10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

114. mál, almannatryggingar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur verið af hálfu hv. 1. flm. nefnt flest það sem segja þarf í þessu máli, og við höfum fengið góða aðstoð í málinu frá hv, 5. þm. Reykv., Ragnhildi Helgadóttur, með þeirri sérkennilegu ræðu sem hún var að enda við að fara með hér yfir okkur áðan. Hún var að vísu býsna einkennileg og hófst á því, að sjómannastéttin ætti allt gott skilið og vegna eðlis starfsins væru sjómenn vel að flestu góðu komnir. En síðan tóku við tilvitnanir í embættismenn í stofnunum hér í bænum þar sem hvert úrtöluerindið rak annað. Það eru þessir embættismenn, sem virðast hafa haft þau áhrif á hv. þm., að sérstaða sjómanna og erfitt starf þeirrar stéttar, sem allt átti gott skilið, átti það ekki lengur.

Mér óar við að endurtaka þau orð sem þessi hv, þm, hafði hér yfir. Ég verð að segja það, að að mínum dómi er það hreint hneyksli í sambandi við umr. um þetta mál, sem við erum að flytja hér, að segja þau, þó að höfð hafi verið eftir öðrum. En maður skildi vel hvernig það átti að falla inn í málið, að það væri alveg sama upp á hverju væri stungið í sambandi við almannatryggingar hér í þinginu, það færi allt í gegn, hversu vitlaust sem það væri. Þarna þarf ekki að lesa milli línanna. Það var greinilegt, að þetta var sending til okkar sem erum að reyna að koma áfram sjálfsögðu réttlætismáli, og við neitum að láta embættismenn úti í bæ senda hingað úrtölutexta um að það sé ekki rétt aðferð, það megi finna á þessu ýmsa vankanta. Þá er það þingsins að sníða þá af, en ekki að víkja undan þessum mönnum eða gerast sendiboðar þeirra og málpípur hér á hinu háa Alþ. Það er Alþ. sem ræður og á að segja þessum embættismönnum fyrir, en ekki að dansa eftir þeirra pípum.

Það þarf vissulega ekki að vitna mikið í umsagnir í þessu máli. Það hefur verið vitnað hér í plagg sem ég tel að skipti langmestu varðandi þessi efnisatriði, og það er nái. frá 1375 frá heilbr.- og trn., þar sem segir, með leyfi forseta, að lokum, eftir að talað hefur verið um að þetta væri mikið réttlætismál, og undir þetta skrifa fulltrúar allra flokka í n., að hér sé mikið réttlætismál á ferðinni, og að lokum segja þeir, með leyfi forseta:

„N, er því sammála um að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess að málið fái þar frekari athugun“ — nú kemur aðalefnið — „sem leiði til jákvæðrar niðurstöðu þess.“

N. er sem sagt öll sammála um að það sé nauðsynlegt að leysa þetta mál á jákvæðan hátt, þ. e. a. s, hún samþykkti málið í raun, en álítur að það þurfi að kanna það aðeins betur, en þó aðeins í þeim tilgangi að það nái fram að ganga. Þetta er kjarni málsins. Og það er ekki mikil glöggskyggni sem er að baki þeirra orða sem hv. síðasti ræðumaður flutti hér áðan, ef þetta er ekki alveg ljóst,

