09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Gunnar Sveinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega það mál sem hér er til umr. Það, sem varð þess valdandi að ég stóð hér upp, er sú till. sem Gils Guðmundsson bar hér fram um að sérstaklega verði tekið tillit til þeirra staða sem versta hafa nýtingu í fiskiðnaði og verst eru á vegi staddir í sambandi við útgerð og fiskvinnslu nú í dag. Ég vil lýsa stuðningi mínum við till. hans og vísa til þeirra orða sem hann sagði um ástand í fiskvinnslu á Suðurnesjum.

Nýlega hafa verið hjá okkur suður frá framkvæmdastjórar Byggðasjóðs. Þeir hafa rætt þar við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og þeim hefur verið gerð grein fyrir því ástandi sem ríkir í fiskvinnslunni á Suðurnesjum, þar sem nú nýlega hafa 2 af 7 togurum á staðnum verið seldir í burtu og fyrir liggur að þriðji togarinn muni einnig vera á förum. Það liggur líka ljóst fyrir, að mörg af kraftmestu frystihúsum á svæðinu eru ekki starfrækt núna vegna erfiðrar fjárhagsaðstöðu, og í heilum byggðarlögum, eins og t.d. í Njarðvík, þar sem aðeins eitt frystihús var starfandi, er nú ekkert frystihús starfandi. Ég tel því að það sé full ástæða til þess, einmitt þegar verið er að afgreiða þetta mál hér, að á það sé bent, að sérstaklega verði tekið tillit til svæðis sem á við svipaðar aðstæður að búa í dag og Suðurnesin þegar farið verður að úthluta því fé sem kemur þarna til ráðstöfunar. Ég held að menn hafi yfirleitt ekki gert sér ljóst, hvað þessum þróttmiklu útgerðarstöðum í mörg ár hefur á síðustu árum farið aftur, og það má fyrst og fremst rekja til skiptingar aflans og að afli hefur stórminnkað, fyrir utan það að fyrirgreiðsla til svæðisins af hálfu lánastofnana og ríkisvaldsins hefur ekki verið söm og til annarra staða sem hafa átt við svipaða erfiðleika að stríða. Ég tel því fulla ástæðu til, að þessi till. sé flutt, og lýsi, eins og ég sagði áðan, stuðningi mínum við hana og vona að þm. samþykki hana.