ég hygg einnig samningsaðila, að með þessum aðgerðum hefði ríkisstj. skuldbundið sig siðferðilega a.m.k. til þess að beita sér fyrir því, að þessir samningar skyldu standa út samningstímann, að stuðla að því af alefli að þeir fengju staðist þangað til þeir rynnu út. En það er öðru nær en svo sé. Gengislækkunin, sem nú er verið að framkvæma, og aðrar ráðstafanir, sem á döfinni eru, gera það tvímælalaust að verkum að kjarasamningarnir frá í sumar verða uppsegjanlegir.

Það er því engu líkara en ríkisstj. sé að þessu leyti naumast sjálfrátt. Það er engu líkara en hún vilji stuðla að því, að vinnudeilur eigi sér ekki stað í einum áfanga þegar samningar eru gerðir, heldur sé hún beinlínis að panta ný átök á vinnumarkaði nú rúmu missiri eftir að samningar voru gerðir með hennar atbeina. Það er verið að stofna til nýrra vandræða, vegna þess að ríkisstj. hefur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, aldrei náð tökum á því verkefni, sem hún tókst á hendur að ráða fram úr, að leiða þjóðina og þjóðarbúið úr þeim farvegi, sem gert hefur að verkum að verðbólga hefur um áratugi verið langtum meiri á Íslandi en í öðrum nálægum löndum og helstu viðskiptalöndum okkar, þó aldrei meiri en á síðustu árum. Þetta er hið raunverulega verkefni sem blasir við öllum þeim sem gefa kost á sér til að fást við stjórn íslenskra þjóðmála á þessum tímum. Í þessu efni hefur ekkert miðað, í því efni stendur íslenska þjóðin í sömu sporum, í sömu erfiðu sporunum og hún gerði þegar þessi ríkisstj. tók við völdum. Og enn er haldið áfram á sömu braut. Ný gengislækkun ýtir enn undir verðbólgubraskið og verðbólguhugsunarháttinn. Þess er enginn kostur að rekja þau atriði eins og vert væri við meðferð þessa máls, enda ekki ástæða til. Þetta mál er aðeins hluti af stærri heild sem mun sjá dagsins ljós hér ekki síðar en á föstudag.

Hvað þetta frv. varðar hafa þegar verið í þessum umr. reifuð ýmis óvissuatriði í texta þess og gefin við þeim nokkur svör. Ég mun því ekki lengja umr. með því að endurtaka það sem einstök efnisatriði málsins varðar, því að úr því að ríkisstj. hefur ákveðið að feta þessa braut, þá verður ekki undan því víkist að Alþ. geri af sinni hálfu þær ráðstafanir sem þarf, þ.e.a.s. sá meiri hl. á Alþ. sem fylgja vill ríkisstj. í hennar gerðum gerir þær ráðstafanir, sem þarf til þess að gjaldeyrisskráning og gjaldeyrisviðskipti geti hafist á ný. En þetta mál, eins og annað sem því fylgir, er algerlega á ábyrgð þeirra þm. sem kjósa að fylgja ríkisstj. eftir á þeirri óheillabraut sem hún gengur.