10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

114. mál, almannatryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég held að þm. ættu að geta rætt æsingalaust um það mál sem hér er til meðferðar. Ég held að það væri hollt fyrir suma hv. þm. að skrifa hjá sér hvað aðrir segja hér í umræðum, þannig að ekkert fari á milli mála hvað hv. þm. segðu hér úr stólnum, Á það sérstaklega við í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns, Karvels Pálmasonar. Hann hefur greinilega ekki hlustað nægilega vel á allt það sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði. Hún lýsti því aldrei yfir í sinni ræðu, að hún væri á móti því efnislega að sjómenn fengju það sem umrætt frv. gerir ráð fyrir að þeir fái, ef það verður samþykkt. Hún sagði eitthvað á þá leið m. a., að það væri ekki nóg að lýsa stuðningi við ákveðna hópa í þjóðfélaginu um mál sem fela í sér fjárframlög eftir ákveðnum leiðum, ef aðrar skynsamlegri leiðir kæmu til greina. Nefndi hv. þm. sérstaklega í tengslum við þetta mál, hvort það væri ekki eðlilegra að tengja það t. d. Lífeyrissjóði sjómanna. Þannig tók hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir alls ekki afstöðu á móti efni þessa máls. Hún velti því hins vegar fyrir sér, hvort ekki gætu verið aðrar skynsamlegri og betri leiðir til þess að fá því framgengt. Það er auðvitað aðalatriðið. Ég mun víkja nokkuð að því á eftir, hvaða leiðir kæmu til greina að mínu áliti.

En fyrst farið er að tala um stöðu sjómanna yfirleitt á Íslandi vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að þar sem við lifum nú einu sinni í stéttaþjóðfélagi þar sem stéttum og hópum er gert mishátt undir höfði, að ég hef alltaf litið á sjómannastéttina sem forgangsstétt í íslensku þjóðfélagi. Því miður hefur sú stétt ekki fengið að njóta þess, að hún á að vera forgangsstétt. En þó vil ég segja það, að á seinni árum hefur það breyst mjög til bóta, og væri hægt að nefna mörg dæmi þess. Það er ekki sambærilegt hvað íslensku sjómannastéttinni vegnar betur í dag almennt séð, miðað við það hvernig henni vegnaði fyrir nokkrum áratugum. Auk þess býr sjómannastéttin við miklu betri vinnuaðstæður, skipakost o. fl. heldur en áður þekktist, svo að ekki sé talað um vinnutíma og þess háttar.

Þá hefur það einnig verið mjög mikilvægur þáttur í því að bæta stöðu sjómanna, sem snýr að því þegar þeir eldast og koma í land. Er þáttur Dvalarheimilis aldraðra sjómanna til fyrirmyndar. En aðrir hv. þm. þekkja þá sögu betur en ég og vita hvað vel hefur verið búið að öldruðum sjómönnum á þeim vettvangi. En ég get tekið undir það, sem búið er að segja hér í öllum ræðum eða flestum, að sérstaða sjómanna er mikil. Starf þeirra er erfitt. Það er rétt, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði, það þekki ég sem er fæddur og uppalinn í sjávarplássi, að yfirleitt eru sjómenn, sem stunda sjómennsku að staðaldri, orðnir útslitnir menn um fimmtugt. Þessir menn eiga allt gott skilið. Þeir eiga það einnig skilið af hv. þm., að mál þeirra séu rædd með þeim hætti að öllum öfgum sé sleppt, en hins vegar sé lögð áhersla á að þm. sameinist um það sem horfir til bóta í þeirra málum.

Varðandi það, hvort hér yrði um slæmt fordæmi að ræða, þótt efni þessa frv. yrði samþykkt, annaðhvort í því formi, sem það liggur hér fyrir, eða með öðrum hætti, þá vil ég segja það, að ég get ekki ímyndað mér að það fordæmi geti orðið öðrum hættulegt, þegar maður hefur í huga að íslenska sjómannastéttin er um 5 þúsund manns sem njóta ekki þeirra réttinda sem frv, gerir ráð fyrir, á sama tíma sem 15 þúsund opinberir starfsmenn njóta fullra réttinda í sambandi við t. d. verðtryggðan ellilífeyri. Það gera sjómenn ekki.

Efni frv. gerir raunverulega ráð fyrir því í framkvæmd, að sjómenn fái eftir tiltekinn árafjölda til sjós og eftir ákveðin aldurstakmörk raunverulega hin sömu réttindi og opinberir starfsmenn njóta núna og eru búnir að njóta í rúmlega tvo áratugi, þannig að það er ekki farið fram á mikið. Hins vegar kemur vel til álita, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom inn á, að þetta mál verði tekið upp á öðrum vettvangi. Við vitum að nú eru í endurskoðun öll lífeyrismál þjóðarinnar. Það er sérstök n., sem fjallar um þau. Sú n. er skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og fulltrúum BSRB og ríkisstj. Þessi n. á að ljúka störfum með þeim hætti, að það, sem hún kann að leggja til og horfir til bóta, komi til framkvæmda frá og með 1. jan. 1980. Mér finnst að efni þessa frv. eigi erindi til þessarar n., og ég lít svo á, að það sé hægt að fella efni frv. í meginatriðum inn í væntanlegar till. um endurbætur á lífeyrissjóðakerfinu, þannig að því verði fullnægt sem frv. gerir ráð fyrir.

Um stöðu flugmanna hefur mikið verið rætt í tengslum við þetta mál. Það hefur réttilega verið bent á að það sé sambærilegt eða svipað með sjómenn og flugmenn, að starfsaldur sé yfirleitt stuttur. En það hefur hins vegar ekki verið upplýst hér í umræðunum, að gert er ráð fyrir þessu í samningum flugmanna. Það er gert ráð fyrir því með þeim hætti, að 20% af launum flugmanna eru greidd í lífeyrissjóð. Það er gert með sérstöku tilliti til þess að gera lífeyrissjóð flugmanna svo öflugan, að hann geti tekið við þeim fyrr en gert er ráð fyrir um aðra ellilífeyrisþega, en þar er almenna reglan 30 ár og aðeins greidd 10% af launum. Sem sagt, það mætti þá álykta að með 20% greiðslunni í lífeyrissjóð flugmanna sé gert ráð fyrir að starfsaldur þeirra verði 1.5–20 ár.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Ég vildi aðeins láta skoðanir mínar í þessu máli koma fram. Ég tel að frv. feli í sér þá stefnu, sem endurskoðunarnefnd um lífeyrismál hefur að leiðarljósi, sem er aukið réttlæti í lífeyrismálum, og það er þá til handa sjómönnum sem öðrum sem búa við skarðan hlut í þessum málum. Það er unnið að þessari kerfisbreytingu. Það er unnið að því að tryggja öllum ellilífeyrisþegum verðtryggðan ellilífeyri sem sé byggður á ævitekjum. Og þótt sjómenn fengju einhverja sérstöðu í hinu nýja kerfi, þá lít ég þannig á, að það þurfi ekki að vera fordæmi fyrir aðrar stéttir.