09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

125. mál, virkjun Blöndu

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Þegar hafa orðið miklar umr. um þetta frv. og ég skal ekki lengja þær mikið, enda er mál til komið að málið fari að ganga til nefndar.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson hefur flutt efnislegar athugasemdir við frv. Út af þeim vil ég taka það fram, að ég er ekki haldinn neinum fordómum gegn því, að Rafmagnsveitum ríkisins eða Landsvirkjun verði falið að annast virkjunarframkvæmdir við Blöndu, eftir því sem Alþ. sýnist best henta. Eðlilegt má telja að það sé bundið a.m.k. að mestu í lögum, hver skuli vera framkvæmdaraðili. Ef Norðurlandsvirkjun verður ekki komin á laggir áður en frv. verður afgreitt eða stofnun þess fyrirtækis í sjónmáli, sýnist eðlilegt að framkvæmd verksins verði falin öðrum aðila. Rétt sýnist mér þó að taka fram, að hæpið virðist að Landsvirkjun geti orðið eignar- og rekstraraðili Blönduvirkjunar, nema skipulagsbreytingar í orkumálum færist í þá átt, að Landsvirkjun verði orkuöflunarfyrirtæki fyrir meginhluta landsins. Eigi að síður væri unnt að fela Landsvirkjun að annast framkvæmd verksins, enda þótt Rafmagnsveitur ríkisins komi þar ekki siður til greina.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti mikla ræðu á mánudaginn var. Hann talaði af eldmóði, og ókunnugir hefðu getað látið sér detta í hug að hann hefði í rauninni drukkið eldvatn, slíkur var talandinn og limaburðurinn. Ég hygg að svo hafi ekki verið, heldur hafi hv. þm. aðeins verið í sínu besta formi. En þegar ræður eru fluttar í þessum ham, þá vilja einfaldir hlutir stundum gleymast, og þannig fór fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Hann sagði t.d. eitthvað á þá leið, að það væri alveg sama hve mikið rafmagn væri framleitt á Suðvesturlandi eða annars staðar á landinu, það væri ómögulegt að koma því til Vestfjarða vegna þess að rafmagn yrði ekki sent í bögglapósti. Þetta er auðvitað mjög skarplega athugað hjá hv. þm., en á tæplega heima í umr. um þetta frv. Ég held að enginn geri ráð fyrir því, að orkuframleiðsla hefjist í Blöndu fyrr en um miðjan næsta áratug og kannske siðar. Hv. þm. ætti að vita að áætlað er að hefja byggingu Vestfjarðalínu frá Hrútatungu á þessu ári og væntanlega verður því verki lokið á tveim eða mesta lagi þrem árum. Það verður því engin ástæða til þess að gera tilraun til að senda rafmagn frá Blöndu: bögglapósti til Vestfjarða þegar þar að kemur.

Þá taldi hv. þm. að orkuspáin væri markleysa, vegna þess að hún væri reist á þeirri forsendu að dreifikerfin yrðu endurbyggð og það væri bæði dýrt og tæknilega óframkvæmanlegt á skemmri tíma en 10 árum, Það er alveg rétt, að til þess að orkuspáin verði virk þarf að endurbyggja dreifikerfi og stofnlínur og reisa aðveitustöðvar. En ekki hafa menn í raforkukerfinu viljað segja við mig að þetta sé ekki unnt að gera á skemmri tíma en 10 árum. Jafnvel þó það reynist svo er það ekki slæmt mark að keppa að, vegna þess að orkuspáin nær yfir 25 ára tímabil, en ekki 10 ár eða skemur. Jafneinfalt atriði virðist hafa farið fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni.

Það er hárrétt, að þetta kostar mikið fé, og hafa verið nefndar stórar tölur í þessu sambandi eða yfir 20 milljarða kr. En við komumst ekki hjá því að verja miklum fjármunum í þessu skyni ef við viljum nýta innlenda orkugjafa í þágu okkar sjálfra. Ef við gerum það ekki tökum við a.m.k. áhættuna af því að mæta vaxandi orkuþörf okkar með kaupum á orku frá þverrandi orkumörkuðum heimsins. Það kann einnig að verða dýrt.

