09.02.1978
Efri deild: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir þrem tímum fór fram í. umr. um þetta mál. Þá gerði ég grein fyrir sjónarmiðum mínum í allítarlegu máli og sé ekki ástæðu til að fara að þreyta þm. á að endurtaka þá ræðu hér. Vissulega mætti fjalla hér um marga þætti þessa máls og þá einkum viðhorfin í efnahagsmálum almennt og þau efnahagsúrræði sem núv. ríkisstj. virðist vera í þann veginn að grípa til jafnhliða gengislækkun. Satt best að segja var von á því og því hafði verið lofað, að frv. um það efni yrði lagt fram í dag. En nú er dagur að kvöldi kominn og ekkert bólar á þessu frv. og berast ýmsar fregnir af erfiðum fæðingarhríðum og enginn sem raunverulega veit hvert verður efni til þess. Það er því bersýnilega ótímabært að taka efnahagsmálin almennt til umr. hér og eðlilegt að geyma sér það þar til það frv. kemur fram. Ég læt því nægja að greina hér frá nál. sem ég hef gefið út að loknum fundi fjh.- og viðskn., en það er svo hljóðandi:

„Frv. þetta er skilgetið afkvæmi stefnu núv. stjórnar. Gengislækkanir hafa verið aðalúrræði hennar við sérhverjum efnahagsvanda. Svo skefjalaust og ótæpilega hefur þessu úrræði verið beitt, að segja má að gengisfellingin sé orðin fíknilyf núv. stjórnar.

Til eru fíkniefni sem átt geta rétt á sér við sérstakar kringumstæður í smáum skömmtum. Sé hins vegar gripið til þeirra takmarkalaust verða þan vanabindandi og hafa vaxandi eiturverkanir í för með sér, eftir því sem þeim er oftar beitt.

Undanfarin þrjú ár eru mesta gengislækkunartímabil í sögu íslensks gjaldmiðils. Núv. ríkisstj. hefur þrisvar sinnum lækkað gengi íslenskrar krónu formlega. Hún hefur auk þess lækkað gengið með svonefndu gengissigi, og má í rauninni segja að slíkt gengissig hafi átt sér stað nær allan valdatíma stjórnarinnar.

Gengislækkunarstefna stjórnarinnar hefur leitt til þess, að nú er Bandaríkjadollar 156.1% hærri í verði gagnvart íslenskri krónu en hann var í ágúst 1974, þegar stjórnin kom til valda. Auðvitað hefur þessi mikla gengisbreyting leitt til gífurlegra verðhækkana hér á landi. Innfluttar vörur hafa af þessum ástæðum hækkað í verði um 150–170%. Gengislækkunarstefnan hefur líka haft sín áhrif á annað verðlag hér á landi.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum í ágústmánuði 1974 var framfærsluvísitalan 297 stig. Nú er hún orðin 934 stig og nemur því hækkunin 214%. Það þýðir að verðlag hér á landi hefur rúmlega þrefaldast í tíð núv. stjórnar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér staðfestingu á ákvörðun ríkisstj. að fella enn gengi íslenskrar krónu um 13% í einu skrefi, en það jafngildir hækkun á erlendum gjaldeyri um 14.9%. Ríkisstj. heldur sem sagt fast við gengislækkunarstefnuna, sem á undanförnum árum hefur leitt til einstæðrar óðaverðbólgu og síendurtekinna átaka á vinnumarkaði.

Ákvörðunin um að lækka gengið nú um 13% í einu skrefi í framhaldi af gengissigi undanfarandi mánuði er í raun aðeins formleg staðfesting á fyrri ákvörðun ríkisstj. í gengismálum. Við afgreiðslu fjárlaga í desembermánuði s. l. kom fram, að ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum hafði þá reiknað með 18% gengissigi a árinn 1978 og áætlað tekjur og gjöld ríkissjóðs samkv. því. Ríkisstj. hefur því fyrir alllöngu ákveðið mikla gengislækkun á árinu, annaðhvort í formi gengissigs eða formlegrar gengislækkunar.

Með formlegri gengislækkun, sem nú á að framkvæma, áformar ríkisstj, að gera jafnframt breytingar á þeim kjarasamningum sem gerðir voru með samþykki hennar á s. l. sumri, og á þeim samningum, sem hún gerði sjálf við BSRB fyrir rétt rúmum þrem mánuðum.

Ljóst er, að með þessu er stefnt að nýjum stórátökum á vinnumarkaðinum. Vandamálin verða síst minni en áður, þvert á móti verða þau meiri og erfiðari úrlausnar og hraði verðbólguhjólsins mun enn aukast.

Alþb. hefur ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum og fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar bent á aðra leið til lausnar á aðsteðjandi vanda: verðlækkunarleið.

Við erum algerlega andvíg efnahagsstefnu núv. stjórnar — ef stefnu skyldi kalla.

Ég legg því til, að frv. verði fellt:

Þetta var nál. mitt eftir meðferð málsins í nefnd.