25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

4. mál, kosningalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar eð hv. 1. flm. þessarar till. til þál., Ragnar Arnalds, vék örfáum orðum að þeim umr. sem fram fóru utan dagskrár við upphaf þessa þings, tel ég mér nauðsynlegt að leggja nokkur orð í belg.

Efni þeirra umr. var, svo sem þm. eflaust minnast, það, að ég fyrir hönd þingflokks Alþfl. beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort ríkisstj. hefði hugsað sér að taka upp á þessu þingi, sem væri síðasta þing þessa kjörtímabils, vandamál í sambandi við kosningar til þess að bæta úr því ranglæti sem núgildandi kosningaskipan augljóslega ylli, hvort sem það yrði gert með breytingu á kosningalögum einum eða með breytingu á stjórnarskránni. Ef ríkisstj. hefði ekki hugsað sér af sinni hálfu að gera þetta mál að þingmáli á þessu þingi, þá mundi þingflokkur Alþfl. flytja um það ákveðna till. sem ég gerði grein fyrir. Ástæðan til þess, að ég beindi um þetta fyrirspurn til hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstj. í stað þess að flytja þegar í stað till. um málið, var sú, eins og ég tók þá strax fram, að ég teldi hér um að ræða eitt mesta stórmál, sem gat komið til kasta Alþ., og ég teldi hér ekki vera um flokksmál í venjulegum skilningi þess orðs að ræða, heldur mál sem reyna ætti að ráða til lykta með samráði allra þingflokka. Þess vegna væri eðlilegt að ríkisstj. hefði forustu um slíkt samráð. Því aðeins gæti það leitt til niðurstöðu sem breytti gildandi skipan í réttlætisátt.

Mér og ábyggilega mörgum fleiri til mikillar ánægju svaraði hæstv. forsrh. spurningu minni algjörlega jákvætt. Hann sagði að ríkisstj. mundi hafa forgöngu um það nú á þessu þingi að efna til viðræðna milli allra 5 þingflokkanna um hugsanlegar breytingar á kosningaskipun og jafnvel stjórnarskrá, til þess að leiða í ljós hvort og hversu mikil samstaða gæti skapast um breytingar til úrbóta á því ranglæti sem nú væri um að ræða. Þetta urðu ekki aðeins orðin tóm hjá hæstv. forsrh. Ég leyfi mér að skýra hinu háa Alþ. frá því, að þegar s.l. föstudag síðdegis boðaði formaður þingflokks Sjálfstfl., stærsta flokks þingsins, til fundar með formönnum þingflokkanna til þess að hefja viðræður milli flokkanna um þetta mál. Það mun hafa verið tilgangur hans að ræða sérstaklega hvernig skyldi staðið að samningaviðræðum milli hinna 5 þingflokka um þetta mál. því miður gat ekki orðið af þessum fundi vegna fjarveru einhverra af hinum 5 formönnum þingflokkanna, ég veit ekki hverra. Ég hefði getað mætt þar fyrir mitt leyti, en þess vegna varð ekki af fundinum. En ég geri ráð fyrir því, að þessi vika muni ekki líða án þess að slíkur fundur verði haldinn, þannig að í raun og veru er mál þetta komið úr höfn. Það hafa þegar fyrir góða forgöngu formanns þingflokks Sjálfstfl., hæstv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens, hefur þessum umr. þegar verið hrundið úr höfn. Að vissu leyti má því segja að till. hv. þm., sem hann mælti hér fyrir, sé orðin óþörf, þó að ég sé að engu leyti að mæla gegn því að hún sé rædd, því að sannarlega fjallar hún um efni sem nauðsynlegt er að fjalla um og ég geri ráð fyrir að verði fjallað um í þeim viðræðum sem fram munu fara milli formanna þingflokkanna og kannske fleiri aðila frá þingflokkunum og hefjast munu á allra næstu dögum.