Önnur atriði í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar skal ég að mestu láta liggja á milli hluta, þó nefna megi, að þar sem hann vitnar réttilega í umsögn Jakobs Björnssonar orkumálastjóra um að nauðsynlegar rannsóknir við Blöndu taki 2–3 ár, þá er sú umsögn nú nærri árs gömul.

Réttmæti fullyrðinga hans um að 10 milljörðum kr. hafi verið eytt til einskis við Kröflu held ég að best sé að láta reynsluna leiða í ljós.

Hv. þm. Páll Pétursson flutti hér langa ræðu. Það er engin nýlunda að þessi hv. þm. flytji langar ræður. En ræðan var með besta móti undirbúin og flutt af vélrituðum blöðum. Ætla mætti að málefnalegt inntak hennar hefði verið í samræmi við þetta. En því var því miður ekki að heilsa. Hins vegar var nóg af staðlausum fullyrðingum og álappalegum tilraunum til þess að vera fyndinn á minn kostnað og annarra. Þetta er skiljanlegt í hinni vandlegu undirbúnu ræðu hv. þm., enda stundum þrautaráð þegar röksemdir eru á þrotum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði oft í ræðu sinni eitthvað á þá leið, að nauðsynlegt væri að segja þetta eða hitt og lesa hitt og annað svo það yrði prentað í Alþingistíðindum, einnig að röksemdir sínar frá því í fyrra um þetta mál væru flestallar í fullu gildi og prentaðar í Alþingistíðindum. Lætur nærri að ætla að þarna sé fundin skýring á löngum ræðum þessa hv. þm. og jafnvel að hann haldi að það sé sama hvaða fjarstæðu hann segi í þessum ræðustól, það verði allt satt þegar búið sé að prenta það í Alþingistíðindum. Þetta er auðvitað mesti misskilningur, eins og stuttlega verður vikið að hér á eftir.

Hv. þm. Páll Pétursson sagðist hafa orðið allra mest undrandi á því sem ég sagði í ræðu minni í síðustu viku, að við ættum að slá striki yfir allar nýjar álbræðslur og járnblendiverksmiðjur á komandi árum. Það var eins og hann héldi að ef maður samþykkti eitt slíkt fyrirtæki, þá sé jafnsjálfsagt að samþykkja önnur og enn önnur um alla framtíð. Þetta er röksemd með svipuðum hætti og ef ég segði, að úr því að hv. þm. samþ. við fjárlagaafgreiðslu að kaupa Víðishúsið, þá teldi hann sjálfsagt að ríkið keypti alla húshjalla hér á höfuðborgarsvæðinu sem til sölu væru, vegna þess, eins og hann sagði við það tækifæri: hvað munar okkur um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni. Svona röksemdir eru auðvitað fjarstæða og þarf ekki að hafa fleiri orð um.

Hv. þm. hefur lítið fylgst með þeim skoðunum sem ég hef látið uppi um stóriðjumál, bæði hér á Alþ. og annars staðar, úr því að hann varð svona hissa. Ég hélt fram mjög svipuðum skoðunum um stóriðjumál á Alþ. í fyrra og síðan einnig bæði í ræðu og riti, Þessu valda m.a. auknar upplýsingar um orkuþörf hins almenna markaðar hér á landi og hversu okkur miðar áfram með samtengingu orkuveitusvæða, sem er forsenda fyrir því að unnt sé að nýta orku frá stórvirkjunum til almenningsþarfa.

Síðan bregður hv. þm. Páll Pétursson sér í gervi sagnfræðings og tekur að rekja ímynduð afskipti mín af stóriðjumálum. Af þessum tilraunum hans á þeim vettvangi virðist mér að hann ætti að láta sagnaritun eiga sig. Það hentar honum sýnilega betur að fást við reyfara.

Hv. þm. sagði m.a., að hann hefði horft á mig samþykkja lög um járnblendisamning við Union Carbide 1975. Ekki verður þetta satt þó að hv. þm. Páll Pétursson láti prenta það í Alþingistíðindum, því í þeim tíðindum, 17. hefti 1976, sést að ég hef ekki komið nálægt atkvgr. um þetta mál meira að segja ekki hv. þm. Páll Pétursson sjálfur, því hann var þá víðs fjarri. Jafnvel það sem sagnfræðingurinn segist horfa á með eigin augum, eru staðlausir stafir og hefur aldrei gerst. Það er ekki góð Sagnfræði.

