09.02.1978
Efri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

170. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv., þ.e. frv. til l. um Þjóðleikhús, er nú orðinn gamall kunningi á Alþ. og hér í þessari hv. d. Það er flutt nú í sömu mynd og áður, og ég vil mega vænta þess, að hv. þm. sjái sér fært að taka það til efnislegrar meðferðar og auðritað helst að ljúka afgreiðslu þess á þessu þingi.

Þar sem ég hef ítrekað mælt fyrir þessu frv. hér í Ed. get ég stytt mál mitt og vísað til fyrri framsöguræðna, þær liggja að sjálfsögðu fyrir, og til þeirra athugasemda, sem frv. fylgja.

Að nokkru leyti eru þau atriði, sem í þessu frv. felast, staðfesting á þeim starfsháttum sem þegar hafa verið upp teknir ellegar hliðstæð ákvæði eru í þeim lögum sem nú gilda. En að hluta er hér að sjálfsögðu gert ráð fyrir nýjum þáttum í starfsemi Þjóðleikhússins ellegar þá aukin áhersla á einstaka starfsþætti sem þegar eru upp teknir.

Eins og hv. dm. rekur minni til, eru nokkur atriði í frv. sem hafa munu aukinn kostnað í för með sér þegar til framkvæmda koma. En þess ber að gæta að í 18. gr. frv. segir svo: „Eigi skal ráða í nýjar stöður samkv. lögum þessum fyrr en fé er veitt til þess í fjárl.“ Þetta ákvæði er raunar óþarft, því þessi er hin löglega meðferð mála, en það er eigi að síður sett hér inn til þess að árétta skilning höfunda frv. og þá væntanlega löggjafans á þessu atriði.

Það er skoðun mín, og ég hygg að allir geti verið sammála um það, að ný löggjöf um stofnun eins og Þjóðleikhúsið hlýtur alltaf að fela í sér möguleika til aukinnar starfsemi, til nokkurrar þróunar á næstu missirunum og árunum, hún hlýtur því alltaf að hafa einhvern mögulegan kostnaðarauka í för með sér. En ég tel að í þessu frv. sé það hóflega í sakir farið að ekki þurfi að hika við afgreiðslu málsins af ótta við óhæfilega aukningu tilkostnaðar.

Það hafa verið gerðar smábreytingar á frv. frá því sem það var lagt hér fram í fyrra, en þær varða eingöngu fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna. Rétt þótti við nánari athugun og að höfðu samráði við fjmrn. og stjórn Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna að gera þessar breytingar, og er þá tekið tillit til þeirrar þróunar í lífeyrismálum sem orðið hefur frá því að frv. þetta var í letur fært í fyrstu. Að öðru leyti vísa ég til athugasemda um þetta atriði.

Ég vil geta þess, að menntmn. d. fékk í fyrra upplýsingar um fjárhagslegu hliðina á þessu máli. Þær upplýsingar má að sjálfsögðu framreikna nokkuð með tilliti til verðhækkana. En allar nánari upplýsingar, sem óskað kann að verða af n. hálfu eða þingsins, verða að sjálfsögðu í té látnar.

Ég held ég hafi þessa framsögu ekki öllu lengri að þessu sinni. Ég vil að lokum bara árétta þau eindregnu tilmæli mín til hv. þdm. að taka nú þetta mál til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til menntmn.