09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr. mjög, hafði raunar ekki ætlað mér að taka til máls við 1. umr., en var þó til þess knúinn vegna ummæla sem hér féllu undir lok þessarar umr.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hæstv. sjútvrh. gerði grein fyrir áðan um hið augljósa eignarhald á svonefndum gengishagnaði, að þar hafa sannarlega fleiri lagt hönd á plóginn en frystihúsaeigendur. Ég saknaði þess aðeins, eftir að hann hafði nefnt há augljósu staðreynd, að sjómennirnir eiga þarna náttúrlega einnig rétt, að hann skyldi ekki bæta við starfsfólkinu í frystihúsunum sem einnig hefur að því starfað að auka verðmæti þessarar vöru. Liggur í augum uppi að einnig þar er hópur sem ef út í það er farið á sitt óbætt hjá frystihúseigendum.

Ég kvaddi mér annars fyrst og fremst hljóðs vegna ræðu hv. þm. Odds Ólafssonar, þar sem hann gerði grein fyrir sérstökum vandamálum útgerðarinnar á Suðurnesjum, og hygg ég að bann hafi farið í hvívetna rétt með í þeirri ræðu sinni, En ég vildi undirstrika þetta atriði í ræðu hans mjög svo sterklega, að með ráðstöfunum eins og þessari gengisfellingu sem hér um ræðir er alls ekki verið að ráða bót á raunverulegum vandamálum sjávarútvegsins eða fiskiðnaðarins á Íslandi. Það er verið að ráða til bráðabirgða bót á hnekki sem atvinnuvegir landsins hafa beðið vegna óstjórnar — fjármálalegrar óstjórnar í landinu. Það er verið, ef svo má segja, að klastra upp á óhæfa stefnu í efnahagsmálum landsins yfirleitt, stefnu sem hefur öðru fremur nú í bili bitnað á sjávarútvegi og fiskverkun á landi hér. Vandamálin, hin raunverulegu vandamál, standa eftir og jafnvel enn verri en áður. Því vil ég leggja áherslu á þetta atriði í sambandi við ræðu hv. þm. Odds Ólafssonar, að hið sama blasir við annars staðar á landinu einnig. Þetta er ekki bara á Suðurnesjunum. Ég vil nefna dæmi úr kjördæmi mínu, Norðurl. e. Þar var hafin útgerð á djúprækjutogara á árinu sem leið, sem hæstv. sjútvrh. má best af vita, því hann hefur tilgreint útgerð þessara togara sem dæmi um nýja leið í útgerð hjá okkur á þeim tíma þegar við verðum að draga úr sókninni í þorskinn. Gengismunarsjóðurinn, sem myndast mun við þessa gengisfellingu, mun að vísu koma útgerð djúprækjutogarans á Dalvík að liði í því einu að hjálpa til að vega upp á móti skuldahækkun í erlendum gjaldeyri, en á engan hátt stuðla að því að leysa þann vanda sem þetta útgerðarfyrirtæki er í vegna sjálfs rekstrarins. Að því leyti kemur gengislækkunin, þessi aðgerð í efnahagsmálum, alls ekki að neinu liði fyrir útgerð þessa togara, nema síður sé.

Hv. þm. Oddur Ólafsson sagði, sem eflaust er rétt, að ein af ástæðunum fyrir því, að hallað hefur undan fæti fyrir útveginum á Suðurnesjum, væri sú, hversu þorskaflinn, aflinn af stóra þorskinum, hefur brugðist á þessum svæðum og hversu — ef svo má segja — form útgerðarinnar og hráefnisöflunarinnar hefði breyst við aflabrest á þorski og með hvaða hætti hinar ódýrari fisktegundir, eins og ufsi, keila, langa og karfi, hafa ekki getað komið í stað hins dýrara hráefnis. Ég saknaði þess að vísu, að hv. þm. skyldi ekki við þetta tækifæri greina frá annarri mjög veigamikilli orsök fyrir vandræðum útvegsins á Suðurnesjum og fiskverkunarinnar þar, en að því máli víkur hann í sérstöku þingskjali eða till. til þál. sem fjallað verður um í Sþ., en þar eru óholl áhrif Keflavíkurflugvallar, sú samkeppni sem sjávarútvegurinn á Suðurnesjum hefur orðið að heyja við Keflavíkurflugvöll, og mun, ef grannt yrði skoðað, hægt að finna enn fleiri orsakir fyrir sérstaklegum félagslegum vanda útgerðarinnar á Suðurnesjum.

Það er ekki aðeins að ríkisstj. mun ekki með þessari sérstöku ráðstöfun sinni, sem þó hefur verið hampað sem hinu mesta snjallræði til frambúðarlausnar á vandamálum sjávarútvegsins, — það er ekki aðeins að ríkisstj. sinni ekki þessum raunverulegu vandamálum sjávarútvegsins á Suðurnesjum og fiskvinnslunnar þar með þessu frv., heldur fæ ég ekki betur séð en að ýmsu leyti öðru og þá í tengslum við hina dauðu hönd Keflavíkurflugvallar, sem hvílir á öðrum atvinnurekstri á Suðurnesjum, ætli ríkisstj. beinlínis að ganga af honum dauðum.

