09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari brtt. frá hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundssyni, vil ég taka það fram, að ég tel þessa brtt. algerlega óþarfa. Það liggur í augum uppi, að það fjármagn, sem verður til ráðstöfunar til að auka hagræðingu í fiskiðnaði og fram hefur verið tekið að er auk þeirrar upphæðar, sem fæst úr gengismunarsjóði, þeir fjármunir sem Byggðasjóður hefur ráðstafað í þessu skyni, — þessir fjármunir verða auðvitað nýttir þannig að sérstök áhersla verði lögð á að bæta nýtingu þeirra fiskvinnslustöðva sem verst eru staddar í þeim efnum, auðvitað að því tilskildu að rekstrargrundvöllur sé fyrir þessar fiskvinnslustöðvar. Það er ekkert launungarmál, að þessar ráðstafanir eru ekki síst gerðar með tilvísun til lakrar nýtingar hráefnis hér suðvestanlands og raunar á Suðurlandi að hluta og Vestmannaeyjum, og það er úrvinnsluefni fyrir þá sem fjalla um ráðstöfun þessa fjár, forráðamanna Byggðasjóðs og gengismunarsjóðs, og viðkomandi viðskiptabanka sem og Seðlabankans, eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh. í umr. um þetta mál í gær. Því vil ég ítreka og endurtaka, að ég sé ekki ástæðu fyrir þessari brtt. og tel hana óþarfa.