09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði ánægju af því að fylgjast með þessum síðustu sálarrannsóknum hv, þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Hann komst að því, að hér mundi vera á ferðinni hjá þm., sem mæltu gegn frv. hans, þrái, fastheldni, valdafíkn, metnaður, og ég man ekki hvað fleira hann nefndi. Það hefur oft viljað brenna við hjá hv. þm. að fara í stóra hringi þegar hann er að komast að kjarnanum, En ég get sagt honum í hreinskilni af minni hálfu hvað mér gengur til í fyrsta lagi, og það er ekkert annað en að standa vörð um virðingu og vegsemd Alþingis, en næst kemur það svo að reyna að standa vörð um heiður mín sjálfs einnig.

Hv. þm. sagði að ákúrur í garð blaðamanna Morgunblaðs og Dagblaðs væru ósanngjarnar. Það er vegna þess að þeir hefðu rétt fyrir sér, skildist mér af því sem hægt væri að færa til sanns vegar að við hefðum ákveðið laun okkar sjálfir, grunninn að þeim. En þetta er ekki sú forsenda sem gagnrýnendur nú hafa gefið sér. Þeir gáfu sér aðra forsendu, þá forsendu að við hefðum ákveðið breytinguna núna sem leiddi til þess, að við reyndumst með einna mestu hækkunina af öllum starfshópum þjóðfélagsins. Þetta er sú meginforsenda sem gagnrýnendur gefa sér og hún er röng. Og þegar færðar eru fram sannanir fyrir því, að hún sé röng, þá tilkynnir Morgunblaðið að það sé útúrsnúningur. Og ég vil spyrja: Ef við nú tækjum ákvörðun um að vísa öllum okkar málum til Kjaradóms, til hvers mundi það þá leiða? Þetta er höfuðatriði. Ég er sannfærður um að það mundi leiða til stórhækkaðra launa og þó einkum og sér í lagi stóraukinna kjara að öðru leyti, og þá mundi vera hægt til sanns vegar að færa að við hefðum ákveðið þetta sjálfir, rétt eins og hægt er að sanna það núna að við höfum ákveðið grunninn að launum okkar, og við lægjum þá aldeilis vel við höggi að mínum dómi, ég fæ ekki betur séð.

Það er svo annað mál, að það er e. t, v. erfitt að ræða þetta undir þessum kringumstæðum og kannske grunnhyggni og skammsýni af okkur að hafa ekki tekið okkur til og rætt þetta ítarlegar undir öðrum kringumstæðum, en ekki þegar við liggjum undir ósanngjörnum árásum gagnrýnenda. Það kynni að vera að menn ættu auðveldara með að átta sig á málinu og ná réttri fótfestu í því ef öðruvísi stæði á. Þetta skal ég játa fyrir mitt leyti, og ég hygg að þetta geti átt við um fleiri.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason verður að athuga það, að starf þm. á ekkert skylt við starf annarra opinberra starfsmanna. Það er gjörólíkt í flestöllum atriðum. Ég vil spyrja hv. þm., sem ólmaðist hér yfir þeirri fásinnu að við vildum sýna þá valdafíkn að ákveða laun okkar sjálfir, Hvers vegna er þá tekið hér fram í hverri einustu grein, að kveðið skuli upp úr um kjör okkar af Kjaradómi eftir tillögum þfkn. „Kjaradómur“ — með leyfi virðulegs forseta — „ákveður hámark húsnæðiskostnaðar, að fengnum tillögum þfkn.“ „Kjaradómur, að fengnum tillögum þfkn., ákveður dvalarkostnað yfir þingtímann fyrir alþm., sem búsettir eru utan Reykjavíkur“ o. s. frv. Til hvers mundi þetta leiða? Leiðir þetta þá til þess, að við séum óháðir, værum taldir gjörsamlega ofan og utan við ákvarðanir um okkar kaup og kjör? Í þessu efni er þetta gjörsamlega í ósamræmi við orð hans áðan.