Þá spyr hv. þm. Páll Pétursson, með leyfi forseta: Hvers vegna biður hæstv. iðnrh. fylgismann sinn í fjvn. um sérstaka upphæð til stóriðjunefndar og hv. þm. Pálmi Jónsson lætur 10 milljónir til þessa verkefnis?

Ég varð oft hissa undir ræðu hv. þm., m.a. í þetta skipti, því þm. hefur sýnilega ekki hugmynd um hvað hann er að tala um. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1918 er gert ráð fyrir 10 millj. kr. til viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Og það mundi hv. þm. vita, ef hann hefði einhverja nasasjón af vinnubrögðum fjvn„ að hæstv. ráðh. þurfa ekki að biðja einn eða annan um að koma því inn í fjárlög sem þegar er í fjárlagafrv. Hins vegar lagði ég til að texta þessa fjárlagaliðar yrði breytt á þá lund, að þarna stæði: „Til athugana á nýiðnaði.“ Þessu fékk ég ekki ráðið í fjvn., en í fjárl. stendur þó: Til athugana á orkufrekum iðnaði. — Spurning hv. þm. er því byggð á hugarórum einum saman. Það er svo annað mál, að orkufrekur iðnaður getur kallast t.d. basaltvinnsla og önnur steinefnavinnsla, hvort sem hún verður sett niður á Sauðárkróki eða sunnanlands, ég tala nú ekki um títanvinnslu sem jafnvel er rætt um í okkar kjördæmi. Ég tel því æskilegt að þetta fjármagn, 10 millj. kr., fari til athugunar á slíkum nýjum iðngreinum.

Enn spyr hv. þm. Páll Pétursson: Hvers vegna var hv. þm. Pálmi Jónsson að sitja á fundum með fulltrúaráði sjálfstæðismanna norður í Skagafirði fyrir 54 vikum til þess að reyna að fá þá til að taka við álverksmiðju frá Norsk Hydro, úr því hann vill slá striki yfir stóriðjuframkvæmdir?

Ekki sýnist mér sagnfræðin fara batnandi hjá hv. þm. Hið rétta er, að í fyrravetur var haldinn fundur um stóriðjumál á Sauðárkróki á vegum sjálfstæðismanna. Ég var þar ekki staddur og hafði hvergi komið nálægt undirbúningi þess fundar, einfaldlega vegna þess að ég taldi að álbræðsla hentaði ekki okkar fámennu byggðum norður þar. En hugarburður og sleggjudómar hv. þm. eiga sér lítil takmörk.

Þá kemur dálítið skemmtilegur kafli í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar, þar sem hann í fyrstu hæðist að því, að ég skuli vilja taka mark á sérfræðingum í orkumálum, en ráðleggur mér síðan að taka til eftirbreytni þrjá menn, sem hann kallar sérfræðinga, og þó allra helst einn þeirra, sem ég eigi að gera að leiðtoga lífs míns, en það er félagi okkar, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Minni spámennirnir voru dr. Jóhannes Nordal og Bjarni Einarsson. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson erum oftast sammála, en ekki alltaf, sem varla er von. Þegar svo fer virðum við rétt hvor annars til þess að hafa sjálfstæðar skoðanir og leggjum ekki í vana okkar að ganga hvor eftir öðrum til þess að fá því breytt. Ég hygg hins vegar að hvorugur okkar kæri sig nokkuð um að hafa hinn að leiðtoga lífsins. Það gæti á hinn bóginn verið athugandi fyrir hv. þm. Pál Pétursson að líta í eigin barm, hvort honum væri ekki þörf á leiðtoga sem gæti leiðbeint honum um vandaðri málflutning en hann hefur tamið sér að undanförnu.