En ég vil þó, fyrst ég á annað borð tek til máls um þessa till., taka fram, að þótt það efni, sem hún fjallar um, sé þess eðlis að þar þurfi að gera breytingar, þá fjallar hún aðeins um lítinn hluta þeirra galla sem eru á gildandi kosningaskipan. Ég er algerlega sammála þeim grundvallarrökum sem komu fram í máli hv. 1. flm. till., að það þarf að auka áhrif kjósenda á það hverjir hljóta kosningu af sérhverjum framboðslista, jafnvel tryggja kjósendum úrslitaáhrif á það hverjir kosningu hljóta. En ég minni á að þetta er aðeins einn hluti vandans í sambandi við kosningaskipunina. Ég tel meginvandann vera ferns konar. Ég nefni fyrst það ranglæti í gildandi kosningaskipun sem fólgið er í misrétti kjósendanna. Við síðustu kosningar höfðu kjósendur í einu kjördæmi fjórfaldan rétt á við kjósendur í öðru kjördæmi. Og það hefur þegar verið skýrt frá því hér á hinu háa Alþ. í umr. utan dagskrár, sem fóru fram á sínum tíma, að í næstu kosningum mundi rétturinn verða fimmfaldur í einu kjördæmi á við það sem hann yrði í öðru. Það er augljóst að slíkt er í svo hróplegu ósamræmi við hugmyndir manna um lýðræði og þingræði að þessu verður að breyta, þó að ég skuli ekki fjölyrða um það hér, enda er það í sjálfu sér ekki til umr. með hverjum hætti kæmi til mála að breyta þessu.

Sem annað meginranglæti gildandi kosningaskipunar vil ég nefna, að það er engin trygging fyrir því í gildandi skipan að fylgi stjórnmálaflokka hér á Alþ. verði í samræmi við niðurstöðu kosninga. Að vísu er það svo, að í síðustu kosningum réðust mál þannig að stærð þingflokka er nokkurn veginn í samræmi við það fylgi sem flokkarnir hlutu í síðustu alþingiskosningum. En sú skipan mála, sem gert er ráð fyrir í gildandi kosningalögum, tryggir engan veginn sjálfkrafa að slíkt hljóti að vera, og það er mergurinn málsins. Það þarf að vera tryggt að niðurstaða kosninga geti ekki leitt til annarrar skipunar Alþ. en að nokkurn veginn sé samræmi á milli kjörfylgis flokks og þess þingstyrks sem hann fær að loknum kosningum.

Í þriðja lagi vil ég svo nefna það hróplega ranglæti sem að sjálfsögðu í því felst og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson vakti fyrstur athygli á hér við umr. utan dagskrár, að svo geti hæglega farið samkv. núgildandi skipan að 10-15 þús. kjósendur, sem greiða ákveðnum flokki atkv., fái engan fulltrúa á Alþ., — 10–15 þús. kjósendur gætu orðið fulltrúalausir á Alþ. samkv. þeirri skipan um kosningar sem nú gildir. Þetta er að sjálfsögðu í hróplegu ósamræmi við hugmyndir okkar um lýðræði og þingræði.

En í fjórða og síðasta lagi vil ég nefna, án þess með nokkru móti að vilja gera lítið úr því, þó að ég telji það síðast sem ágalla á gildandi skipan, að áhrif kjósenda á það, hver nái kosningu af lista, eru hverfandi lítil, eins og hv. flm. leiddi skýr og ljós rök að í máli sínu áðan. Þessu þarf að breyta. Það þarf að auka rétt kjósendanna og, eins og ég sagði áðan, jafnvel tryggja kjósendunum úrslitarétt um það, hver hlýtur kosningu af ákveðnum framboðslista í kosningum.

En sem sagt, í framhaldi af þeim umr., sem fram fóru utan dagskrár við upphaf þingsins, er komin hreyfing á þessi mál. Ég nefndi öll þessi atriði þegar ég gerði grein fyrir fsp. minni, og hæstv. forsrh. svaraði henni játandi. Þess vegna leyfi ég mér að taka það sem jákvætt svar um öll þessi atriði, að öll þessi fjögur atriði, sem ég nefndi, verði tekin upp í þeim viðræðum milli þingflokkanna sem mun verða efnt til á allra næstu dögum. Ég segi aftur, eins og ég sagði við umr. utan dagskrár, að ég vona að þær leiði til réttlátra breytinga á gildandi kosningaskipan á Íslandi.