09.02.1978
Efri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

170. mál, Þjóðleikhús

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta mál er enn á ný komið til kasta þingsins og kannske ekki ástæða til að hafa um það mörg orð. Það er tæpast vansalaust, held ég, að ekki skuli unnt að afgreiða slíkt mál, þó að það kunni að verða einhverjar breytingar á því gerðar. Ég hef haft sérstakan áhuga á því, að þetta frv. næði fram að ganga, vegna þeirra greina sem fjalla um samstarf Þjóðleikhússins annars vegar og áhugaleikfélaganna hins vegar, sem 14. og 15. gr. fjalla sérstaklega um.

Þjóðleikhúsið er í dag mikið fyrirtæki. Fjárlög bera þar um glöggt vitni, og ég skal taka það fram, að ég er ekki að telja það fjármagn eftir. En það skiptir miklu máli hvernig því fjármagni er varið. Ég skal sömuleiðis segja það, að ég tel það sérlega mætan mann, sem þar heldur um stjórn, og margt vera gott um starfsemi Þjóðleikhússins. Leikritaval þess er fjölbreytt. Það er ýtt undir íslenska leikritun. Það er eitt mikilvægasta verkefnið sem Þjóðleikhúsið á að sinna og hefur gert að nokkru, og hygg ég þó að það mætti betur gera. Í 2. gr. stendur að það skuli kosta kapps um að efla íslenska leikritun. Við skulum vona að það verði gert í enn ríkari mæli í framtíðinni. Varðandi þetta verkefni hafa aðrir þó verið öllu drýgri en sjálft Þjóðleikhúsið.

Það er ljóst, að merkilegt starf er þarna unnið. En auðvitað er aðgát nauðsynleg, svo mikill er þó sá kostnaður sem við Þjóðleikhúsið er. Þetta liggur að hluta til auðvitað í niðurgreiðslu miðaverðs, sem er mjög góðra gjalda vert og ekki skal talið eftir, því það er höfuðnauðsyn að sem allra flestir, þeir sem vilja í leikhús fara, geti notið þess og að sem allra flestir sæki leikhús. Á það hefur verið minnt áður á Alþ. í vetur, að við séum mjög duglegir við það, allra stétta menn hér, að sækja leikhús, og sé það um margt ólíkt því sem er víða í öðrum löndum. Leikhúsmenning okkar er sterk og hún er almenn. Áhuginn er geysilegur, ekki bara á að sjá leikrit og kynna sér listræna sköpun á því sviði, ekki bara að vera þiggjendur. Hann kemur fram í því fyrst og fremst, að hvergi á byggðu bóli mun annar eins áhugi vera til tjáningar fólks og löngunar til listrænnar sköpunar á þessu sviði og unnin jafnathyglisverð afrek af hálfu áhugafólks og við þó gerum. Og þá er ég í raun og veru kominn að því aðalmáli, sem ég þreytist seint á að minna á, þ.e.a.s. því sambandi og samstarfi sem ég álít að eigi að vera með Þjóðleikhúsi og áhugafélögunum. Þar álít ég að Þjóðleikhúsið eigi að vera hinn eðlilegi frumkvæðisaðili sem aðalmiðstöð, höfuðaðili leiklistarlífs í landinu. Það mun ekki standa á áhugafélögunum og hefur ekki gert það, og það er fyrst og fremst fyrir mjög ötula forgöngu núv. framkvæmdastjóra Bandalags ísl. leikfélaga, Helgu Hjörvar, að nánara og betra samstarf hefur tekist með þeim og Þjóðleikhúsinu heldur en var áður. Þjóðleikhúsið hafði þar ekki frumkvæði, en Þjóðleikhúsið tók því hins vegar vel þegar framkvæmdastjóri Bandalagsins fór að sækja á með þetta mál, og ber að þakka það.

