09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs áðan til að gera örstutta athugasemd, ekki til að svara máli eins né neins, heldur láta koma fram atriði sem ég hef ekki orðið vör við að rætt hafi verið hér áður. Í millitíðinni stóð upp hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, og krefur mig enn sagna. Það fer ekki ofsögum af því, að Karvel Pálmason hefur mikinn áhuga á afstöðu minni og líklega persónu minni líka. Ég var búin, að ég taldi, að gefa honum þau svör, sem ég taldi viðhlítandi, um afstöðu mína í þfkn. Ég neita því ekki og það sagði ég áðan, að ég hef haft nokkra sérstöðu innan þfkn. Það, að ég hef ekki verið harðari í að beita mér fyrir sjónarmiðum mínum í þá átt, að alþm. gættu hófs í launakröfum, ástæðan fyrir því er m. a. sú og kannske fyrst og fremst, að ég hef verið að hugsa um menn eins og hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, og aðra þm., sem hafa hliðstæðar aðstæður. Tilfellið er nefnilega að aðstæður þm. eru gróflega misjafnar og ég hef tekið trúanlega starfsbræður mína utan af landi, sem þurfa e. t. v. að halda tvö heimili, annað hér í Reykjavík, hitt austur, vestur eða norður á landi, og það eru þarfir og sjónarmið þessara starfsfélaga minna á Alþ. sem ég hef ekki viljað líta fram hjá. Þess vegna hef ég ekki beitt mér meira en ég hef gert og ekki óskað harðra bókana um afstöðu mína í þfkn. almennt. Þó er þar að finna eina, sem hv. þm. getur séð, ef hann vill hafa fyrir því að fletta upp í fundargerðabók þfkn. En þetta er skýringin, og ég vænti að ég verði ekki frekar krufin sagna um þetta. Annars vísaði ég áðan og geri það enn, ég vísa hv. þm. á að leita álits nm. í þfkn. Ég veit að þeir munu skýra satt og rétt frá. Þetta eru allt miklir öndvegismenn sem í þfkn. sitja.

Hitt atriðið, sem ég vildi að kæmi hér fram, af því að ég hef ekki heyrt það rætt síðan ég kom á fundinn, það er eitt af ákæruatriðum fjölmiðlanna, bæði Dagblaðsins og Morgunblaðsins, á hendur okkar þm., að við ætlum að krefjast sömu launa og þm. á Norðurlöndum. Um þetta hefur verið fjallað dag eftir dag á siðum þessara dagblaða. Ég skal játa að það var auðvitað alveg óþarfi að geta þessa í niðurlagi grg. okkar frá þfkn., og ég vil upplýsa það hér og leggja áherslu á það, að þá sjaldan að þetta hefur borið á góma í þfkn., kaup og kjör þm. á Norðurlöndum, þá hefur það ætíð verið á einn veg, að við höfum einróma hafnað því að miða laun okkar við þm. á Norðurlöndum, á þeirri forsendu, sem ég legg mikið upp úr, að vitanlega verðum við að miða launakröfur okkar við aðstæður í eigin landi, en ekki vitna í önnur lönd. Þar fyrir væri ekki ófróðlegt að bera saman kaup og kjör, sem aðrir þm. njóta, við íslenska þm. En ég vil leggja áherslu á að það hefur aldrei komið til tals, að við miðuðum okkur við launakjör þm. á Norðurlöndum né krefðumst hliðstæðra kjara. Þetta var megintilefnið til þess, að ég vildi gera þessa stuttu athugasemd. Karvel Pálmason kom inn í leiðinni.