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frv. efnislega, þar sem það hefur verið gert af hv. þm. Karvel Pálmasyni og það hefur verið rökstutt einnig af hv. 1. flm. En ég vil leyfa mér að benda á að það, sem hér er verið að ræða um, er að tekið sé tillit til sérstöðu sjómanna í þessu þjóðfélagi og metið sé að verðleikum þeirra erfiða og hættulega starf, sem þeir vinna, og hvernig starfsþrek þessara manna er eftir að hafa stundað sjómennsku í 35 eða 40 ár. Þeir sjómenn, sem nú eru farnir að nálgast þennan aldur og komnir yfir hann og stundað hafa sjó þennan tíma, hafa vissulega kynnst mörgu misjöfnu í störfum sínum, því að á þessum tíma hafa orðið miklar breytingar í íslenskum sjávarútvegi og öllum aðbúnaði, veiðiaðferðum o. s. frv. En það má vera ljóst, að þessir menn hafa unnið langan og erfiðan starfsdag og lengst af við mjög slæman aðbúnað og auðvitað langoftast fjarri heimili sínu. Þessir menn eru slitnir fyrir aldur fram og það oft langt fyrir aldur fram og þurfa ekki að vera sextugir til. Það er margur sjómaðurinn, sem hefur unnið við þetta starf, sem er útslitinn um fimmtugt, en ekki sextugt. Það er þetta fólk ásamt því fólki, sem vinnur við úrvinnslu þessa afla í landi, sem er undirstaða þessa þjóðfélags. Vinna þessara manna og framlag til þjóðarbúsins stendur undir öllum efnahag hins íslenska lýðveldis. Þeir eru búnir að draga þann feng að landi sem allt líf í landinn byggist á.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt um þetta í fáum orðum, sýnist mér að með þessu frv. sé verið að viðurkenna að nokkru framlag þessara manna með því að þeir komist fyrr á eftirlaun annars vegar og í annan stað að þeir, sem hafa unnið í 40 ár, fái nokkru hærri greiðslur en aðrir, sem þeir hafa vissulega unnið fyrir. Mér finnst að það sé kominn tími til þess, að sjómannastéttin fái viðurkenningu, hvort sem er í þessu formi eða öðru, og í þessu tilfelli með því að viðurkenna að sjómenn eru búnir að slíta sér út fyrr en aðrar stéttir, og það er kominn tími til þess, að þeir fái viðurkenningu einhvern tíma í annan tíma heldur en bara á sjómannadaginn, þar sem prúðbúnir herramenn úr landi flytja yfir þeim fagrar ræður um hetjur hafsins og allt þar fram eftir götunum, viðurkenningin komi núna fram í raunverulegum og jákvæðum aðgerðum í þeirra garð.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, að hún kunni að meta mikils störf sjómanna, þó að hún drægi það meira eða minna til baka með öðrum hætti síðar. Hún var svo að tala um að það kynnu þá að vera aðrar stéttir sem kæmu þarna á eftir, minntist m. a. á að það gætu verið útslitnir menn eftir þennan tíma og miklu fyrr sem ynnu í landi. En mér blöskraði alveg þegar hv. þm. fór að taka samanburð af þeim sem ynnu í lofti, í sparipeysunni árið um kring. Jafnvel þó að starfsævin þar sé ekki löng, þá hafa þeir fullt þrek eftir sem áður, jafnvel þó að þeir þurfi að hætta að fljúga. Þegar þeir missa loftferðaskírteini vegna þess að þeir hafa tapað sjón eða öðru, sem þeir nauðsynlega þurfa að hafa, þá fá þeir missi þennan bættan með miklum fjárupphæðum. Það fá sjómenn ekki fremur en annað, þannig að þarna er verið að vitna í hluti sem eru eins fjarri því og hér er um að ræða eins og mögulegt er.

Varðandi þann hluta frv., sem varðar ekkjurnar, þá vil ég segja það, að það gildir líka svolítið annað um sjómannskonuna heldur en margar aðrar konur í þessu þjóðfélagi. Sjómannskonan með mann sinn við vinnu fjarri heimili sínu meginhluta ársins og jafnvel allt árið þarf ekki aðeins að sinna störfum hinnar venjulegu húsmóður, eins og stundum er sagt. Hún þarf ein að sjá um uppeldi barna og forsjá heimilis og þarf einnig að taka að sér fjöldamargt sem heimilisfeðurnir gera, þeir sem vinna í landi og geta sinnt heimili sínu að meira eða minna leyti. Þar er um svo fjölmargt að ræða sem bætist á þessar konur umfram aðrar, að ég sé enga ástæðu til þess að rekja það hér, Ég treysti því að sjálfsögðu, að hv. alþm. viti allt um það mál og þurfi ekki að lesa þann texta yfir þeim. Auðvitað vita þeir það. Þess vegna finnst mér ekki heldur að ekkjur sjómanna séu á sama báti og aðrar í landinu, heldur eigi að njóta fríðinda fyrir störf sín, vegna þess að þau eru öðruvísi og erfiðari og margþættari heldur en störf annarra kvenna.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja um þetta miklu meira, nema tilefni gefist til. En ég vona svo sannarlega að hv. alþm, reyni nú að láta allar úrtölur, allan úrtölusöng og embættismannakvak úti í bæ ekki villa um fyrir sér. Það erum við sem ráðum. Séu einhver vandamál við þetta í einhverjum praktískum atriðum, þá er það okkar að segja til um hvernig það á að skiljast og embættismannanna að fara eftir því.