Ég bar fram fsp. fyrr í vetur um aðstoð Þjóðleikhússins við áhugafélögin. Kom ýmislegt markvert fram í svörum hæstv. ráðh. Aðstoð á ýmsum sviðum hafði verið veitt, og alveg sérstaklega var þar getið um góða og mikla aðstoð við lán búninga, sem ég dreg ekkert í efa að hafi verið réttar upplýsingar. En fsp. mín laut þó enn meira að efni 15. gr. þessa frv., um gistileikara og leikstjóra, því að þar brennur eldurinn heitast á baki áhugafélaganna og þarna er einmitt að meginskyldu Þjóðleikhússins við áhugafélögin komið. Ég skal koma að því síðar.

14. gr. frv. fjallar um leikmunasafn. Þar eru ákvæði um margt til bóta, og þar veit ég þegar unnið gott starf. Hins vegar hygg ég, eins og ég tók fram þegar svarað var fsp. frá mér í vetur um þetta, að sú þjónusta sé greidd fullu verði, þannig að Þjóðleikhúsið tapi út af fyrir sig ekkert á þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Það er hins vegar staðreynd í dag, að áhugaleikfélögin berjast í bökkum. Það er mikill kostnaður við leiksýningar nú og drjúgur hluti af tekjum leikfélaganna fer til ríkisins aftur í formi skatta. Og erfiðasti hlutinn af þessum vanda leikfélaganna er fólginn í leikstjórninni. Hún er orðin mjög kostnaðarsöm. Þar er um að ræða auðvitað bæði laun leikstjórans, ferðakostnað og dvalarkostnað.

Styrkir hafa á undanförnum árum ekki verið í samræmi við hækkanir á þessum margvíslegu gjöldum, sem leikfélögin bera, og þá sérstaklega ekki á móti hækkun leikstjóralauna. Þó ber þess að geta, að nú á þessu ári, að öllu óbreyttu, mun þetta verða með allra skásta móti. Fjárveiting til áhugafélaganna er sem sagt með besta móti nú í ár, og ber að þakka það. En þess ber auðvitað líka að gæta, að aldrei hefur orðið jafnstórkostleg hækkun á leikstjóralaunum og varð einmitt á s.l. ári eðlilega í kjölfar nýrra kjarasamninga þá. Styrkurinn til leikfélaganna í heild mun hafa hækkað nú á milli ára um 75%, og það er sannarlega ekki lítið. Mér er sagt að leikstjóralaun og annar kostnaður varðandi það atriði sérstaklega hafi hækkað nokkuð svipað, svo að þetta muni vel haldast í horfinu og þó gera heldur betur. Allur annar kostnaður hefur auðvitað hækkað mjög mikið í samræmi við aðrar kostnaðarhækkanir í landinu.

Þess ber alveg sérstaklega að gæta í þessu sambandi, að það eru gerðar auknar kröfur til ábugafélaganna. Ég er ekki að mæla því í gegn. Ég held að það sé ágætt, að það séu gerðar vissar listrænar kröfur til þeirra, og þeim í raun og veru mjög nauðsynlegt. En það eru líka gerðar kröfur til leikfélaganna varðandi búninga, varðandi leiksvið og ýmislegt fleira, ýmsan ytri umbúnað, sem líka hefur aukist mjög, og leikfélögin verða að sinna því einnig. Til þessa alls þarf fé, og þar álít ég að Þjóðleikhúsið eigi bæði að vera bakhjarl og stuðningsaðili.

Það má segja að 15. gr. segi nægilega mikið ef skýr ákvæði koma í reglugerð um gistileikara og leikstjóra til áhugafélaganna. Þetta, að Þjóðleikhúsið skuli kappkosta að hafa samstarf og skuli kappkosta að láta þeim í té gistileikara og leikstjórn, er vitanlega mjög teygjanlegt, og ég efast ekki um að Þjóðleikhúsið muni reyna að koma sér hjá því eins og það getur, nema það sé ýtt sérstaklega á eftir, ekki kannske beint af viljaleysi þeirra sem stjórna, heldur af ýmsum öðrum ástæðum.