Ég er ekki kominn til með að trúa því um fólk í byggðarlögum, þar sem sjávarútvegur og fiskvinnsla hefðu verið skipulögð á annan hátt, með öðrum sjónarmiðum og við aðrar félagslegar aðstæður en þær sem ríkja á Suðurnesjum, hvort sem útgerðarmönnum þar og frystihúseigendum er ljúft eða leitt og að því er virðist nú gegn vilja þeirra, að ekki væri hægt að verka ufsa, keilu, löngu og karfa og láta þann rekstur bera sig þrátt fyrir allt ef annarra ráða væri neytt, ráða sem útvegsmenn á Suðurnesjum og frystibúseigendur hafa ekki tök á og er ekki þeim um að kenna.

Ég heyrði sögu um það, studda vitnum, austan af landi þegar einn af fremstu fiskimönnum þar, Sigurður Magnússon á Eskifjarðar-Víði, fyllti skipið sitt af smáum fiski við Hvalbak á sínum tíma — fiski sem ekki þótti vænlegur til ábatavænlegrar vinnslu í frystihúsinu — og kom með þennan fisk til frystihúseiganda nokkurs á Eskifirði, við skulum ekki nefna nein nöfn í því sambandi, það gæti misskilist, og frystihúseigandinn sagði við Sigurð: „Þennan fisk tek ég bara ekki. Ég get ekki tekið svona fisk í vinnslu, það bara borgar sig ekki: Og þá sagði Sigurður Magnússon: „Ég skal nú segja þér það, Alli minn, að ég þakkaði bara guði hástöfum fyrir þennan fisk, að hann skyldi gefa mér hann. En hann vissi náttúrlega ekki hvar ég mundi leggja upp.“

Ég er þeirrar skoðunar, að við aðrar aðstæður, í öðrum byggðarlögum, þar sem hægt er að koma við annars konar vinnslufyrirkomulagi, væri hægt að verka þennan fisk, þennan ruslfisk sem þeim á Suðurnesjum er um megn að verka með ágóða, þar væri hægt að verka þennan fisk með ágóða. Þar kemur margt til og er ekki um að kenna dáðleysi útgerðarmanna eða frystihúseigenda á Suðurnesjum, heldur allt öðru, m. a. því, að vegna samkeppni Keflavíkurflugvallar og álversins í Straumsvík eiga þeir Suðurnesjamenn ekki þess konar völ á starfsfólki eða stöðugleika á vinnumarkaði sem nauðsynlegur er til þess að reka þessi fyrirtæki með ágóða.

Ég vil svo í lokin vekja athygli á því vandamáli sem lýtur að hinni nýju útgerð, nýjungum í útveginum hjá okkur, stöðu þeirra útgerðarfyrirtækja og þeirra manna sem berjast nú af eigin rammleik í bökkum við að afla nýs sjávarfangs á landi hér, að fyrir þeirra hag er ekki séð, nema síður sé, í þessu gengisfellingarfrv.

Iðnaðarnefndarmenn beggja deilda Alþingis voru í hádeginu í dag boðaðir á sérstakan fund í nýrri og glæsilegri skrifstofu Sölustofnunar lagmetis hér inni við Síðumúla, og þar var okkur greint frá vandkvæðum lagmetisiðnaðarins hér á landi og þá e. t. v. fyrst og fremst því, að skortur er á rækju til þess að leggja niður, vöru sem hægt er að nota til þess að tryggja sölu á öðrum tegundum lagmetisiðnaðar ef við getum boðið rækju með í kaupunum, Ástæðan fyrir því, að skortur er á rækjunni, sögðu þeir, er fyrst og fremst sú, að við höfum ekki sinnt djúprækjuveiðunum sem skyldi. Við eigum þennan eina djúprækjutogara þarna fyrir norðan með góðum aflaskipstjóra og þjálfaðri áhöfn. Þetta skip, sem er í eigu þeirra Dalvíkinga, stendur eignalega séð mjög vel, en hefur skort rekstrarfé. Í þeirri útgerð er við að eiga raunveruleg vandamál sem horfir til þjóðarheilla að leysa, vegna þess að ef vel tekst til um útgerð þessa skips, ef ekki er brugðið fæti fyrir útgerð þessa skips á djúprækjuveiðunum, þá er mjög sennilegt að við getum gert út fleiri af okkar togskipum á djúprækjuveiðar en þetta eina. Að þessu ákaflega þýðingarmikla máli í íslenskum sjávarútvegi er hreint ekki hugað fremur en að öðrum raunverulegum vandamálum útvegsins hér í sambandi við gengislækkunina núna.

Ég hefði óskað þess, að þann hinn sama dag sem gengislækkunarfrv. hefði verið lagt fyrir hv. Alþ., þá hefðu verið lögð fram önnur frv., sem að því hnigju að leysa raunverulegan vanda íslensks sjávarútvegs og fiskverkunar, og ekki látið sitja við það að leggja fram þetta mál, sem að því hnígur einungis að klóra yfir misgjörðir þeirra manna sem hafa farið með æðstu stjórn sjávarútvegsmála á landi hér síðustu árin og æðstu stjórn annarra mála.