10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

114. mál, almannatryggingar

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að mér kom nokkuð á óvart sú afstaða sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildar Helgadóttur. Ég hefði gjarnan viljað að þessi afstaða hv. þm. hefði legið fyrr fyrir varðandi þetta mál, ekki síst vegna þess að þessi hv. þm. á sæti í heilbr.- og trn. þessarar d. og ég minnist þess ekki, að þessi afstaða þm. hafi komið fram í umr. í n. Er það þó að mínu viti alleinkennilegt, hafi hv. þm. verið sömu skoðunar þegar málið var flutt síðast og rætt í heilbr: og trn., en ekki látið þessarar afstöðu sinnar getið.

Það er að vísu rétt og kemur fram í nál. heilbr.- og trn., þegar hún skilaði þessu máli frá sér, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var ekki viðstödd þann fund. En málið hafði áður verið rætt í n., og næg tækifæri höfðu gefist til þess hjá hv. þm. að gera grein fyrir þessari sinni afstöðu til málsins. Mér þykir þessi afstaða hv. þm. því seint á ferðinni, nema þá því aðeins að hér sé um að ræða breytta afstöðu frá því sem áður var, en aldrei hefur það komið fram.

Það er út af fyrir sig ekkert við þá skoðun hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur að athuga, að henni þyki ekki skynsamlegt að gera undantekningar í þessum efnum, þ. e. a. s. henni þyki ekki skynsamlegt að gera undantekningar á því í almannatryggingalögunum, að sjómönnum, sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi í 35–40 ár, verði ívilnað eða neitt verði betur gert við þá varðandi greiðslu úr almannatryggingum heldur en hina, sem hafa stundað önnur störf, miklum mun þægilegri, mörg hver betur launuð og í alla staði a. m. k. viðkunnanlegri vinnustaði en sjómenn hafa þurft við að búa þau 35 eða 40 ár sem þeir hafa stundað sjómennsku. Þetta er út af fyrir sig skoðun sem ekkert er við að segja. Þetta getur hv. þm. allt gert upp við sjálfa sig, þessa skoðun sína. En hafa ekki verið gerðar undantekningar í þessum efnum? Er það ekki undantekning t. d. sem þessi hv. þm. beitti sér fyrir á sínum tíma varðandi greiðslu fæðingarorlofs? Var ekki þar verið að gera upp á milli þegna innan þjóðfélagsins? Er ekki stór hópur kvenna í landinu í dag sem nýtur ekki greiðslu vegna barnsburðar? Hver gerði till. um að gera hér upp á milli íslenskra kvenna annar en þessi hv. þm.? Ég er ekki að ásaka hana fyrir það. En mér sýnist þetta vera tvískinnungur í málinu. Þetta mátti gagnvart hluta íslenskra kvenna, en útilokað er að það megi gagnvart sjómannastéttinni allri. Þetta sýnir einfaldlega hug þessa hv. þm. til sjómanna. Það fer ekkert á milli mála. Undan því getur þessi hv. þm. ekki skotið sér á neinn hátt. Þetta er hennar hugur til sjómanna í landinu.

Og eru ekki aðrar undantekningar til varðandi greiðslur? Hvað með opinbera starfsmenn? Hafa ekki opinberir starfsmenn verðtryggðar lífeyrisgreiðslur úr sínum lífeyrissjóði? Ætli þessi hv. þm. hafi ekki á sínum tíma staðið að því að einhverjum hluta og borið hluta af þeirri ábyrgð? Og hvað með hina fjöldamörgu toppembættismenn í kerfinu á Íslandi sem hafa margfaldar greiðslur úr lífeyrissjóðum? Hefur ekki þessi hv. þm. staðfest það líka, a. m. k. með þögninni hér á Alþ.? Ekki hefur hún flutt brtt. um það. En þegar komið er að því að hreyfa máli sem er réttlætismál í augum allra sanngjarnra manna, — réttlætismál sem lýtur að því að veita íslenskri sjómannastétt viðurkenningu eftir 35–40 ára starf á sjó, þá koma hér menn upp — ég vona ekki fleiri en þessi hv. þm. — og segja að þeir telji ekki eðlilegt, ekki skynsamlegt að gera hér undantekningar á varðandi þessa stétt. Þetta verður auðvitað ekki skilið nema á einn veg. Þetta er andstaða við að þetta verði gert. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja. En það er gott að vita það. Það hefði verið enn þá betra að vita það fyrr, því að það hafa verið næg tækifæri til þess fyrir hv. þm. að gera grein fyrir þessari afstöðu sinni.

