25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

4. mál, kosningalög

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þær umr., sem átt hafa sér stað bæði hér á hinu háa Alþ. og á opinberum vettvangi utan þings milli stjórnmálamanna um það efni sem fjallað er um í þáltill. á þskj. 4 hafa að mínum dómi leitt í ljós að yfirgnæfandi vilji er fyrir því í öllum flokkum að koma því máli í höfn að aukinn sé réttur kjósenda til að hafa áhrif á hverjir veljast til setu á Alþ. í kosningum. Þessi samstaða um aukinn rétt kjósandans er svo ofarlega á haugi og hefur fengið slíkar undirtektir að ég tel það, eins og komið er, meginatriði málsins, hvort Alþ. og stjórnmálaflokkarnir hafa þau vinnubrögð um hönd að málinu verði ráðið til lykta og því komið í höfn á þessu þingi, svo að breytt kosningatilhögun komi til framkvæmda í næstu kosningum. Því legg ég sérstaka áherslu á þetta atriði, að ekki kemur fram í tillgr., sem til umr. er, að nefndin, sem þar er gert ráð fyrir að kjósa, skuli leggja till. sínar fyrir þetta þing, þótt fram kæmi í máli hv. 1. flm. og frsm., að það sé ætlun hans a.m.k. að koma málinu í höfn á þessu þingi.

Ég sé engin þau tormerki á þessu máli sem það ætti að geta strandað á ef nægur vilji er fyrir hendi. Að vísu þarf að velja um kosti, og þeim hefur verið lýst hér. Ég ætla engu við það að bæta, þó máske væri það unnt, og fyrir Nd. liggur þar að auki þegar frv. frá hv. 4. þm. Reykn. um breytingu á kosningalögum á þann veg, að kjósandinn ráði alfarið frambjóðendum af þeim listum sem flokkar leggi fram í stafrófsröð. Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á það í þeim fáu orðum sem ég ætla að hafa um þetta mál að sinni, að eftir það, sem á undan er gengið, tel ég að það varði álit Alþ. að á það reyni hvort málinu verði komið í höfn fyrir næstu kosningar. Ég tel að það sé þegar komið á þann rekspöl, eftir þeim upplýsingum sem hv. 9. þm. Reykv. hefur gefið um viðræður milli flokkanna að forgöngu ríkisstj., að allar líkur séu á að þessu marki verði náð ef skaplega er á málum haldið í slíkum viðræðum og í samræmi við þann vilja sem menn hafa tjáð í orði á Alþ. og utan þess.