Ég legg áherslu á það, að undirrót hinnar harkalegu gagnrýni á Alþ. nú varðandi kaup þm. og kjör er sú staðreynd, að Kjaradómur féll á þá leið, að sá flokkur sem hafði verið ákveðinn af okkur sjálfum, þó ég persónulega ætti ekki sæti á Alþ. þá, en af Alþ. á sínum tíma, hann reyndist hafa hækkað til jafns við það allra hæsta sem fundin verða dæmi um í launaflóðinu sem gengið hefur yfir. Ég fullyrði að þetta mundi ekki hafa skeð ef svo hefði til háttað, að þfkn. hefði haft með þetta að gera, en ekki tekið við niðurstöðum Kjaradóms. Þess vegna þýðir ekki fyrir hv. þm. Karvel Pálmason að spyrja um hvernig atkvæði hafi fallið í þfkn., vegna þess að þetta málsatriði er ekki til atkvgr. þar, heldur bókunar. Og þegar hv. þm. Eyjólfur Konráð heldur því fram, að þfkn. sé fær um það nú að breyta þessari niðurstöðu, þá er það beinlínis rangt. Ég hef borið þetta atriði undir fleiri en einn lögspeking, og þeir eru allir sammála um það, að enda þótt horfinn sé úr launatöxtum sá flokkur, sem tilgreindur er í 1. gr. þingfararkaupslaganna, þá liggi fyrir öll túlkun laganna á þann veg, að það sé þriðji hæsti flokkur, sem starfsmenn ríkisins taki laun eftir, og þess vegna sé hann ákveðinn þessi sem um ræðir. (Gripið fram í: Hverjir eru þeir lögfræðingar?) Það eru lögfræðingar sem áreiðanlega eru jafnvel lærðir í þeim fræðum og fyrirspyrjandi, án þess að ég sé neitt að lasta hans fræðimennsku. Ég skal ekkert um það segja, hvort þeir lögmenn eigi rætur sínar að rekja til húnvetnskra sauðaþjófa, það er annað mál.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð kallaði orð mín og orðræðu í garð blaðamanna skæting. Ég sé að ég hef ekki varpað nægilega þungum áherslum á orð mín, því að það áttu að vera skammir. Og þegar hv, þm. Ellert B. Schram segir að okkur sæmi ekki að vera með belging og stóryrði í garð blaðamanna, þá biðst ég engrar afsökunar á því þó ég gerist þungorður í garð manna sem bera á okkur tugthússakir. Grunur minn er sá, þó ég vilji ekki væna þessa hv. flm. um neitt, að þeir séu í orðfari eins og þessu að hneigja sig fyrir þessu mikla valdi, sem blaðamennirnir fara með, og að hinu leytinu þvo hendur sínar af því, sem skeð hefur í sambandi við laun alþm., með frv. sem þeir hafa enga ástæðu til að ætla af fyrri undirtektum að hljóti hér samþykki, og með því sé gerð tilraun til þess að þvo hendur sínar í augum almennings. Þessi hugsun er áleitin við mig, en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér í því.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur misheyrt það sem ég sagði um íslenska blaðamannastétt. Ég sagði að hún mundi vera verst mennta stétt þjóðarinnar, ég talaði ekkert um hvernig hún væri menntuð. Hún kann að vera þrælmenntuð, það er allt annað mál en það, hvernig hún er mennt. Það kunna að vera hálærðir menn þar í flokki. Hún sagði að af þeim væri krafist þekkingar, verklagni og siðgæðis, siðferðisþroska. Hún sagði, hv. þm.: siðferðisþroska. Þetta eru kröfurnar. Svo er spurningin um það, hvernig þeir verða við þessum kröfum, hvernig þeir rísa undir þessum kröfum, blaðamenn. Ef hv. þm. gæti nefnt mér eitt dæmi um það, t. d. úr Dagblaðinu, þar sem vart hefur orðið siðferðisþroska í þeim skilningi sem heiðarlegir menn skilja það, þá bið ég hann að gjöra svo vel að sýna mér það — bara eitt — síðan það hóf göngu sína.