Hv. þm. sagði líka: Er ekki skynsamlegra að auka heldur lífeyrisrétt eftir öðrum leiðum? Hverjar eru þær leiðir? Það væri gott að fá um það hugmyndir frá hv. þm., hvaða leiðir hann hefur í huga aðrar en þessa, ef hann á annað borð er á því að láta sjómenn að þessu leyti njóta einhverrar viðurkenningar. Og ég segi enn og aftur: Nægur tími hefur verið hjá þessum hv. þm. allt frá árinu 1970, að málið var fyrst flutt hér á Alþ., til þess að benda á þessar aðrar leiðir sem bann vildi fara varðandi þetta og þá flytja um það frv. eða brtt. við frv. Ekkert slíkt hefur gerst. Að þessu leyti tel ég að hér sé verið að skjóta sér á bak við það að verulegu leyti að segja hreint: Ég er andvíg þessu, vil ekkert með þetta hafa, en bendi hins vegar á eitthvað annað sem ekki er áþreifanlegt.

Ég hef ekkert sérstakt við því að segja, þó að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem á sæti í tryggingaráði, vitnaði hér í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins sem gefin er af tryggingaráði. Það er ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En það er ekki þar með sagt, að við eigum í einu og öllu að fara eftir því, hvorki sem þessi aðili segir í umsögnum sínum um mál eða aðrir. Við eigum fyrst og fremst að gera það sem okkur sjálfum finnst rétt og sanngjarnt, hvað svo sem líður öðrum úti í bæ, þó að þeir séu kosnir til starfa á Alþ., eins og hv. þm. vék að áðan. Það breytir engu. Það er ágætt að vita um afstöðu tryggingaráðs til þessa máls. En að það eigi að vera alfarið leiðarljós okkar að taka einvörðungu afstöðu samkv. því, það er ekki aldeilis svo að mínu áliti.

Hv. þm. sagði líka varðandi undantekningarregluna, að það væru undantekningar í þessum tilfellum líka varðandi einstaklinga eða aðila sem störfuðu á landi og í lofti. Vissulega er hægt að finna undantekningar í öllum tilvikum. Þýðir þetta t. d. það hjá hv. þm. að við eigum að breyta tryggingalöggjöfinni á þann veg að allir, sem eru orðnir sextugir, fái ellilífeyrisgreiðslu þá? Vill hún hafa þetta mark það sama um alla, eða er hún bara andvíg því að þetta sé gert fyrir sjómenn?