Það er skoðun mín, að þau leikfélög, sem starfa mest og best hér á landi, ættu í raun og veru og þyrftu t.d. þriðja hvert ár að eiga kost þessarar þjónustu frá Þjóðleikhúsinu. Það væri algjört lágmark að mínu mati fyrir þau leikfélög t.d. sem setja upp tvö verk á ári, eins og er um mörg leikfélög hér á landi í dag, eða setja upp eitt mjög veigamikið verk, eins og enn fleiri leikfélög gera. Til þess að Þjóðleikhúsið geti sinnt þessari skyldu þarf auðvitað hagræðingu í starfsemi þess. Hún er nauðsynleg til þess arna. Við vitum að leikárið er að mestu leyti skipulagt fyrir fram, og ef nægilegt tillit er tekið til þessa verkefnis í byrjun hvers starfsárs þá ætti þetta að takast.

Ég hef rætt við núv. þjóðleikhússtjóra um þetta, og ég tel hann hafa fullan vilja til að gera þetta, og vissulega hefur þetta aukist nokkuð. En þegar við tölum um aukningu í þessu sambandi, þá skulum við líka gera okkur grein fyrir því, að aukningin er eiginlega úr núlli og upp í þetta þó sem komið er. Það er því ekki af miklu að státa út af fyrir sig hjá Þjóðleikhúsinu varðandi þetta með gistileikarana og leikstjórana, fyrir utan það, eins og ég hef bent á áður, að þegar Þjóðleikhúsið hefur látið leikfélögunum í té þessa þjónustu, þá hafa leikfélögin alltaf þurft að greiða leikstjóranum eða leikurunum full laun, nema í einu einasta tilfelli, þó að þeir hafi verið á fullum launum hjá Þjóðleikhúsinu á meðan.

Ég veit að það er misjafnt hvað leikarar segja um þetta. Eflaust finnst ýmsum ekki vera mikil reisn í því að fara út á land í eitthvert þorp og setja þar upp leikrit, ég tala nú ekki um að leika við hliðina á viðvaningunum þar. Eflaust eru þeir til. En þó eru til ágætar undantekningar frá þessu og ég þekki dæmi um hið gagnstæða, þar sem menn hafa beinlínis sagt að þeir hefðu lært fullt eins mikið á því að gera þetta og að starfa á fjölum Þjóðleikhússins sjálfs. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að það er ekki bara íólkið í leikfélögunum sem græðir á þessu, það eru ekki siður leikararnir sjálfir sem kynnast þarna bæði nýrri hlið á listrænni tjáningu, viðvaningslegri þó, en kannske miklu meiri áhuga og meiri leikgleði en tíðkast í þeirra atvinnumannahóp.

Ég sem sagt treysti því, að þetta komist í framkvæmd. Lagaskyldan þarf að vera ótvíræð. Reglugerð þarf svo að setja um enn skýrari ákvæði. Ég hygg að ég muni ekki flytja brtt. við þessa 15. gr. Þó hef ég í huga að gera það e.t.v. í samráði við framkvæmdastjóra Bandalags ísl. leikfélaga. En ef hægt er að treysta á að reglugerð segi þarna ákveðnar til um, þá ætti að vera þarflaust að breyta þessari 15. gr.

Það má segja að það megi skora á hæstv. menntmrh. að ýta hér á eftir svo sem hann framast getur. En það fer að styttast í valdaferli hans nú a.m.k. og þýðir kannske lítið að fara að skora á hann sérstaklega þannig sem persónu nú. En ég veit, að hann hefur sýnt þessu máli fullan velvilja, og treysti á það, að á meðan hann situr í þessu sæti, hvort sem lengur eða skemur verður, muni hann ýta þarna á eftir. Ef rn. undir hans stjórn setur reglugerð eða ráðuneytismenn, þá treysti ég því, að þar verði sett mjög skýr og greinargóð ákvæði um hvernig þessari þjónustu Þjóðleikhússins, sem það á að kappkosta að láta í té, verði báttað, svo leikfélögin geti gert þarna vissa kröfu til Þjóðleikhússins sem frumkvæðis- og forgangsaðila.