Og eitthvað fannst aðalmanni, hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, á skorta um siðferðisþroska hjá þeim sem nýlega skrifaði í Þjóðviljann um aldrað fólk, eins og lesa má í grein eftir hv. þm. Magnús Kjartansson nýlega, þar sem hann bað viðkomandi að líta í spegil, þar sem hann gæti séð á ferðinni mann sem áreiðanlega hefur ekki orðið við þessum kröfum um siðferðisþroska sem eru gerðar til blaðamanna.

Ég las í dagblaðinu Vísi í sumar grein eftir ungan blaðamann, og greinin var í ramma. Hann fór í sálarrannsóknir, eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason gerði hér svo skemmtilega áðan, og grafalvarlegur skrifaði hann á þá leið, að þm, væru upp til hópa illa gefið misindisfólk með ríkar glæpahneigðir. Vefengi menn orð mín, þá skulu þeir fletta upp í dagblaðinu Vísi. Og hann heldur áfram og segir, að þetta sé svona og reyndin hafi sýnt, sögulegar staðreyndir færi heim sanninn um a'ð oft sé þetta svona í nýjum lýðræðisríkjum, að fyrstu áratugina komist svona menn á Alþingi eða á löggjafarsamkundu viðkomandi ríkis — hann er búinn að rannsaka þetta illa gefið misindisfólk með ríkar glæpatilhneigðir. Það er von að maður sé áminntur um að hafa ekki stóryrði í frammi, og einhvern veginn hef ég haft það á tilfinningunni að lægi við borð að seilst væri í bjölluna þegar mest hefur gengið á.

Hvað segir í leiðara Morgunblaðsins í gær? Hafa hv. þm. lesið það? Það stendur þar fullum fetum að hv, þm. séu skattsvikarar. Það stendur fullum fetum í þessu blaði. Og samt er það svo, að ég er gagnrýndur fyrir það að ég kveði fast að orði, þegar ég hlýt að svara slíkum aðdróttunum, glæpsamlegum aðdróttunum.

Þegar gagnrýnendur okkar í blaðamannastétt fóru að óttast að almenningur færi kannske að trúa því, að við hefðum ekki nú ákveðið laun okkar sjálfir, þá var farið að leita fanga annars staðar og það var farið að föngum í skattsvikin. Og það má mikið vera ef ekki á eftir að heyrast meira af þeim vettvangi.

Því er haldið fram af hv. þm, Ellert B. Schram, að málflutningur okkar hafi bent til þess, að við værum slegnir ótta, andstæðingar þessa frv. hans og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, og það værum við sem værum að hopa á hæl. Það lítur hver sínum augum á silfrið. En ég hlýt að vísa þessu frá mér og endurtek það, að mér gengur ekkert annað til en að standa vörð um heiður þessarar stofnunar, því það er um leið líftaug lýðræðis þessarar þjóðar að svo sé gert og að okkur takist það.

Ég vék að því í fyrri ræðu minni, að ég hefði í huga að bera fram frv. til l. um breyt. á I, nr. 4 frá 6. mars 1.364, um þingfararkaup alþm. Ég vil nú kynna þetta. Það er aðeins ein grein, og hún er á þessa leið, að 1, málsliður 1. mgr. 1. gr. laganna orðist svo:

„Alþingismaður nýtur launa samkvæmt þeim launaflokki í kjarasamningi um laun starfsmanna ríkisins er þfkn. ákveður, og greiðist 1/12 hluti árslauna mánaðarlega:

Það var ekki lengra. Og þetta þýðir það, að við hverfum aftur til gömlu hefðarinnar um það að taka ákvörðun um laun okkar einnig eins og við höfum gert um kjörin. Þetta má enginn skilja sem svo að mig sem formann þfkn. langi þar í vald. Því fer víðs fjarri, og ég er tilbúinn að kaupa það því verði að hætta sem formaður í n., ef menn vilja fallast á þessa aðferð, þar sem ég tel að hv. þm. reisi aðeins höfuðið í mót þessum ósanngjörnu árásum sem hið háa Alþ. verður fyrir. Það skal ekki standa á mér.