Það er svo rétt að vekja athygli á því, að enginn þessara manna. sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi, er að mínum dómi sérfræðingur í orkumálum, og þó að t.d. Jóhannes Nordal sé formaður í stjórn Landsvirkjunar, þá gerir það hann ekki að sérfræðingi á þeim vettvangi. Ummæli, sem eftir þeim voru höfð, eru þeirra skoðanir, en ekki mínar, og eru sumpart þriggja ára gömul og væntanlega byggð á öðrum forsendum en nú liggja fyrir.

Hv. þm. Páll Pétursson gerði gys að því, sem ég sagði um orkuskortinn og hvað hann var talinn kosta. Hér var auðvitað ekki um að ræða neinar bollaleggingar af minni hálfu um þetta efni, heldur mat sérfræðinga Landsvirkjunar, auk þess sem vitnað var til sambærilegs mats erlendis frá.

Þá kemur í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar eftirfarandi klausa sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta.

Hv. þm. Pálmi Jónsson hafði eftir einhverjum manni úti í bæ, að það væri hægt að flytja allt rafmagn frá Blöndu í tvær áttir og með lítils háttar aukabúnaði, eins og hann sagði, í eina átt. Þetta vil ég eindregið vara hann við að gera, það væri miklu alvarlegra afbrot heldur en að skjóta á einangrun byggðalínunnar úr riffli. Ef hv. þm. sendir meira en 50 mw. eftir línunni, þá bráðnar vírinn.“

Enn er það svo með þennan hv. þm., að hann fullyrðir það sem hann hefur ekki hirt um að kynna sér og veit ekki nokkurn skapaðan hlut um.

Ég tel ástæðu til þess út af þessum fullyrðingum hv. þm. að rekja þær áætlanir sem fyrir liggja um flutning raforku eftir byggðalínunni norður og austur þegar flutningsgeta hennar væri nokkurn veginn fullnýtt. Þá er gert ráð fyrir að taka inn á línuna við Brennimel í Hvalfirði 114 mw. Síðan hverfur þessi orka út smám saman við hverja aðveitustöð, fyrst við aðveitustöðina á Vatnshömrum 22,7 mw. í Hrútatungu, þ.e. fyrir Vestfjarðalínu, Vestur-Húnavatnssýslu og Dali, 20 mw., við Laxárvatn 5 mw., við Varmahlið 5.7 mw. og á Akureyri 26,6 mw. Þá væru send inn á austurlínu, austur að Eyrarteigi, 20,7 mw. Þessar tölur, sem eru samkvæmt upplýsingum rafmagnsveitustjóra ríkisins, eru ekki allar samanlagt nákvæmlega 114 mw., eins og tekið er inn á línuna í Hvalfirði, vegna þess að nokkur töp verða á orkuflutningnum svo langa leið. En þau sýna þó að gert er ráð fyrir að flytja mikið magn eftir þessari línu. Ef litið er hins vegar á það, hver eru hættumörk línunnar hvað flutningsgetu snertir, þá er það auðvitað mun meiri orka en hér er fjallað um og auðvitað miklu meiri orka en hv. þm. Páll Pétursson sagði að yrði til þess að bræða vírinn í línunni. Flutningsgeta byggðalínunnar, eins og hún er að mestum hluta, er miðað við — 5°C 175 mw. Og við + 10°C 160 mw. Sé farið upp fyrir þessa miklu raforku, þá er vírinn kominn að hættumörkum með að bráðna. Það þarf því miklu meira en 50 mw. og það þarf miklu meira en alla orkuframleiðslu Blöndu til þess að hv. þm. Páll Pétursson geti steikt eggin sín á vírum byggðalínunnar. Það er rétt að geta þess, að hluti þessarar línu, sem kallaður var Rauða línan, á milli Akureyrar og Varmahlíðar, er með nokkru grennri vír en hér er talið og hefur minni flutningsgetu, en hættumörk á þeim hluta línunnar eru við sömu hitastig 124 mw. og 113 mw.

