09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að hv. 5. þm. Norðurl. v. er genginn í salinn, en ég varð undrandi á ræðu hans og þeirri miklu ádeilu sem hann hafði á aðgerðir þær sem ríkisstj. boðar í þessu frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslensku krónunnar. Ég hélt satt að segja að Alþb: menn mundu styðja stefnu ríkisstj. í einu og öllu, því í stefnu hennar kemur fram sá andi sem ég hélt að þeir hefðu starfað eftir, þ. e. eftir kenningum Marx-Lenins, en þar segir, með leyfi forseta — ég ætla fyrst að fara með hana á ensku: „From each according to his ability, to each according to his needs.“ Sem ég leyfi mér að þýða: „Að taka sem mest frá þeim, sem duglegir eru og einhvers mega sín, og afhenda skussunum.“ Má þá bæta við: og á þann hátt að gera alla að jafnmiklum öreigum. (Gripið fram í.) Þetta var góð þýðing. Viðbótin er kannske betri, enda er hún frá eigin brjósti.

En í 2. gr. frv. til l. um ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu segir, með leyfi forseta:

„Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar sjávarafurðir framleiddar fyrir 1 janúar 1978, skal hann greiddur útflytjanda á því kaupgengi, sem í gildi er, þegar skjöl eru afgreidd í banka við gjaldeyrisskil, að frádregnum 13% gengismun:

Athugum nánar hvað þetta ákvæði þýðir, að framleiðandi sjávarafurða, sem í dag á óseldar birgðir, selur væntanlega síðar þessar afurðir sínar og eignast við það gjaldeyri. Nú er framleiðendum sjávarafurða ekki heimilt að selja gjaldeyri til annarra en tveggja ríkisbanka, sem jafnframt ættu því að skoðast skuldbundnir til að kaupa. Ef svo er litið á, að útflytjendum er skylt að selja ríkisbönkunum gjaldeyri sinn, verður ekki séð að slík lagaskylda verði undanþegin 67. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Af þessu leiðir að mínu mati, að ekki er aðeins óheimilt að gera hluta söluverðs gjaldeyris upptækan, heldur er gjaldeyrisbönkunum skylt að greiða fullt verð fyrir hann. Með fullu verði er hér að sjálfsögðu átt við markaðsverð á söludegi. Hvort Seðlabankinn hefur skráð rétt gengi samkvæmt líklegu markaðsverði verður ekki rætt hér. Hitt vil ég benda á, að verði 2. gr. frv. samþ. sem lög, er verið að brjóta stjórnarskrána að mínu mati, og hlýt ég því að greiða atkvæði gegn þessu frv.

Eins vil ég benda hv. þm. á að eigendur óútfluttra sjávarafurða hljóta að leita réttar síns, ef reynt verður að gera eignir þeirra upptækar, og breytir þar engu um hvað áður hefur verið gert né hvernig fjármununum verður varið. Stjórnarskrárbrot geta aldrei orðið hefðbundin.

Án frekari athugana á réttmæti ráðstöfunar á gengismun treysti ég mér sem sagt ekki til þess að veita þessu frv, samþykki mitt. En vonandi fáum við tíma í n. til að athuga málið eitthvað betur.

Síðan ég kvaddi mér hljóðs hefur mér verið bent á að Hæstiréttur hafi fjallað um mál af þessu tagi og dómur verið felldur. Ég vil þess vegna vona, að þegar þetta frv. kemur í þá n. sem ég á sæti í, þ. e. fjh.- og viðskn., þá liggi fyrir þessi dómsúrskurður Hæstaréttar, og við getum þá fjallað um þetta atriði nánar þegar frv, kemur úr n, En þetta brýtur á móti minni réttlætiskennd, hvort sem Hæstiréttur hefur nú fellt dóm andstætt mínum huga í þessu máli eða ekki.