Ég verð að segja það, að mér finnst þetta sú aðferð sem við getum helst haft til að svara þessari ósanngirni á verðugan hátt. Ég hef hins vegar játað það og er ekkert umhendis að játa þann sannleika, að okkur var það ekki ljóst í þfkn. þegar við stimpluðum þessa ákvörðun, þessa niðurstöðu Kjaradóms, að við þm. fengjum þar með hækkun milli ára sem væri sú mesta og jafnhá því mesta sem gerst hefur. Ég býst við því, að ef við hefðum áttað okkur á þessu, þá hefðum við leitað til Alþ. um það að snarbreyta lögunum þegar í stað, áður en þessi niðurstaða var skráð. Ég geri fastlega ráð fyrir þessu. Hins vegar áttum við engra kosta völ að óbreyttum lögum. Á þetta legg ég áherslu. Og ég tel ekki til mikils út af fyrir sig að vera að þræta um þetta. Ég hef sagt hér, að menn mega, ef þeim sýnist, skoða það sem eftirgjöf og linkun af minni hálfu, að af því sem ég held að ef við hefðum ráðið þessu sjálfir, þá mundum við ekki hafa ákveðið hækkun milli ára svona mikla, þá get ég vel hugsað mér, eftir að við höfum fengið óskorað vald til að ákveða þetta, að taka nýja ákvörðun, — ákvörðun sem fæli í sér að hækkunin yrði ekki svona mikil milli ára. Úr því sem við mundum hafa gert þetta ef við hefðum haft vald til, hvers vegna þá ekki að gera það enda þótt aðstæður séu örðugar, því auðvitað verðum við úthrópuð fyrir það að við höfum verið barin til hlýðni af þessum blaða mönnum sem að okkur sækja. En fyrst málið liggur svona fyrir, þá er rétt að segja frá því eins og það er. Við höfðum ekki aðstæður til þess, og þess vegna varð niðurstaðan þessi sem Kjaradómur ákvað. En við skulum tala hreinskilningslega um hlutina, Það er enginn ávinningur fyrir okkur að þegja um þetta. Það bara sýnir mönnum væntanlega í sjónhendingu að við áttum ekki annarra kosta völ en að skrá þessa niðurstöðu Kjaradóms.

Ég ætla ekki að fara í frekari röksemdafærslur eða þrætur um þetta mál. Ég mun nú kanna hvers fylgis ég get aflað við hugmynd mína um lagabreytingu. Ég legg höfuðáherslu á það, að þessi stofnun hefur algjörlega sérstöðu í þjóðfélaginu, og þess vegna, þó að snarpar röksemdir væri á að hlýða hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, þá eiga þær samt sem áður ekki við vegna þessarar einkennilegu sérstöðu. Þær eiga ekki við. Við komumst aldrei út úr þessum — ég vil segja: ógöngum sem æruverðugir blaðamenn hafa komið okkur í í augum þjóðarinnar, nema vera menn til þess að ákveða þetta allt sjálfir, og það má gjarnan vera með þeim hætti, að það sé allt sameinað Alþingi sem geri það og leysi 7 menn undan þeirri kvöð. Við getum fundið aðferð til þess. En þá hygg ég að við getum þannig vandað til alls málatilbúnaðar að við getum tekist á við hvern sem er um réttmæti þeirrar niðurstöðu sem við komumst að. Ég hef það mikið traust á hinu háa Alþ. bæði í nútíð og í framtíð.