Þetta sannar það sem ég sagði, að hv. þm. Páll Pétursson hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala um, hefur ekki hirt um að kynna sér gögn og fleiprar fjarri öllu lagi. Það er svo rétt að bæta því við, að Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri, sem þessar upplýsingar og þær, sem ég flutti í ræðu minni um daginn, eru hafðar eftir, er ekki einhver maður úti í bæ.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði að það væri gaman að spjalla litla stund um landvinninga í Langadal og sagði að ef ætti það sem hann kallar „kapalísera“ ána eða leggja í einn farveg frá afrennsli virkjunar til sjávar, þá mundi kostnaður við virkjunina vaxa um allt að 30%. Enn fullyrðir þessi hv. þm. það sem hann hefur ekki bugmynd um og engar áætlanir liggja fyrir um. Til þess að sýna fram á hvaða tölur hér er verið að bera á borð, ef miðað er við septemberverðlag, sem ég hef miðað við, um 17 milljarða króna, sem Blönduvirkjun er talin kosta, þá væri hér um rúma 5 milljarða króna að ræða sem kostnað við lagfæringar á árfarveginum. Til samanburðar má geta þess, að það, sem veitt er á fjárlögum þessa árs til fyrirhleðslna og lagfæringa á árfarvegum til að verjast landbroti, er 40.7 millj. kr. Hv. þm. telur því, þó að ekki sé falað um 20 milljarða kr. Blönduvirkjun, eins og hann tekur sér í munn, heldur 17 milljarða, að það þurfi til þess að lagfæra þennan eina árfarveg 125 sinnum meira fé heldur en veitt er til allra fyrirhleðslna á landinu á árinu 1978. Þannig er hver fullyrðingin og staðleysan eftir aðra í ræðu hv. þm.

Hv. þm. sagði að það hefði verið skemmtilegt að heyra mig tala um Blönduvirkjun sem einhverja varastöð, vegna þess að hún væri ekki á eldvirku svæði. Hann lætur prenta þetta eftir sér í dagblaðinu Tímanum. Þetta er eins og sumt annað hjá honum, þetta hef ég aldrei orðað og eru staðlausir stafir. Hins vegar hef ég jafnan rætt um Blönduvirkjun á þann veg, að hún þurfi að koma til nota fyrir orkumarkaðinn og raforkukerfið þegar það hentar notendum sjálfum og orkuframleiðslan hefjist þegar markaðurinn er reiðubúinn að taka við orkunni. Hitt er einber útúrsnúningur, þó að ég telji það með kostum þessarar stórvirkjunar og tímabært að hefja framkvæmdir við raforkuvinnslu utan eldvirkra svæða landsins, að þá sé verið að gera því skóna að ég vilji láta hana vera einhverja varastöð. Það hefur mér ekki komið til hugar og væntanlega varla nokkrum öðrum.

Hv. þm. endurtók ýmsar fleiri fullyrðingar sem ég nenni ekki að elta ólar við, m.a. að Blanda yrði ekki virkjuð án stóriðju og ég væri bara að stinga hausnum í sandinn, eins og hann orðaði það, ef ég væri að halda öðru fram. Ég skal ekki endurtaka neinar röksemdir sem afsanna þessa kenningu, ég hef gert það áður. En hv. þm. hefur flutt till. til þál. um virkjun Héraðsvatna við Villinganes ásamt fleirum. í grg. með þeirri till. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum er hins vegar af þeirri stærð, að hún fellur mjög vel að þeirri aukningu raforkumarkaðarins, enda gæti hún verið fullnýtt í þágu landsmanna allra á rúmu ári “

Þetta er hárrétt hjá hv. þm. og þarna viðurkennir hann sjálfur það sem ég hef sagt, að Blönduvirkjun, sem er 135 mw., verði fullnýtt í þágu hins almenna orkumarkaðar landsins á allt að 5 árum. Ég virði það við hv. þm., að hann skyldi láta þetta koma fram í grg. till. sinnar, því að það afsannar jafnframt allt hans tal um að Blanda verði ekki virkjuð nema stóriðja komi til.

Ég tel að sé ekki ástæða til þess fyrir mig að lengja þessar umr. Ég taldi rétt að vekja athygli á nokkrum af þeim staðlausn fullyrðingum sem er að finna í ræðu hv. þm., sem vænta hefði mátt að væri málefnaleg og vel undirbúin, vegna þess að hún var vélrituð og virtist þrautsamin. En eins o, ég sagði áðan, því var ekki að heilsa. Ræðan var að miklum hluta fleipur, en ekki málefnalegt innlegg í umr. um mikilvægt mál.