Ég hef oft sagt það hér áður og það á við einnig núna, að með svona tali, að það megi aldrei gera undantekningar í vissum tilvikum, sem er hægt að færa fullkomleg rök fyrir að eru réttlætanlegar og eðlilegar, ef það má ekki gerast og það er alltaf sagt: við skulum láta alla njóta alls, þá eru menn að koma í veg fyrir að vissar réttarbætur nái fram að ganga að því er þetta varðar. Við vitum ósköp vel, að það verður ekki á næstunni sem t. d. allir, sem stundað hafa vinnu — skulum við segja, í 35 ár eða 40 ár, fái þá hækkun sem hér er lagt til. Það hygg ég að mönnum þætti of rúmt, ef slíkt væri lagt til. Hér er þess vegna verið að takmarka þetta við ákveðinn hóp þjóðfélagsþegna, sem ég átti ekki von á öðru en allir væru sammála um að hefðu lagt það af mörkum til þjóðarbúsins að þeir væru þess fyllilega verðugir að njóta þessa. Þetta ætti öllum skyni bornum mönnum, sem fylgst hafa með þjóðlífi allt frá öndverðu, að vera ljóst.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði lagt rúman skilning í afstöðu Alþ. til málsins. Ég lagði ekkert rúman skilning í það. Það er staðreynd, sem ekki verður fram hjá gengið, að málið var rætt hér á Alþ. haustið 1974, fyrst þegar frv. var lagt fram, og síðan afgr. í heilbr.- og trn. algerlega shlj. með undirskrift fulltrúa úr öllum flokkum og afgreitt hér í d. shlj. Það er sú afgreiðsla sem málið hefur fengið. Mér er fyllilega ljóst að málið var ekki endanlega afgreitt í þinginu, enda tók ég það skýrt fram fyrr í dag, að málið hefði verið afgreitt úr heilbr: og trn. og samþ. hér í Nd. Alþ. shlj. án nokkurra mótatkv. eða mótbára þá.

Þá sagði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir: Ég er ósammála því, að sextugar konur teljist gamalmenni. — Það má vel vera. Ég skal engan dóm leggja á það. Það getur verið misjafnt, hvað menn telja gamalmenni, eftir útliti og öðru. Það er ekki það sem við erum að ræða um hér, hvort þessi hv. þm. eða einhver annar vill telja þennan eða hinn gamalmenni á þessum eða hinum aldrinum. En þá mætti kannske spyrja: Á hvaða aldri telur þessi hv. þm. konur vera gamalmenni? Það væri gott að fá að heyra það.

Nei, ég ítreka það, að mér urðu mikil vonbrigði að því að heyra ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Ég átti ekki von á því, allra síst eftir að málið hafði verið hér til umfjöllunar, og til umfjöllunar í n. sem hún átti sæti í, og ekkert slíkt hafði komið fram.

Ég skal til frekari skýringar á því, sem hv. þm. spurði um áðan varðandi lokasetningu í 1. gr., breytinguna sem við leggjum til, þar sem segir að fullan ellilífeyri beri einnig að greiða ekkjum eftir að þær verða 60 ára, að hér eigum við að sjálfsögðu við sjómannsekkjur. Það hefur fallið niður og það verður tekið fram. Það leiðréttist hér með. En ég veit ekki hvort það leysir nokkurn vanda, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vilji frekar viðurkenna sjómannsekkjur en aðrar gamlar um sextugt. Ég á ekki von á að það breyti neinu varðandi stuðning hennar við málið. En sé svo, þá leiðréttist það hér með. Það er átt við þær.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir viðhafði þau ummæli í sinni fyrri ræðu og var að vitna til að einhver ágætisþm., að því er mér skildist, hefði sagt hér í hliðarsölum Alþ., að það væri í raun og veru sama hvað hér væri borið fram á Alþ. að því er varðaði leiðréttingu á tryggingalöggjöfinni, það væri í raun og veru sama hversu vitlaust það væri, það væri allt saman samþykkt. Ég veit ekki af hverju hv. þm, hefur verið að vitna til þessa, nema þá að það hefur átt að setja í samhengi við það, að þetta væri svo vitlaust mál að líklega yrði það samþykkt. Ég vil þó ekki ætla hv. þm. að það hafi verið meiningin. En vissulega mátti í áframhaldi af þessu skilja það svo. En ég vona að svo hafi ekki verið.

