09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Gils Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál almennt, en vil freista þess nú við 3. umr, að leggja fram litla brtt. við 3. gr. frv. Það er í sambandi við það, að samkv. 3. gr. er svo fyrir mælt, að hluti af fé gengismunarsjóðs, um 350 millj. kr. að því er hæstv. sjútvrh. upplýsti, á að renna til þess að efla hagræðingu í fiskiðnaði, Eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl., þá er ekkert nánar tiltekið eða ákvarðað í sambandi við það, með hverjum hætti þessi hluti af fé gengismunarsjóðs eigi að renna til þessa verkefnis. Það er algerlega á valdi ríkisstj. að ákveða það. Með tilliti til þess, að þarna er um þó nokkra fjárhæð að ræða til viðbótar við 500 millj. kr., sem áður hefur verið ákveðið að verja í þessu skyni, þá tel ég að það sé algerlega óeðlilegt, að ekki sé neitt nánar ákveðið um það í þessum væntanlegu lögum, hvernig eigi að ráðstafa þessu fé. Þar tel ég að búa þurfi betur um hnúta af Alþingis hálfu.

Það er kunnugt að einstakir landshlutar eru mjög misjafnlega á vegi staddir í sambandi við þetta mál, í sambandi við það að auka hagræðingu í fiskiðnaði. Víða úti um landið hefur verið unnið býsna ötullega að þessum málum á undanförnum árum, má segja á þessum áratug, og þar hefur niðurstaðan á allmörgum stöðum orðið sú, að það má segja að orðið hafi gerbreyting í sambandi við rekstur sjávarútvegs og fiskiðnaðar, gerbreyting til bóta frá því sem áður var, eflir að þessi hagræðing var komin á, sérstaklega þar sem svo hefur tekist til að nokkurt samræmi er á milli veiðanna sjálfra og þeirrar fjárfestingar og þess mannafla sem vinnur eða gert er ráð fyrir að vinni við fiskiðnaðinn. Á öðrum stöðum hafa ýmsar ástæður valdið því, að þessi atvinnuuppbygging hefur orðið mjög á eftir, og vil ég alveg sérstaklega af þessu tilefni nefna það, að Suðurnes eru þarna mjög illa á vegi stödd og e.t.v. verr en flestir ef ekki allir landshlutar aðrir. Þetta kom mjög greinilega fram í þeirri athugun á afkomu frystihúsa sem Þjóðhagsstofnun gerði að fyrirmælum ríkisstj. s.l. haust. Sú skýrsla kom út fjölrituð í októbermánuði s.l., og hún sýnir mjög greinilega að nýting hráefnis er áberandi lökust í hraðfrystiiðnaði á Suðurnesjum. Þessi könnun sýnir einnig að nýting fjármagns í frystiiðnaði er lakari á Reykjanessvæðinu en í öðrum landshlutum. Suðurnesin eru að vísu ekki tekin þar sérstaklega, heldur Reykjaneskjördæmi.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að fara út í það, hvað valdi því að Suðurnes eru svo illa á vegi stödd í þessum efnum, að þau virðast vera einna lakast á vegi stödd allra landshluta að því er snertir uppbyggingu fiskiðnaðar. Ég bendi aðeins á það, að útbýtt hefur verið till. til þál. um Suðurnesjaáætlun sem ég flyt ásamt hv. 11. landsk. þm., Geir Gunnarssyni, og þar er allrækilega farið út í þessa sálma og gerð nokkur grein fyrir ýmsum ástæðum þess, að Suðurnesin eru svo illa á vegi stödd nú, að þar eru mörg fiskiðnfyrirtæki sem ekki hafa séð sér fært að taka á móti fiski. Þau eru lokuð nú á hávertíðinni. Ég bendi aðeins á það, að þarna er nauðsyn alveg sérataklega brýn, og með tilliti til þess að svo er ástatt á þessum stað og sjálfsagt nokkrum öðrum, þá vil ég leyfa mér að leggja hér fram brtt. við 3. gr. þessa frv. Hún er svo hljóðandi, að aftan við gr. bætist:

„Við setningu reglna um stuðning við hagræðingu í fiskiðnaði skal lögð sérstök áhersla á skipulega uppbyggingu fiskiðnaðar á svæðum sem verst eru sett atvinnulega og skila lakastri nýtingu hráefnis og fjármagns“

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa till., en þó aðeins leggja áherslu á að það er ekki hugmynd mín að þessu fé, sem á að verja til þess að auka hagræðingu í fiskiðnaði, skuli varið til þess fyrst og fremst eða í nokkrum mæli að bæta lélega rekstrarstöðu frystihúsa eða fiskvinnslustöðva, ef ekkert annað er gert. Það kemur heldur lítið út úr því greinilega. Það þarf annað og meira til að koma og ákvæði þarf að setja um það, að þessi hagræðing fari raunverulega fram og að hún komi að notum þar sem þörfin er brýnust. Þessi till. er skrifleg og of seint fram komin, og ég bið því hæstv. forseta að leita afbrigða, svo að hún megi koma fyrir.