Nei, ég heiti á þm. að þeir láti þetta þing ekki líða án þess að þetta mál fái afgreiðslu, jákvæða afgreiðslu úr þinginu. Mér er vel ljóst, að það kann að vera eitthvað í þessu frv., sem hér er lagt til, sem þörf er á að breyta til hins betra. Það er mér og ég vænti ekki frekar mínum meðflm. svo fast í hendi, að ekki sé kostur á slíku. Meginatriðið er í okkar huga að fá þessa viðurkenningu til sjómannastéttarinnar, að því marki sem þetta mundi ná til hennar eða einstaklinga innan hennar, — fá þá viðurkenningu af hálfu þjóðfélagsins, að starf þeirra eftir 35–40 ára sjómennsku sé metið að hluta að verðleikum. Ég segi að hluta, því að ég a. m. k. tel að sjómenn í þessu tilfelli, sem hér er verið um að tala, ættu fyllilega skilið miklum mun meiri viðurkenningu en hér er um að ræða, því að það er staðreynd eins og hér hefur verið tekið fram, að sjómannastéttin er fyrst og fremst sá burðarás sem íslenskt þjóðfélag hefur byggt á frá aldaöðli og á því hefur engin breyting orðið. Það má miklu frekar segja, að það er smánarblettur á íslensku þjóðfélagi að það skuli ekki hafa betur gert við þessa þjóðfélagsþegna en raun ber vitni heldur en halda því fram, að þetta sé svo hættulegt að hér megi ekki gera undantekningu.

Ég bið því hv. þm. að skoða vel hug sinn um það, hvort í meginatriðum geti þeir ekki fallist á þessa breytingu okkar um að láta nú af þessu verða. Komi það í ljós, að einhverjir tæknilegir örðugleikar séu á framkvæmd málsins með þessum hætti, þá verður það ekki vandamál sem ekki er hægt að greiða úr til þess að af þessu geti orðið. Ég a. m. k, lýsi því yfir fyrir mitt leyti, og ég hygg að svo sé einnig um meðflm. mína að málinu, að við erum til viðræðu um breytingar á málinu, en nr. eitt í okkar huga er að efnislega nái þetta mál fram að ganga og að efnisatriðin komi í ljós og þeim verði fullnægt. Það er fyrst og fremst það sem við erum um að hugsa, og það er fyrst og fremst það sem við teljum í alla staði réttlætanlegt og síður en svo óskynsamlegt að gera þessa undantekningu, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði hér áðan. Það er í mínum huga miklu frekar skynsamlegt að gera þessa undantekningu. Auk þess að þessir menn eiga þetta skilið sem viðurkenningu, þá er ekki ástæðulaust að ætla, að með svona breytingum væri hægt að laða fleiri menn til þessara starfa heldur en nú eru. Eða hver trúir því, að það sé einungis um að ræða einhvers staðar á milli 5 og 6 þúsund íslenska sjómenn sem eru burðarásar þess alls sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi og þjóðfélagið byggir allt sitt á — einungis milli 5 og 6 þúsund manns, sem í meginatriðum halda uppi öllu kerfinu? Það er því vissulega ekki þörf á öðru frekar en að stuðla að því, að menn vilji gera þetta starf að sínu, og einn þátturinn í því gæti verið sá, að Alþ. sæi sóma sinn í því að láta þá breytingu, sem við leggjum til að gerð verði, ná fram að ganga. Það skiptir ekki mestu, a. m. k. ekki í mínum huga, hvort þessi eða hinn þm. er frá kjördæmi þar sem sjómennska er stunduð eða ekki. Þeir hv. þm., sem eru frá kjördæmum þar sem sjómennska er ekki stunduð, lifa líka á sjómannastéttinni, að hún blómgist, ekki síst, þannig að þetta er ekki spurning um þm. úr sjávarkjördæmi eða ekki. Þetta er spurning um það, hvort þjóðfélagið ætlar að gera ráðstafanir til þess að búa þannig að þeim einstaklingum, sem vilja gera þetta að sínu lífsstarfi, að sem flestir fáist til þess að stunda það, því að það er svo mikilvægt, að það er beinlínis lífsnauðsyn fyrir íslenskt þjóðfélag að fá þar til starfa fleiri en nú er. Með því tryggjum við hvað best afkomuöryggi allrar íslensku þjóðarinnar.